Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI

Þegar þið eruð ósammála

Þegar þið eruð ósammála

 Ólík áhugamál, venjur og eiginleikar geta reynt nógu mikið á í hjónabandinu. En sumt getur verið enn viðkvæmara, eins og eftirfarandi spurningar:

  •   Hve miklum tíma eigum við að verja með ættingjum?

  •   Hvernig eigum við að fara með peninga?

  •   Eigum við að eignast börn?

 Hvað getið þið hjónin gert ef þið eruð ósammála?

 Gott er að vita

 Að vera samrýmd þýðir ekki að vera nákvæmlega eins. Mjög samrýmd hjón hafa stundum ólík viðhorf, jafnvel til mikilvægra mála.

 „Ég ólst upp í fjölskyldu sem varði miklum tíma saman. Um helgar vorum við með ömmu og afa, frændum og frænkum. Fjölskylda mannsins míns var ekki eins mikið saman. Við höfum því ólíkar skoðanir á því hve miklum tíma við ættum að verja með fjölskyldunni eða í að tala við ættingja sem búa fjarri.“ – Tamara.

 „Við hjónin ólumst upp við ólíkar hugmyndir um hvernig ætti að fara með peninga. Fyrstu mánuðina eftir að við giftum okkur deildum við nokkrum sinnum um það. Við þurftum að ræða það þó nokkrum sinnum áður en við komumst að samkomulagi.“ – Tyler.

Tveir einstaklingar geta horft á það sama án þess að sjá það eins. Á sama hátt geta hjón litið sama mál ólíkum augum.

 Sumt er ekki hægt að leysa með málamiðlun. Hvað ef tengdaforeldri veikist til dæmis og þarf umönnun? Eða annað hjónanna vill eignast börn en hitt ekki? a

 „Við hjónin höfum átt nokkrar langar samræður um barneignir. Konan mín hugsar sífellt meira um það og sjónarmið okkar verða stöðugt ólíkari. Ég sé ekki hvernig við getum komist að samkomulagi.“ – Alex.

 Hjónabandið þarf ekki að vera dauðadæmt þó að þið hafið ólíkar skoðanir. Sumir sérfræðingar segja að maður eigi að gera allt sem maður getur til að fá sínu framgengt ef maður er ósammála maka sínum um mikilvæg mál, jafnvel þó að það kosti skilnað. En sú „lausn“ leggur of mikla áherslu á hvað þér sjálfum finnst og of litla áherslu á hjúskaparheitið sem þú gafst frammi fyrir Guði um að standa með maka þínum í blíðu og stríðu.

 Hvað er til ráða?

 Verið staðráðin í að standa við hjúskaparheitið. Þá getið þið tekist á við vandann sem teymi frekar en keppinautar.

 Meginregla í Biblíunni: „Það sem Guð hefur tengt saman má enginn maður aðskilja.“ – Matteus 19:6.

 Reiknið út kostnaðinn. Segjum til dæmis að annað ykkar vilji eignast börn en ekki hitt. Ýmislegt þarf að hafa í huga, svo sem:

  •   Er hjónabandið nógu sterkt?

     Ræður hjónabandið við aukið álag sem fylgir því að ala upp barn?

  •   Ráðið þið við ábyrgðina sem fylgir foreldrahlutverkinu?

     Það þarf meira en að sjá börnunum fyrir mat, fötum og húsaskjóli.

  •   Hvernig er fjárhagur ykkar?

     Getið þið haft jafnvægi á milli vinnu, fjölskyldu og annarra skyldna?

 Meginregla í Biblíunni: „Ef einhver ykkar vill byggja turn, sest hann þá ekki fyrst niður og reiknar kostnaðinn?“ – Lúkas 14:28.

 Skoðið allar hliðar málsins. Þið getið kannski leyst sumt af því sem þið eruð ósammála um. Til dæmis ef þið eruð ekki sammála um hvort þið eigið að eignast börn getur það ykkar sem vill síður eignast börn spurt sig:

  •   Þegar ég segist ekki vilja eignast börn á ég þá við að ég vilji það aldrei eða bara ekki núna?

  •   Hika ég við það vegna þess að ég efast um að ég geti staðið mig vel sem foreldri?

  •   Óttast ég að maki minn myndi vanrækja mig?

 Það ykkar sem vill eignast börn gæti hins vegar spurt sig:

  •   Erum við tilbúin að axla foreldraábyrgðina?

  •   Höfum við efni á því að ala upp barn?

 Meginregla í Biblíunni: „Viskan sem kemur ofan að er ... sanngjörn.“ – Jakobsbréfið 3:17.

 Sjáðu kostina við sjónarmið maka þíns. Tveir einstaklingar geta horft á það sama án þess að sjá það eins. Á sama hátt geta hjón litið sama málið ólíkum augum, til dæmis hvernig ætti að fara með peninga. Þegar þið ræðið mál sem ykkur greinir á um skuluð þið byrja á að skoða hvað þið eruð sammála um.

  •   Hvaða markmið eruð þið sammála um?

  •   Hvaða kosti hefur hvort sjónarmið fyrir sig?

  •   Getur annað ykkar eða þið bæði lagað sjónarmið sitt að hinu, hjónabandsins vegna?

 Meginregla í Biblíunni: „Hugsið ekki um eigin hag heldur hag annarra.“ – 1. Korintubréf 10:24.

a Mikilvæg mál ætti að ræða fyrir hjónaband. En óvæntar aðstæður geta komið upp eða annað hjónanna skipt um skoðun með tímanum. – Prédikarinn 9:11.