Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | JÓSEF

„Ekki kem ég í Guðs stað“

„Ekki kem ég í Guðs stað“

JÓSEF stóð í garðinum sínum í kvöldhúminu. Hann virti fyrir sér döðlupálmana, hin ávaxtatrén og vatnaplönturnar í tjörnunum. Rétt handan við garðvegginn sá hann glitta í höll faraós. Úr húsi Jósefs bárust kunnugleg hljóð. Manasse, sonur hans, lék við Efraím, litla bróður sinn, sem skríkti af hlátri. Jósef gat auðveldlega ímyndað sér hvað um var að vera í húsinu og séð eiginkonu sína fyrir sér hlæja blíðlega að leik drengjanna. Jósef brosti. Hann gerði sér vel grein fyrir því að hann naut blessunar Guðs.

Jósef hafði nefnt frumburð sinn Manasse því að merking nafnsins vísar til þess að gleyma. (1. Mósebók 41:51) Þær blessanir, sem Guð hafði veitt Jósef síðustu árin, höfðu án efa linað tregafullar minningar hans um æskuheimili sitt, bræður sína og föður. Hatrið, sem eldri bræður hans báru til hans, hafði umturnað lífi hans. Þeir höfðu ráðist á hann og ætlað sér að drepa hann en síðan ákveðið að selja hann sem þræl til farandkaupmanna. Eftir það lenti hann í miklum þrengingum sem stóðu yfir í meira en áratug. Hann hafði bæði verið þræll og setið í fangelsi og um tíma jafnvel verið hlekkjaður í járn. En núna var hann næstur faraó að völdum í hinu öfluga stórveldi, Egyptalandi. *

Um nokkurra ára skeið hafði Jósef séð ýmsa atburði eiga sér stað rétt eins og Jehóva Guð hafði sagt fyrir. Langt var liðið á allsnægtaárin sjö í Egyptalandi og landið hafði hvað eftir annað gefið af sér metuppskeru. Jósef hafði séð um að safna í hlöður öllum umframbirgðum þjóðarinnar af korni. Á þessum árum höfðu hann og Asenat, eiginkona hans, eignast tvo syni. Samt leitaði hugur hans oft heim til fjölskyldunnar sem var mörg hundruð kílómetra í burtu. Hann hugsaði sérstaklega til Benjamíns, yngri bróður síns, og Jakobs, föður þeirra, sem hann unni heitt. Jósef vonaði innilega að þeir væru við góða heilsu og öruggir. Kannski leiddi hann líka hugann að því hvort eldri bræður hans væru enn harðbrjósta og grimmir og hvort hann gæti einhvern tíma friðmælst við þá og sameinast fjölskyldunni á ný.

Ef afbrýðissemi, svik eða hatur hefur einhvern tíma ógnað friði og einingu fjölskyldu þinnar áttu ýmislegt sameiginlegt með Jósef. Hvað getum við lært af þeirri trú sem hann sýndi þegar hann annaðist fjölskyldu sína?

„FARIÐ TIL JÓSEFS“

Jósef hafði í mörgu að snúast og árin þutu hjá. Jehóva hafði sagt fyrir í draumi faraós að eftir sjö allsnægtaár í Egyptalandi yrði skyndileg breyting. Og þannig fór. Uppskeran brást! Ekki leið á löngu þar til hungursneyð braust út í öllum nágrannalöndunum. En þó segir frásagan: „Um allt Egyptaland var til brauð.“ (1. Mósebók 41:54) Spádómurinn, sem Guð hafði boðið Jósef að flytja, og skipulagshæfni hans komu egypsku þjóðinni til bjargar.

Jósef var ávallt auðmjúkur og þess vegna gat Jehóva nýtt hæfileika hans.

Egyptum fannst þeir örugglega standa í þakkarskuld við Jósef og lofuðu skipulagshæfni hans. Jósef vildi þó eflaust að heiðurinn beindist eingöngu að Jehóva, Guði hans. Ef við notum hæfileika okkar til að þjóna Jehóva af auðmýkt leyfir hann okkur kannski að nota þessa hæfileika á þann hátt sem við hefðum aldrei getað ímyndað okkur.

Eftir einhvern tíma tók hungursneyðin einnig að herja á Egyptaland. Þegar Egyptarnir leituðu ásjár faraós sagði hann einfaldlega við þá: „Farið til Jósefs og gerið eins og hann segir ykkur.“ Jósef opnaði þá forðabúrin þar sem allt kornið var geymt og fólkið gat keypt það sem það þurfti. – 1. Mósebók 41:55, 56.

Nágrannaþjóðirnar voru þó ekki eins lánsamar. Hundruð kílómetra í burtu, í Kanaanslandi, kreppti að fjölskyldu Jósefs. Jakob, sem var orðinn aldraður, frétti að til væri korn í Egyptalandi og sagði sonum sínum að fara þangað og kaupa vistir. – 1. Mósebók 42:1, 2.

Jakob sendi tíu syni sína til Egyptalands en hélt Benjamín, yngsta syninum, heima. Jakob var síður en svo búinn að gleyma því þegar hann sendi Jósef einan til að vitja eldri bræðra sinna. Hann hafði ekki séð þennan ástkæra son sinn síðan. Jakob hafði gefið Jósef glæsilegan kyrtil til tákns um velþóknun sína og föðurást en hinir synirnir höfðu komið heim með þennan kyrtil allan rifinn og blóðugan. Þeir létu föður sinn, sem var niðurbrotinn af sorg, halda að villidýr hefði drepið Jósef. – 1. Mósebók 37:31-35.

„HANN MINNTIST DRAUMANNA“

Eftir langt ferðalag komu synir Jakobs loks til Egyptalands. Þegar þeir spurðust fyrir hvar hægt væri að kaupa korn var þeim vísað til hátt setts embættismanns sem hét Safenatpanea. (1. Mósebók 41:45) En áttuðu þeir sig á, þegar þeir sáu hann, að þetta væri Jósef? Nei. Í þeirra augum var hann valdamikill egypskur ráðamaður og það var á valdi hans að ákveða hvort þeir fengju að kaupa korn. Til að sýna honum tilhlýðilega virðingu gerðu þeir það sem eðlilegt var: „[Þeir] lutu honum og féllu fram á ásjónu sína.“ – 1. Mósebók 42:5, 6.

Jósef þekkti bræður sína samstundis! Og þegar hann horfði á þá falla fram fyrir sér vakti það upp ljóslifandi minningar í huga hans. Frásagan segir að Jósef ,hafi minnst draumanna‘ sem Jehóva lét hann dreyma þegar hann var aðeins unglingur. Þessir draumar voru spádómur um þann tíma þegar bræður hans kæmu og féllu fram fyrir honum – rétt eins og þeir gerðu núna. (1. Mósebók 37:2, 5-9; 42:7, 9) Hvað átti Jósef að gera? Átti hann að taka þeim opnum örmum? Átti hann að hefna sín á þeim?

Jósef vissi að það var mikilvægt að hann gerði ekkert í fljótfærni, að hann léti tilfinningarnar ekki stjórna sér. Jehóva stóð greinilega á bak við þessa ótrúlegu atburðarás og hún varðaði fyrirætlun hans. Hann hafði lofað að gera niðja Jakobs að voldugri þjóð. (1. Mósebók 35:11, 12) Ef bræður Jósefs væru enn harðsvíraðir, eigingjarnir og grimmir gæti það haft skelfilegar afleiðingar til langs tíma litið. Og ef Jósef léti tilfinningarnar ráða för myndu bræður hans kannski bregðast ókvæða við og það gæti jafnvel stofnað lífi Jakobs og Benjamíns í hættu, ef þeir voru þá enn á lífi. Jósef ákvað að halda því leyndu hver hann væri svo að hann gæti reynt bræður sína og komist að því hvaða mann þeir höfðu að geyma. Þá gæti hann betur áttað sig á hvað Jehóva vildi að hann gerði.

Það er ólíklegt að þú eigir einhvern tíma eftir að lenda í jafn óvenjulegum aðstæðum og Jósef. Erjur og ósætti innan fjölskyldunnar færast þó í aukana nú á dögum. Þegar við stöndum frammi fyrir slíkum vandamálum hættir okkur kannski til að bregðast við í fljótfærni og láta tilfinningarnar ráða. Það er mun skynsamlegra að líkja eftir Jósef og reyna að átta okkur á hvernig Guð vill að við tökum á málinu. (Orðskviðirnir 14:12) Hafðu í huga að þótt mikilvægt sé að leita sátta við fjölskyldumeðlimi er enn mikilvægara að eiga frið við Jehóva og son hans. – Matteus 10:37.

„ÞANNIG MUN ÉG REYNA YKKUR“

Jósef hófst strax handa við að reyna bræður sína til að komast að því hvað bjó í hjarta þeirra. Hann byrjaði á því að tala hranalega við þá með aðstoð túlks og sakaði þá um njósnir. Sér til varnar sögðu þeir honum frá fjölskyldu sinni, meðal annars því að þeir ættu yngri bróður sem væri heima hjá föður þeirra. Jósef reyndi hvað hann gat til að leyna eftirvæntingu sinni. Var yngri bróðir hans virkilega á lífi? Nú vissi Jósef hvaða skref hann átti að stíga næst. Hann sagði: „Þannig mun ég reyna ykkur“ og bætti síðan við að hann yrði að fá að sjá yngsta bróðurinn. Að nokkrum dögum liðnum féllst hann á að leyfa þeim að snúa heim til að sækja yngsta bróðurinn, svo framarlega sem einn þeirra yrði eftir sem gísl. – 1. Mósebók 42:9-20.

Bræðurnir ræddu saman án minnstu vitundar um að Jósef skildi það sem þeir sögðu og ávítuðu sjálfa sig fyrir þá grófu synd sem þeir höfðu drýgt 20 árum áður. Þeir sögðu: „Þetta er refsingin fyrir það sem við gerðum bróður okkar. Við sáum örvæntingu hans þegar hann baðst vægðar en við létum sem við heyrðum það ekki. Þess vegna erum við lentir í þessum vanda.“ Jósef skildi það sem þeir sögðu og þurfti að ganga afsíðis svo að þeir myndu ekki sjá hann gráta. (1. Mósebók 42:21-24) Hann vissi þó að sönn iðrun fæli í sér mun meira en að harma aðeins afleiðingar þess illa sem gert var. Hann stóð því fast við áform sín um að reyna þá.

Hann sendi þá heim en tók Símeon til fanga. Hann lét fylla sekki þeirra af matarbirgðum og lét fela silfurpeninga efst í sekkjunum. Bræðurnir komust heim og með erfiðismunum töldu þeir Jakob á að leyfa sér að taka Benjamín með sér til Egyptalands. Þegar þeir komu til Egyptalands sögðu þeir ráðsmanni Jósefs hreinskilnislega frá peningunum sem þeir höfðu fundið í sekkjunum og buðust til að skila þeim öllum. Hreinskilni þeirra var lofsverð en Jósef vildi samt fá að sjá betur þeirra rétta eðli. Hann bauð þeim til veislu og þegar hann sá Benjamín tókst honum með naumindum að leyna geðshræringu sinni. Síðan sendi hann þá aftur heim og enn á ný lét hann kúffylla sekki þeirra af matarbirgðum en í þetta skipti lét hann fela silfurbikar í sekk Benjamíns. – 1. Mósebók 42:26 – 44:2.

Því næst lét Jósef veita bræðrum sínum eftirför. Þeir voru handteknir og sakaðir um að hafa stolið bikarnum. Þegar bikarinn fannst í sekk Benjamíns voru allir bræðurnir fluttir til baka og látnir koma fram fyrir Jósef. Nú fékk Jósef tækifæri til að sjá hvaða mann bræður hans hefðu raunverulega að geyma. Júda talaði fyrir hönd bræðranna og sárbændi Jósef um miskunn. Hann bauð jafnvel Jósef að þeir yrðu allir eftir í Egyptalandi sem þrælar hans. En Jósef stóð fast á því að enginn nema Benjamín yrði eftir í Egyptalandi sem þræll og að allir hinir yrðu að fara á brott. – 1. Mósebók 44:2-17.

Þetta nísti hjarta Júda og hann sagði tilfinningaþrunginni röddu: „Hann er einn á lífi af börnum móður sinnar og faðir hans elskar hann.“ Þessi orð hljóta að hafa vakið upp sterkar tilfinningar hjá Jósef því að hann var einnig sonur Rakelar sem lést þegar Benjamín, yngri bróðir hans, fæddist. Jósef varðveitti minninguna um Rakel í hjarta sínu, líkt og faðir hans sem hafði elskað hana svo heitt. Eflaust voru það þessi tengsl sem gerðu að verkum að Benjamín var honum ákaflega hjartfólginn. – 1. Mósebók 35:18-20; 44:20.

Júda grátbað Jósef um að gera Benjamín ekki að þræl sínum. Hann bað jafnvel um að fá að verða þræll í stað Benjamíns. Júda lauk máli sínu með þessum átakanlegu orðum: „Hvernig gæti ég farið heim til föður míns án þess að hafa drenginn með mér? Ég þoli ekki að sjá þá óhamingju koma yfir föður minn.“ (1. Mósebók 44:18-34) Þetta var skýr sönnun um að Júda væri breyttur maður. Hann lét ekki aðeins í ljós að hann iðraðist heldur sýndi einnig lofsverða umhyggju, óeigingirni og samkennd.

Jósef sá að bræður hans iðruðust þess sem þeir höfðu gert honum.

Nú réð Jósef ekki lengur við tilfinningarnar sem bærðust innra með honum. Eftir að hafa látið alla þjóna sína fara út brast hann í grát og grét svo hátt að það heyrðist allt til hallar faraós. Síðan sagði hann við þá: „Ég er Jósef, bróðir ykkar.“ Hann faðmaði bræður sína, sem stóðu þarna furðu lostnir, og sannfærði þá hlýlega um að hann fyrirgæfi þeim allt sem þeir höfðu gert honum. (1. Mósebók 45:1-15) Þannig líkti hann eftir Jehóva sem fyrirgefur ríkulega. (Sálmur 86:5) Gerum við það líka?

„ÞÚ ERT ENN Á LÍFI“!

Þegar faraó fékk að vita hvað hefði átt sér stað í húsi Jósefs bauð hann honum að senda eftir öldruðum föður hans og allri fjölskyldunni og flytja þau til Egyptalands. Því leið ekki á löngu þar til Jósef hitti loksins elskaðan föður sinn. Jakob grét og sagði: „Nú er ég búinn undir dauða minn fyrst ég hef séð auglit þitt og veit að þú ert enn á lífi.“ – 1. Mósebók 45:16-28; 46:29, 30.

Jakob lifði reyndar í 17 ár til viðbótar í Egyptalandi. Hann lifði nógu lengi til að geta veitt öllum 12 sonum sínum blessanir sem höfðu spádómlega þýðingu. Hann gaf Jósef, ellefta syninum, tvöfaldan hlut sem alla jafna tilheyrði frumburðinum. Af honum kæmu tvær ættkvíslir Ísraels. Og hvað um Júda, fjórða soninn, sem bar af bræðrum sínum þegar hann iðraðist einlæglega? Hann hlaut ríkulega blessun: Messías kæmi í hans ættlegg! – 1. Mósebók kaflar 48, 49.

Þegar Jakob dó 147 ára að aldri óttuðust bræður Jósefs að nú myndi hann nota völd sín til að ná fram hefndum. En Jósef hughreysti þá ástúðlega. Hann hafði lengi sagt bræðrum sínum að hætta að álasa sjálfum sér fyrir það sem gerst hafði, fyrst það var Jehóva sem stóð að baki því að fjölskyldan flytti til Egyptalands. Síðan mælti hann þessi eftirtektarverðu orð: „Ekki kem ég í Guðs stað.“ (1. Mósebók 15:13; 45:7, 8; 50:15-21) Í augum Jósefs var Jehóva fullkomlega réttlátur dómari. Átti Jósef þá að refsa þeim sem Jehóva hafði fyrirgefið? – Hebreabréfið 10:30.

Finnst þér stundum erfitt að fyrirgefa öðrum? Það getur verið þrautin þyngri þegar einhver hefur gert á hlut manns af ásettu ráði. En ef við fyrirgefum af öllu hjarta þeim sem iðrast í einlægni leggjum við okkar af mörkum til að græða sárin, þar á meðal okkar eigin. Þá líkjum við einnig eftir trú Jósefs og fylgjum fordæmi Jehóva, föður hans á himnum, sem er sannarlega miskunnsamur.

^ gr. 4 Sjá greinarnar „Líkjum eftir trú þeirra“ sem birtust í Varðturninum september-október 2014, janúar-febrúar 2015 og mars-apríl 2015.