Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jacques Lefèvre d’Étaples – hann vildi að alþýðufólk kynntist orði Guðs

Jacques Lefèvre d’Étaples – hann vildi að alþýðufólk kynntist orði Guðs

KIRKJUGESTIR í bænum Meaux, í nágrenni Parísar, trúðu ekki eigin eyrum þegar þeir heyrðu upplestur úr guðspjöllunum á móðurmáli sínu, frönsku, í stað latínu. Þetta var á sunnudagsmorgni snemma á þriðja áratug 16. aldar.

Maðurinn, sem átti frumkvæðið að þessu, var biblíuþýðandinn Jacques Lefèvre d’Étaples (á latínu Jacobus Faber Stapulensis). Síðar skrifaði hann góðum vini sínum: „Þú getur ekki ímyndað þér hvernig Guð hjálpar almúgafólki að skilja orð sitt.“

Kaþólska kirkjan og guðfræðingar í París beittu sér gegn því að notaðar væru biblíuþýðingar á tungu almennings. Hvers vegna ákvað Lefèvre þá að þýða Biblíuna á frönsku? Og hvernig tókst honum að gera alþýðufólki kleift að skilja orð Guðs?

HANN LAGÐI SIG FRAM UM AÐ SKILJA BOÐSKAP BIBLÍUNNAR

Áður en Lefèvre varð biblíuþýðandi hafði hann helgað sig því að endurheimta upprunalega merkingu fornra bókmennta Grikkja og Rómverja á sviði heimspeki og guðfræði. Hann sá að fornir textar höfðu oft spillst vegna þess að þeir höfðu verið mistúlkaðir og villur slæðst inn í þá með tímanum. Í leit sinni að réttri merkingu fornritanna rannsakaði hann rækilega latnesku Vulgata-þýðinguna en hún var sú biblíuþýðing sem kaþólska kirkjan notaði.

Lefèvre rannsakaði Biblíuna af einlægni og komst að raun um að „aðeins með því að kynna sér sannleika Guðs fær maður fyrirheit um ... sanna hamingju“. Þess vegna hætti hann að fást við heimspekirannsóknir og sneri sér alfarið að því að þýða Biblíuna.

Árið 1509 birti Lefèvre samanburðarrannsóknir sínar á fimm latneskum þýðingum Sálmanna, * þar á meðal endurbætta þýðingu sína á Vulgata-þýðingunni. Ólíkt guðfræðingum þess tíma reyndi hann að þýða Biblíuna á auðskiljanlegt og eðlilegt mál. Aðferð hans við að túlka Biblíuna hafði mikil áhrif á aðra biblíufræðinga og siðbótarmenn. – Sjá rammann „ Lefèvre hafði áhrif á Martein Lúter“.

Listi úr bókinni Quincuplex Psalterium yfir titla sem Guð ber í Sálmunum. Útgáfa frá 1513.

Lefèvre var alinn upp í kaþólskri trú og var sannfærður um að ekki væri hægt að gera umbætur á kirkjunni nema almúgafólk fengi staðgóða kennslu í Ritningunni. En hvernig væri mögulegt fyrir almenning að hafa gagn af Biblíunni þegar þetta helga rit var nánast bara til á latínu?

BIBLÍUÞÝÐING SEM VAR AÐGENGILEG ÖLLUM

Í inngangi að guðspjöllunum má sjá að það var löngun Lefèvres að gera Biblíuna aðgengilega öllum á móðurmáli þeirra.

Lefèvre elskaði orð Guðs og var þess vegna staðráðinn í að gera það aðgengilegt sem flestum. Til að ná því markmiði gaf hann út franska þýðingu guðspjallanna í júní 1523. Þýðingin var gefin út í tveimur bindum í vasabroti sem kostuðu aðeins helming á við hefðbundna útgáfu. Því var auðveldara fyrir fólk með lítil fjárráð að eignast eintak af Biblíunni.

Viðbrögð almennings létu ekki á sér standa. Fólk var stórhrifið! Bæði karlar og konur voru svo áköf að lesa orð Jesú á móðurmáli sínu að fyrstu 1.200 eintökin seldust upp á fáeinum mánuðum.

HANN VARÐI BIBLÍUNA AF HUGREKKI

Í inngangi að guðspjöllunum greindi Lefèvre frá því að hann hefði þýtt þau á frönsku til þess að „venjulegt fólk“ innan kirkjunnar „gæti verið jafn vel heima í sannleika fagnaðarerindisins og þeir sem gátu lesið latínu“. Hvers vegna lagði Lefèvre svo mikið kapp á að almenningur fengi að vita hvað Biblían kennir?

Lefèvre gerði sér vel grein fyrir að mannasetningar og heimspeki höfðu spillandi áhrif á kaþólsku kirkjuna. (Markús 7:7; Kólossubréfið 2:8) Og hann var sannfærður um að tími væri kominn til að boðskapur guðspjallanna væri „boðaður ómengaður um allan heim svo að fólk sé ekki lengur leitt afvega með framandi mannasetningum“.

Lefèvre kappkostaði einnig að afhjúpa rangar fullyrðingar þeirra sem lögðust gegn því að Biblían yrði þýdd á frönsku. Hann fordæmdi hræsni þeirra með þessum orðum: „Hvernig geta þeir kennt [fólki] að fara eftir öllu því sem Jesús bauð ef þeir vilja alls ekki að almúginn sjái og lesi fagnaðarboðskap Guðs á móðurmáli sínu?“ – Rómverjabréfið 10:14.

Eins og við mátti búast reyndu guðfræðingar Sorbonneháskóla í París fljótlega að þagga niður í Lefèvre. Í ágústmánuði árið 1523 lýstu þeir sig andvíga því að Biblían væri útskýrð eða þýdd á þjóðtunguna og töldu það „skaðlegt kirkjunni“. Ef Frans fyrsti Frakklandskonungur hefði ekki hlutast til um málið hefði Lefèvre verið sakfelldur fyrir villutrú.

ÞÝÐANDINN LÝKUR VERKI SÍNU ÁN ÞESS AÐ SVARA MÓTSTÖÐUMÖNNUM

Lefèvre lét ekki hatrammar deilur um verk sín trufla sig við að þýða Biblíuna. Árið 1524, þegar hann hafði lokið við að þýða Nýja testamentið, gaf hann út Sálmana á frönsku svo að trúað fólk gæti beðið til Guðs „af meiri tilfinningu og trúartrausti“.

Guðfræðingar við Sorbonneháskóla réðust strax í að grandskoða verk Lefèvres og innan skamms skipuðu þeir svo fyrir að þýðing hans á Nýja testamentinu skyldi brennd opinberlega. Þeir fordæmdu einnig ýmis önnur skrif hans og sökuðu hann um að vera „hlynntur villutrú Lúters“. Þegar guðfræðingarnir boðuðu Lefèvre á sinn fund til að standa fyrir máli sínu ákvað hann að svara þeim engu og flúði til Strassborgar. Þar hélt hann áfram að þýða Biblíuna, en með leynd. Sumum fannst það vera merki um hugleysi en hann áleit það besta svarið við ásökunum þeirra sem kunnu ekki að meta dýrmætar perlur Biblíunnar. – Matteus 7:6.

Tæplega ári eftir að Lefèvre flúði réð Frans fyrsti hann sem einkakennara Karls, fjögurra ára gamals sonar síns. Með því fékk Lefèvre nægan tíma til að ljúka við biblíuþýðingu sína. Þýðing hans á Biblíunni í heild var prentuð árið 1530 utan Frakklands, í Antwerpen í Belgíu, með samþykki Karls fimmta keisara. *

VÆNTINGAR OG VONBRIGÐI

Lefèvre vonaðist alla ævi eftir að kirkjan hyrfi frá erfðavenjum manna og tæki aftur upp ómengaðan sannleika Biblíunnar. Hann trúði statt og stöðugt á „rétt og skyldu hvers kristins manns til að lesa í Biblíunni og kynnast boðskap hennar“. Þess vegna lagði hann svo hart að sér til að gera Biblíuna aðgengilega öllum. Þó að ósk hans um umbætur á kirkjunni yrðu ekki að veruleika er arfleifð hans óumdeilanleg: Hann gerði almenningi kleift að kynnast orði Guðs.

^ gr. 8 Í bókinni Quincuplex Psalterium voru fimm útgáfur af Sálmunum, hver í sínum dálki. Í henni var einnig listi yfir titla sem Guð ber, ásamt fjórstafanafni hans skrifað með fjórum hebreskum stöfum.

^ gr. 21 Fimm árum síðar, árið 1535, gaf þýðandinn Pierre-Louis Olivétan út þýðingu sína á Biblíunni á frönsku. Hún var byggð á frummálunum. Hann studdist við verk Lefèvres þegar hann þýddi Nýja testamentið.