Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Orð Guðs kunngert á Spáni á miðöldum

Orð Guðs kunngert á Spáni á miðöldum

„Mig hefur árum saman langað að koma til ykkar um leið og ég færi til Spánar. Ég vona að fá að sjá ykkur, er ég fer um hjá ykkur, og að þið búið mig til ferðar þangað þegar ég hef fengið að njóta samvista við ykkur um hríð.“ – Rómverjabréfið 15:23, 24.

PÁLL postuli skrifaði þessi orð til trúsystkina sinna í Róm um árið 56. Það kemur ekki fram í Biblíunni hvort Páll hafi nokkurn tímann komist til Spánar en vegna viðleitni hans eða annarra trúboða barst fagnaðarboðskapur Biblíunnar alla leið þangað á annarri öld.

Fljótlega tók kristin trú að blómstra og dafna á Spáni. Fólkið sem bjó þar þurfti því nauðsynlega að fá Biblíuna þýdda á latínu. Ástæðan var sú að á annarri öld hafði Spánn verið undir yfirráðum Rómverja um alllangt skeið og latína var opinbert mál í gervöllu rómverska heimsveldinu.

BIBLÍUR Á LATÍNU MÆTTU ÞÖRFINNI

Fyrstu kristnu mennirnir á Spáni bjuggu til nokkrar þýðingar á latínu sem gengu undir nafninu La Vetus Latina Hispana. Í mörg ár var þessum biblíum dreift víða um Spán áður en Híerónýmus lauk við gerð hinnar frægu Vulgata-þýðingar snemma á fimmtu öld.

Biblíuþýðing Híerónýmusar, sem hann lauk við í Betlehem í Palestínu, barst til Spánar á mettíma. Þegar Luciníus, sem var auðugur biblíunemandi, frétti að Híerónýmus væri að vinna að latneskri biblíuþýðingu vildi hann fá eintak af henni eins fljótt og auðið var. Hann sendi sex skrifara til Betlehem til að afrita textann og koma honum heim til Spánar. Með tímanum kom Vulgata-þýðingin í stað La Vetus Latina Hispana. Þessar latnesku þýðingar gerðu Spánverjum kleift að lesa Biblíuna og skilja boðskap hennar. En eftir fall Rómaveldis þurfti að þýða Biblíuna á fleiri tungumál.

BIBLÍAN Á STEINSKÍFUM

Á fimmtu öld réðust Vestgotar og aðrir germanskir þjóðflokkar inn í Spán og með þeim kom nýtt tungumál, gotneska. Innrásarmennirnir voru kristnir en aðhylltust Aríusartrú og höfnuðu þar af leiðandi þrenningarkenningunni. Í fórum sínum höfðu þeir líka sína eigin biblíuþýðingu, gotneska biblíu Úlfílasar. Spánverjar notuðu þessa þýðingu til loka sjöttu aldar þegar Recaredo Vestgotakonungur gerðist kaþólskur og bannaði Aríusartrú. Hann lét safna saman og eyðileggja allar Aríusarbækur þar með talda biblíu Úlfílasar. Eftir það var engin gotnesk rit að finna á Spáni.

Steinskífa með biblíutexta á latneskri mállýsku, frá sjöttu öld.

Orð Guðs hélt þó áfram að breiðast út á Spáni á þessum tíma. Auk gotnesku var víða töluð latnesk mállýska og af henni spruttu seinna meir rómönsku tungumálin sem töluð eru á Íberíuskaganum. * Elstu ritin á þessari latnesku mállýsku eru kölluð Vestgotaskífurnar af því að þau voru skrifuð á steintöflur eða – skífur. Þessar skífur eru frá sjöttu og sjöundu öld og á sumum þeirra er að finna vers úr Sálmunum og guðspjöllunum. Á einni þeirra er að finna sextánda sálminn í heild.

Þessar fátæklegu skífur með biblíuversum eru merki um að venjulegt fólk las og afritaði orð Guðs á þessum tíma. Kennarar virðast hafa notað svona skífur með biblíuversum til að kenna nemendum að lesa og skrifa. Þessar steinskífur voru ódýr valkostur miðað við rándýru handritaskinnin sem notuð voru í klaustrum á miðöldum til að búa til myndskreyttar biblíur.

Mynd úr León-biblíunni sem var ríkulega myndskreytt. Þó að myndskreyttar biblíur séu mjög verðmætar gerðu þær lítið gagn við að útbreiða fagnaðarboðskapinn meðal fólks.

Ein ómetanleg myndskreytt biblía frá árinu 960 er varðveitt í San Isidoro-kirkjunni í borginni León á Spáni. Þessi biblía hefur að geyma 516 skinnblöð sem hvert um sig er 47 sentímetrar á lengd og 34 sentímetrar á breidd. Hún er um 18 kíló að þyngd. Aðra slíka má finna í bókasafninu í Páfagarði. Það er Ripolls-biblían frá því um 1020. Hún er ein myndskreyttasta biblían frá miðöldum. Til að búa til slíkt meistaraverk er ekki ólíklegt að munkur hafi varið heilum degi í að myndskreyta einn upphafsstaf eða heilli viku í að skreyta titilsíðu. Þó að þessar biblíur séu mjög verðmætar gerðu þær lítið gagn við að útbreiða fagnaðarboðskapinn meðal fólks.

BIBLÍAN Á ARABÍSKU

Þegar komið var fram á áttundu öld gerðu múslímar innrás í landið og í kjölfarið náði enn eitt tungumálið rótfestu þar. Á svæðunum sem þeir lögðu undir sig beið latína lægri hlut fyrir arabísku og með tímanum þurfti því að þýða Biblíuna á þetta nýja tungumál.

Frá fimmtu öld fram á þá áttundu var Biblían þýdd á latínu og arabísku svo að fólk á Spáni gæti lesið orð Guðs.

Margar arabískar biblíuþýðingar og þá sérstaklega guðspjöllin voru án efa í notkun á Spáni á miðöldum. Svo virðist sem Juan, biskup í Sevilla, hafi þýtt alla Biblíuna á arabísku á áttundu öld. Því miður hafa flestar þessar arabísku þýðingar glatast. Ein arabísk þýðing guðspjallanna, frá miðri 10. öld, er varðveitt í dómkirkjunni í León á Spáni.

Arabísk þýðing guðspjallanna frá 10. öld.

SPÆNSKAR ÞÝÐINGAR LITU DAGSINS LJÓS

Seint á miðöldum fór kastilíska, eða spænska, að taka á sig mynd á Íberíuskaganum. Þetta nýja tungumál átti eftir að verða öflugt verkfæri sem auðveldaði útbreiðsluna á orði Guðs. * Elstu þýðingar biblíutexta á spænsku er að finna í handriti frá því snemma á 13. öld sem nefnist La Fazienda de Ultra Mar (Sögur handan hafsins). Í þessu handriti er sagt frá leiðangri til Ísraels og í því má finna efni úr Mósebókunum og öðrum bókum Hebresku ritninganna ásamt guðspjöllunum og bréfum Grísku ritninganna.

Konungurinn Alfons 10. studdi við bakið á þeim sem þýddu Biblíuna á spænsku.

Yfirmenn kirkjunnar voru alls ekki ánægðir með þessa þýðingu. Á kirkjuþinginu í Tarragona árið 1234 var gefin út sú fyrirskipun að afhenda ætti prestum allar biblíubækur á spænsku og þeir sæju um að þær yrðu brenndar. Sem betur fer kom þessi fyrirskipun samt ekki í veg fyrir að Biblían yrði þýdd á spænsku. Konungurinn Alfons 10. (1252-1284), sem er talinn vera upphafsmaður spænska ritmálsins, vildi að ritningarnar yrðu þýddar á þetta nýja tungumál og studdi við bakið á þeim sem unnu það verk. Meðal spænskra þýðinga frá þessu tímabili má nefna hina svokölluðu Biblia Prealfonsina og Biblia Alfonsina sem kom út stuttu seinna og var umfangsmesta spænska þýðing síns tíma.

Blaðsíður úr biblíum frá 13. öld. Biblia Prealfonsina (til vinstri) og Biblia Alfonsina (til hægri).

Bæði þessi ritverk áttu þátt í að móta og auðga þetta nýja tungumál á Spáni. Fræðimaðurinn Thomas Montgomery sagði um Biblia Prealfonsina: „Þýðandi þessarar biblíu á hrós skilið fyrir nákvæmni og fallegt mál ... Þýðingin er skýr og einföld og mætti þannig þörfum þeirra sem kunnu ekki latínu.“

Þessar fyrstu biblíur á spænsku voru hins vegar ekki þýddar úr frummálum Biblíunnar heldur var stuðst við latnesku Vulgata-þýðinguna. Á 14. öld gáfu fræðimenn gyðinga út nokkrar spænskar þýðingar af Hebresku ritningunum sem þeir þýddu beint úr hebresku. Stærstu gyðingasamfélögin í Evrópu á þessum tíma voru á Spáni og þýðendur úr þeirra röðum höfðu aðgang að góðum hebreskum handritum sem þeir gátu þýtt eftir. *

Eitt besta dæmið um það var Biblia de Alba sem þýdd var á 15. öld. Luiz de Guzmán, sem var þekktur spænskur aðalsmaður, fékk rabbínann Moisés Arragel til að þýða Biblíuna á kastilísku. Hann lét uppi tvær ástæður fyrir því að hafa beðið um þessa nýju þýðingu. Um fyrri ástæðuna sagði hann: „Þær biblíur sem finna má á rómönsku máli nú á dögum eru mjög ónákvæmar.“ Og um þá síðari sagði hann: „Fólk eins og við þurfum á spássíutextanum að halda til að skilja flókin vers.“ Af orðum hans má sjá að fólk á þessum tíma hafði mikinn áhuga á að lesa Biblíuna og skilja það sem stendur í henni. Þau benda líka til þess að ritningarnar á tungumáli alþýðunnar hafi þá þegar hlotið mikla útbreiðslu á Spáni.

Það er þýðendum og afriturum á miðöldum að þakka að menntað fólk á Spáni gat lesið Biblíuna á sínu eigin tungumáli án mikilla erfiðleika. Því gat sagnfræðingurinn Juan Orts González sagt: „Spánverjar þekktu Biblíuna mikið betur en Þjóðverjar eða Englendingar fyrir daga Lúters.“

„Spánverjar þekktu Biblíuna mikið betur en Þjóðverjar eða Englendingar fyrir daga Lúters.“ – Juan Orts González sagnfræðingur.

Við lok 15. aldar fyrirskipaði spænski rannsóknarrétturinn hins vegar að hvorki mætti þýða né eiga biblíur á alþýðumálunum. Þetta biblíubann var mjög lengi við lýði á Spáni og það var ekki fyrr en þremur öldum seinna sem banninu var aflétt. Á þessum erfiða tíma voru samt nokkrir hugrakkir þýðendur erlendis sem þýddu Biblíuna á spænsku og létu svo smygla eintökum af henni til Spánar. *

Þegar við lítum á sögu Biblíunnar á Spáni á miðöldum sést glöggt að andstæðingar reyndu að uppræta orð Guðs á marga vegu. En þrátt fyrir slíkar tilraunir tókst þeim ekki að kæfa boðskapinn frá hinum almáttuga Guði. – Sálmur. 83:2; 94:20.

Orð Guðs náði bæði rótfestu og útbreiðslu á Spáni vegna þess að margir fræðimenn lögðu hart að sér. Þýðendur nú á dögum hafa fylgt fordæmi þessara frumkvöðla sem þýddu Biblíuna á latínu, gotnesku, arabísku og spænsku. Árangurinn varð sá að nú geta milljónir spænskumælandi manna lesið orð Guðs á því máli sem hreyfir við hjarta þeirra.

^ gr. 10 Meðal þeirra eru kastilíska, katalónska, galisíska og portúgalska.

^ gr. 17 Nú á dögum er spænska móðurmál um það bil 540 milljóna manna.

^ gr. 20 Sjá greinina „Nafn Guðs og fræðistörf Alfonsos de Zamora“ í Varðturninum janúar-mars 2012.

^ gr. 23 Sjá greinina „Casiodoro de Reina’s Fight for a Spanish Bible“ í Varðturninum á ensku 1. júní 1996.