Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver skipti Biblíunni í kafla og vers?

Hver skipti Biblíunni í kafla og vers?

ÍMYNDAÐU þér að þú sért einn hinna frumkristnu á fyrstu öldinni. Söfnuðurinn þinn hefur fengið bréf frá Páli postula. Þú tekur eftir því þegar bréfið er lesið að Páll vitnar oft í „heilagar ritningar“, það er að segja hebresku ritningarnar. (2. Tímóteusarbréf 3:15) Þú hugsar: „Ég myndi vilja sjá hvar þetta stendur.“ En það hefði ekki verið auðvelt. Hvers vegna ekki?

HVORKI KAFLAR NÉ VERS

Hafðu í huga hvernig ,heilögu ritningarnar‘ voru á dögum Páls. Við sjáum hér á blaðsíðunni hluta af Jesajabók úr Dauðahafshandritunum. Taktu eftir hvað textinn er þéttur. Það eru heldur engin greinamerki og hvergi eru kafla- eða versanúmer eins og við notum.

Biblíuritararnir skiptu ekki skrifum sínum niður í kafla eða vers. Þeir skrifuðu einfaldlega niður skilaboðin sem Guð gaf þeim þannig að lesandinn gæti lesið þau í heild en ekki bara brot af þeim. Hvað gerirðu þegar þú færð mikilvægt bréf frá einhverjum sem þú elskar? Lestu þá ekki allt bréfið en ekki bara hér og þar úr því?

Það fylgdu því ákveðin vandamál að hafa ekki vers og kafla. Páll þurfti því að segja eitthvað á borð við „eins og ritað er“ eða „eins hefur Jesaja sagt“ þegar hann vísaði í ritningarnar. (Rómverjabréfið 3:10; 9:29) Það hefði líka verið erfitt að finna það sem vísað var í án þess að þekkja „heilagar ritningar“ mjög vel.

Þar að auki voru „heilagar ritningar“ ekki einungis eitt bréf frá Guði. Í lok fyrstu aldar voru ritningarnar orðnar að safni 66 bóka. Því eru lesendur Biblíunnar almennt þakklátir fyrir að henni sé skipt í kafla og vers. Það hjálpar þeim að finna ákveðna ritningarstaði eins og til dæmis allar tilvitnanir Páls í bréfum hans.

Þú veltir kannski fyrir þér hver skipti Biblíunni í kafla og vers.

HVER SKIPTI BIBLÍUNNI NIÐUR Í KAFLA?

Enskum presti að nafni Stephen Langton, sem síðar varð erkibiskup af Kantaraborg, er eignuð kaflaskipting Biblíunnar. Hann vann það verk snemma á 13. öld þegar hann kenndi við Parísarháskóla í Frakklandi.

Fyrir daga Langtons höfðu fræðimenn reynt mismunandi leiðir til að skipta Biblíunni í smærri hluta eða kafla, fyrst og fremst til að eiga auðveldara með að vísa í hana. Það hefði augljóslega verið auðveldara fyrir þá að finna ákveðna ritningarstaði ef þeir hefðu bara þurft að leita í gegnum einn kafla frekar en heila bók – Jesajabók er til dæmis skipt niður í 66 kafla.

Þetta var þó ekki vandræðalaust. Fræðimenn bjuggu til mismunandi og ósamstæð kerfi. Í einu þeirra var Markúsarguðspjalli skipt í tæplega 50 kafla en ekki 16 eins og við þekkjum það. Á dögum Langtons var námsfólk frá ýmsum löndum í París. Það hafði meðferðis biblíur frá sínum heimalöndum. En nemendur og kennarar gátu ekki deilt biblíutilvitnunum sín á milli. Hvers vegna ekki? Því að kaflaskiptingum í ritum þeirra bar ekki saman.

Því bjó Langton til nýjar kaflaskiptingar. Kerfi hans „fangaði athygli lesenda og fræðimanna ... [og] hugmyndin dreifðist hratt um alla Evrópu“, segir í bókinni The Book – A History of the Bible.

HVER SKIPTI KÖFLUM NIÐUR Í VERS?

Um 300 árum síðar, á miðri 16. öld, einfaldaði Frakkinn Robert Estienne þetta kerfi til muna. Hann var þekktur fræðimaður og prentari. Markmið hans var að gera biblíunám aðgengilegra. Hann skildi hve gagnlegt það yrði að hafa samræmt kerfi með númeruðum köflum og versum.

Estienne kom þó ekki fyrstur fram með þá hugmynd að skipta texta Biblíunnar niður í vers. Það höfðu aðrir þegar gert. Sem dæmi höfðu afritarar meðal Gyðinga skipt hebreska hluta Biblíunnar (Gamla testamentinu) niður í vers öldum áður, þótt þeir skiptu honum ekki niður í kafla. En þó var ekkert samræmt kerfi, ekki frekar en var með kaflaskiptingarnar.

Estienne skipti gríska hluta Biblíunnar (Nýja testamentinu) í númeruð vers í samræmi við það sem þegar var gert í hebreska hlutanum. Árið 1553 gaf hann út á frönsku fyrstu Biblíuna í heild með nánast eins kafla- og versaskiptingum og er í flestum biblíum nú til dags. Sumir gagnrýndu útgáfuna og sögðu versin klippa boðskap Biblíunnar niður í litla aðskilda búta eða hugmyndir. En versaskipting hans var þó fljótlega tekin upp af öðrum sem prentuðu Biblíuna.

LYFTISTÖNG FYRIR BIBLÍUNEMENDUR

Að númera kafla og vers virðist vera svo sjálfsögð hugmynd. Segja má að það gefi hverju versi Biblíunnar sitt eigið póstnúmer eða heimilisfang. Kafla- og versaskiptingar eru að vísu ekki innblásnar af Guði og stundum brjóta þær upp textann á einkennilegum stöðum. En skiptingarnar auðvelda okkur að finna ritningarstaði og vísa í þau vers sem hafa sérstaka þýðingu fyrir okkur – rétt eins og við undirstrikum setningar og hugmyndir sem við viljum muna eftir úr riti eða bók.

Þrátt fyrir þægindin sem fylgja því að hafa versa- og kaflaskiptingar skulum við alltaf hafa í huga mikilvægi þess að sjá heildarmyndina – að skilja til hlítar boðskapinn frá Guði. Gott er að venja sig á að lesa Biblíuna í samhengi en ekki einungis stök vers. Þannig geturðu betur „þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú“. – 2. Tímóteusarbréf 3:15.