Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Úrelt eða á undan sinni samtíð?

Úrelt eða á undan sinni samtíð?

VÍSINDI

BIBLÍAN ER EKKI KENNSLUBÓK Í VÍSINDUM. ENGU AÐ SÍÐUR HEFUR HÚN AÐ GEYMA STAÐHÆFINGAR SEM VORU LANGT Á UNDAN SINNI SAMTÍÐ. SKOÐUM NOKKUR DÆMI.

Á efnisheimurinn sér upphaf?

Þekktir vísindamenn voru eitt sinn sannfærðir um að svo væri ekki. Núna viðurkenna þeir flestir að alheimurinn hafi átt sér upphaf. Í Biblíunni hefur því alltaf verið haldið fram. – 1. Mósebók 1:1.

Hvernig er jörðin í laginu?

Til forna héldu margir að jörðin væri flöt. Á fimmtu öld f.Kr. komu grískir vísindamenn fram með þá kenningu að hún væri hnöttótt. En löngu fyrir þann tíma, á áttundu öld f.Kr., talaði biblíuritarinn Jesaja um ‚jarðarkringluna‘ og notaði þá orð sem má einnig þýða „hnöttur“. – Jesaja 40:22.

Geta himintunglin eyðst með tímanum?

Gríski vísindamaðurinn Aristóteles, sem var uppi á fjórðu öld f.Kr., kenndi að niðurbrot eigi sér aðeins stað á jörðinni en að himintunglin geti aldrei breyst eða brotnað niður. Þessu var haldið fram langt fram eftir öldum. En á 19. öld settu vísindamenn fram kenninguna um óreiðu. Samkvæmt henni leitast allt efni við að brotna niður, hvort heldur það er í himingeimnum eða á jörðinni. Kelvin lávarður, einn vísindamannanna sem átti þátt í að þróa þessa kenningu, benti á að Biblían segir um himininn og jörðina: „Þau munu fyrnast sem fat.“ (Sálmur 102:26, 27) Kelvin trúði þó þeirri staðhæfingu Biblíunnar að Guð geti kosið að koma í veg fyrir að slíkt niðurbrot eyði sköpunarverki hans. – Prédikarinn 1:4.

Hvað heldur jörðinni og öðrum plánetum á sínum stað?

Aristóteles kenndi að himintunglin væru öll umlukin kristalshvelum sem lægju þétt hvert ofan á öðru og innst væri jörðin. Á 18. öld voru vísindamenn farnir að viðurkenna að stjörnur og plánetur svifu líklega í tómarúmi. En í Jobsbók, sem var skrifuð á 15. öld f.Kr., hefur alltaf staðið að skaparinn ‚láti jörðina svífa í geimnum‘. – Jobsbók 26:7.

LÆKNISFRÆÐI

ÞÓ AÐ BIBLÍAN SÉ EKKI KENNSLUBÓK Í LÆKNISFRÆÐI MÁ FINNA MEGINREGLUR Í HENNI SEM BERA MERKI UM VÍÐTÆKA ÞEKKINGU Á HEILBRIGÐISMÁLUM.

Einangrun sjúklinga.

Samkvæmt Móselögunum átti að halda holdsveikum aðskildum frá öðrum. Það var ekki fyrr en í plágunum á miðöldum að læknar áttuðu sig á mikilvægi þessarar meginreglu, og enn er þessari aðferð beitt. – 3. Mósebók, kaflar 13 og 14.

Menn áttu að þvo sér eftir að hafa snert lík.

Þar til seint á 19. öld meðhöndluðu læknar oft lík og sinntu síðan sjúklingum – án þess að þvo sér um hendurnar á milli. Þetta olli mörgum dauðsföllum. Í Móselögunum stóð þó að hver sem snerti lík væri trúarlega óhreinn. Þar voru jafnvel gefnar leiðbeiningar um að nota ætti vatn til að hreinsa sig í slíkum tilvikum. Þessar trúarlegu athafnir höfðu tvímælalaust góð áhrif á heilsu fólks. – 4. Mósebók 19:11, 19.

Frágangur á saur.

Á hverju ári deyr meira en hálf milljón barna úr niðurgangspest og ástæðan er oft sú að ekki hefur verið gengið frá saur með viðunandi hætti. Móselögin kváðu á um að grafa ætti saur fjarri mannabyggð. – 5. Mósebók 23:13.

Tímasetning umskurðar.

Samkvæmt lögum Guðs átti að umskera drengi þegar þeir voru átta daga gamlir. (3. Mósebók 12:3) Talið er að storknunarhæfni blóðs í nýfæddum börnum sé orðin eðlileg eftir fyrstu vikuna. Á biblíutímanum, þegar þekking fólks á læknisfræði var takmörkuð, var skynsamlegt að umskera ekki barnið fyrr en viku eftir fæðingu.

Tengslin milli andlegrar og líkamlegrar heilsu.

Rannsóknir á sviði læknavísinda sýna að jákvæðar tilfinningar eins og gleði, von og þakklæti og það að vera fús til að fyrirgefa hefur góð áhrif á heilsuna. Í Biblíunni segir: „Glatt hjarta veitir góða heilsubót en dapurt geð tærir beinin.“ – Orðskviðirnir 17:22.