Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Staðráðinn í að vera hermaður Krists

Staðráðinn í að vera hermaður Krists

Byssukúlurnar þutu fram hjá mér og ég rétti varlega upp hvítan vasaklút. Hermennirnir, sem skutu að mér, hrópuðu að ég ætti að stíga fram. Varkár nálgaðist ég þá án þess að vita hvort ég myndi lifa eða deyja. Hvernig hafði ég lent í þessum ógöngum?

ÉG FÆDDIST árið 1926 og var sjöundi í röðinni af átta systkinum. Foreldrar okkar voru vinnusamir og við bjuggum í Karítsa, litlu þorpi í Grikklandi.

Árið áður höfðu foreldrar mínir hitt Joannis Papparisos, ötulan og málglaðan biblíunemanda eins og vottar Jehóva voru kallaðir í þá daga. Þau hrifust af rökum hans sem voru byggð á Biblíunni og fóru að sækja samkomur hjá Biblíunemendunum í þorpinu okkar. Móðir mín hafði óhagganlega trú á Jehóva Guð og þótt hún væri ólæs notaði hún hvert tækifæri til að boða fólki trúna. Því miður einblíndi faðir minn á ófullkomleika annarra og hætti smám saman að sækja samkomur.

Við systkinin bárum virðingu fyrir Biblíunni en á uppvaxtarárunum hugsuðum við mest um að leika okkur. Árið 1939, þegar seinni heimsstyrjöldin braust út í Evrópu, gerðist þó atburður í þorpinu okkar sem kom okkur í opna skjöldu. Níkolás Psarras, nágranni okkar og frændi sem var nýskírður vottur, var kvaddur í gríska herinn. Níkolás, sem var tvítugur, sagði hugrakkur við yfirmenn hersins: „Ég get ekki barist þar sem ég er hermaður Krists.“ Hann var leiddur fyrir herdómstól og dæmdur til tíu ára fangelsisvistar. Við vorum orðlaus!

Snemma árs 1941 var herlið bandamanna um skamma hríð í Grikklandi og Níkolás var þá blessunarlega leystur úr fangelsi. Hann sneri aftur til Karítsa og Ilías, eldri bróðir minn, spurði hann spjörunum úr um Biblíuna. Ég hlustaði af mikilli athygli. Í kjölfarið fórum við Ilías og Efmorfía, yngsta systir okkar, að kynna okkur Biblíuna og sóttum reglulega samkomur hjá Vottunum. Árið eftir vígðum við þrjú líf okkar Jehóva og létum skírast. Með tímanum urðu fjögur systkini okkar til viðbótar trúfastir þjónar Jehóva.

Árið 1942 voru níu ungmenni á aldrinum 15 til 25 ára í Karítsa-söfnuðinum. Við vissum öll að miklar prófraunir voru fram undan. Við hittumst því hvenær sem tækifæri gafst til að styrkja trúna með því að lesa og rannsaka Biblíuna, syngja ríkissöngva og biðja saman. Fyrir vikið byggðum við upp sterka trú.

Demetríos með vinum sínum í Karítsa.

BORGARASTYRJÖLD

Um það leyti sem seinni heimsstyrjöldinni var að ljúka gerðu grískir kommúnistar uppreisn gegn ríkisstjórninni og hrundu af stað grimmilegri borgarastyrjöld. Skæruliðar kommúnista fóru um sveitirnar og neyddu þorpsbúa til að ganga í lið með sér. Þegar þeir réðust inn í þorpið okkar rændu þeir þrem ungum vottum – Antonis Tsúkaris, Ilías og mér. Við bárum fyrir okkur að við værum hlutlausir kristnir menn en þeir þvinguðu okkur samt til að ganga að Ólymposfjalli, um tólf klukkustunda leið frá þorpinu okkar.

Stuttu seinna skipaði liðsforingi kommúnista okkur að ganga í lið með innrásarliði skæruliða. Þegar við útskýrðum fyrir honum að sannkristnir menn beiti ekki vopnum gegn náunga sínum reiddist hann og leiddi okkur fyrir hershöfðingja. Eftir að hafa endurtekið söguna fyrir hershöfðingjanum skipaði hann svo fyrir: „Takið ykkur þá múldýr til að flytja hina særðu af vígvellinum og á spítalann.“

„En hvað ef hermenn ríkisstjórnarinnar ná okkur?“ svöruðum við. „Myndu þeir ekki líta á okkur sem hverja aðra hermenn?“ „Færið þá framvarðarsveitinni brauð,“ sagði hann. „En hvað ef liðsforingi sér okkur með múldýrið og skipar okkur að flytja vopn að fremstu víglínu?“ Hershöfðinginn hugsaði sig vel og lengi um. Að lokum svaraði hann hárri röddu: „Jæja, þið getið þá í það minnsta litið eftir sauðfénu! Haldið ykkur á fjallinu og gætið hjarðanna.“

Samviska okkar þremenninganna leyfði okkur að gæta sauðfjárins meðan borgarastyrjöldin geisaði allt í kring. Þar sem Ilías var elsti sonurinn fékk hann að snúa heim ári síðar til að annast móður okkar sem var orðin ekkja. Antonis veiktist og var látinn laus. Mér var hins vegar haldið föngnum áfram.

Á þessum tíma þrengdi gríski herinn æ meira að kommúnistunum. Flokkurinn, sem hélt mér föngnum, flúði yfir fjöllin í átt að Albaníu. Þegar við nálguðumst landamærin voru grískir hermenn allt í einu búnir að umkringja okkur. Mikil skelfing greip um sig og uppreisnarmennirnir flúðu. Ég faldi mig á bak við fallið tré og þar með var ég kominn í þá stöðu sem ég minntist á í upphafi.

Þegar ég sagði grísku hermönnunum að ég hefði verið fangi kommúnista ákváðu þeir að ég skyldi metinn í herbúðum nálægt Véroia, borginni sem var á biblíutímanum kölluð Beroja. Þar var mér skipað að grafa skotgrafir fyrir hermennina. Þegar ég neitaði fyrirskipaði yfirliðsforinginn að ég skyldi sendur í útlegð til hinnar illræmdu fangaeyju Makrónisos.

EYJA GRIMMDAR

Makrónisos er hrjóstrug, sólbökuð og vatnslaus eyja við strönd Attíku, um 50 kílómetra frá Aþenu. Eyjan er aðeins 13 kílómetrar á lengd og breiðust er hún 2,5 kílómetrar. Á árunum 1947 til 1958 voru þó vistaðir þar yfir 100.000 fangar, þar á meðal kommúnistar og þeir sem voru grunaðir um að vera það, fyrrverandi andspyrnumenn og fjöldi trúfastra votta Jehóva.

Þegar ég kom þangað snemma árs 1949 var föngunum skipt niður í búðir. Ég var settur í búðir með nokkur hundruð mönnum þar sem öryggisgæsla var frekar lítil. Við vorum um 40 manns sem sváfum á jörðinni í strigatjaldi sem var aðeins ætlað tíu manns. Við drukkum fúlt vatn og borðuðum aðallega linsubaunir og eggaldin. Endalaus vindurinn og rykið gerði lífið ömurlegt. Við þurftum þó ekki að burðast fram og aftur með grjót en það var hræðileg pyndingaraðferð sem gerði út af við marga ólánsama fanga, bæði á huga og líkama.

Ásamt öðrum vottum í útlegð á eyjunni Makrónisos.

Dag einn, þegar ég var á gangi á ströndinni, hitti ég nokkra votta úr öðrum búðum. Hvílík gleði það var að hittast! Við hittumst hvenær sem við gátum en gættum þess vandlega að ekki kæmist upp um okkur. Við boðuðum líka öðrum föngum trúna svo að lítið bæri á og sumir þeirra urðu síðar meir vottar Jehóva. Þetta ásamt innilegum bænum hjálpaði okkur að vera stöðugir í trúnni.

VARPAÐ Í ELDSOFN

Eftir tíu mánaða „endurhæfingu“ ákváðu hermennirnir að nú væri kominn tími til að ég klæddist herbúningi. Þegar ég neitaði drógu þeir mig fram fyrir yfirliðsforingja búðanna. Ég rétti honum skriflega yfirlýsingu sem á stóð: „Ég vil aðeins vera hermaður Krists.“ Eftir að hafa hótað mér lét yfirliðsforinginn mig í hendur þeim sem var næstur honum að tign, en það var erkibiskup í grísku rétttrúnaðarkirkjunni klæddur fullum skrúða. Þegar ég svaraði spurningum hans óhræddur út frá Biblíunni hrópaði hann reiður: „Takið hann burt, hann er ofstækismaður!“

Næsta morgun skipuðu hermenn mér aftur að klæðast herbúningi. Þegar ég neitaði börðu þeir mig með hnefunum og trékylfu. Síðan fóru þeir með mig á sjúkradeild búðanna til að ganga úr skugga um að ég væri ekki beinbrotinn og drógu mig svo aftur í tjaldið mitt. Þetta varð dagleg athöfn sem hélt áfram næstu tvo mánuðina.

Þar sem ég vék ekki frá trú minni reyndu bálreiðir hermennirnir nýja aðferð. Þeir bundu hendur mínar fyrir aftan bak og slógu mig illilega undir iljarnar með reipum. Í nístandi sársaukanum minntist ég orða Jesú: „Sæl eruð þér þá er menn smána yður [og] ofsækja ... Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.“ (Matt. 5:11, 12) Að lokum, eftir það sem mér fannst vera heil eilífð, missti ég meðvitund.

Ég vaknaði í ísköldum klefa og var hvorki með brauð, vatn né teppi. En þrátt fyrir það var ég rólegur og yfirvegaður. Eins og lofað er í Biblíunni ,varðveitti friður Guðs hjarta mitt og hugsanir mínar‘. (Fil. 4:7) Daginn eftir gaf vingjarnlegur hermaður mér brauð, vatn og yfirhöfn. Síðan gaf annar hermaður mér matarskammtinn sinn. Þannig og á marga aðra vegu fann ég fyrir innilegri umhyggju Jehóva.

Yfirvöld töldu mig vera forhertan uppreisnarmann og létu flytja mig til Aþenu þar sem ég átti að koma fram fyrir herdómstól. Þar var ég dæmdur í þriggja ára fangelsi á eyjunni Gyaros en hún er um 50 kílómetra austur af Makrónisos.

„VIÐ GETUM TREYST YKKUR“

Fangelsið á Gyaros var risastór rauð músteinsbygging og þar voru í haldi yfir 5.000 pólitískir fangar. Þar á meðal voru sjö vottar Jehóva sem allir sátu inni fyrir að vera hlutlausir. Við sjömenningarnir hittumst á laun til að stunda biblíunám þótt það væri stranglega bannað. Við fengum jafnvel smygluð eintök af Varðturninum sem við afrituðum til að nota í náminu okkar.

Dag einn, þegar við sátum við biblíunám, kom fangavörður auga á okkur og gerði ritin okkar upptæk. Við vorum kallaðir inn á skrifstofu aðstoðarfangelsisstjórans fullvissir um að dómur okkar yrði framlengdur. En í stað þess sagði hann: „Við vitum hverjir þið eruð og við virðum afstöðu ykkar. Við vitum að við getum treyst ykkur. Farið aftur að vinna.“ Hann fól meira að segja sumum okkar léttari verkefni. Hjörtu okkar fylltust þakklæti. Jafnvel innan fangelsismúranna var ráðvendni okkar Jehóva til lofs.

Trúarstaðfesta okkar hafði fleira jákvætt í för með sér. Fangi, sem var prófessor í stærðfræði, fór að spyrja út í trú okkar eftir að hafa tekið eftir góðri hegðun okkar. Við vottarnir losnuðum úr haldi árið 1951 og hann var látinn laus á sama tíma. Seinna meir skírðist hann sem vottur Jehóva og tók að boða trúna í fullu starfi.

ENN ÞÁ HERMAÐUR

Við Janette, eiginkona mín.

Sjálfur sneri ég aftur í faðm fjölskyldunnar í Karítsa þegar ég var látinn laus. Einhverju síðar fluttist ég til Melbourne í Ástralíu eins og margir samlandar mínir. Þar hitti ég yndislega systur sem heitir Janette. Við giftum okkur og eignuðumst fjögur börn, dreng og þrjár stúlkur, og ólum þau upp í trúnni.

Ég starfa enn sem safnaðaröldungur þótt ég sé kominn yfir nírætt. Skaðinn, sem ég hlaut í fangavistinni, veldur því að mig verkjar stundum í líkamann og fæturna, sérstaklega eftir að hafa verið í boðuninni. En hvað sem því líður er ég alltaf jafn staðráðinn í að vera „hermaður Krists“. – 2. Tím. 2:3.