Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Það sem þú ættir að vita um geðraskanir

Það sem þú ættir að vita um geðraskanir

„Mér fannst eins og ég gæti ekki dregið andann,“ segir Claudia sem hafði fengið að vita að hún væri með geðhvarfasýki og áfallastreituröskun. „Mér fannst yfirþyrmandi að þurfa að horfast í augu við fordómana sem tengjast geðsjúkdómum.“

„Það tók okkur langan tíma að sætta okkur við breyttar aðstæður,“ segir Mark, eiginmaður Claudiu. „En ég gerði mér grein fyrir að ég þyrfti að einbeita mér að því að styðja við bakið á konunni minni.“

HVERNIG heldurðu að þér myndi líða ef þú eða einhver nákominn þér greindist með geðröskun? Sem betur fer er hægt að meðhöndla geðræn vandamál. Við skulum skoða ýmislegt um geðraskanir sem gott er að vita til að skilja þær betur. *

Nokkrar staðreyndir um geðheilsu

„Hundruð milljóna manna í heiminum þjást af geðröskunum og þær hafa áhrif á líf þeirra sem standa þeim næst. Fjórði hver jarðarbúi þarf að kljást við geðraskanir einhvern tíma á lífsleiðinni. Þunglyndi er aðalorsök örorku í heiminum. Geðklofi og geðhvarfasýki eru meðal alvarlegustu geðraskana og gera fólki hvað erfiðast fyrir að lifa eðlilegu lífi ... Þó að gríðarlegur fjöldi fólks sé með geðraskanir er enn farið með þær í felur, þær litnar hornauga og oft ekki meðhöndlaðar.“ – Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er algengt að fólk með geðraskanir leiti sér ekki hjálpar sökum hræðslu við að verða litið hornauga.

Þótt hægt sé að meðhöndla flestar geðraskanir er athyglisvert að í Bandaríkjunum höfðu næstum 60 prósent fullorðinna og nær 50 prósent ungmenna, á aldrinum 8 til 15 ára, ekki fengið meðhöndlun á geðröskunum sínum í heilt ár. Þetta kemur fram hjá geðheilbrigðisstofnuninni National Alliance on Mental Illness.

Að skilja geðraskanir

Hvað eru geðraskanir? Sérfræðingar skilgreina þær sem mikla röskun á hugsun, tilfinningastjórn og hegðun. Þeir sem eru með geðröskun eiga oft erfitt með að setja sig í spor annarra og takast á við daglegt amstur.

Geðröskun er ekki merki um veikleika eða persónuleikagalla.

Einkennin geta varað mislengi og verið misalvarleg eftir eðli sjúkdómsins og aðstæðum hvers og eins. Geðröskun spyr ekki um kyn, aldur, menningu, kynþátt, trú, menntun eða efnahag. Geðröskun er ekki merki um veikleika eða persónuleikagalla. Hægt er að lifa góðu og innihaldsríku lífi með viðeigandi læknisaðstoð.

Meðhöndlun geðraskana

Geðlæknar og sálfræðingar geta meðhöndlað margar geðraskanir með góðum árangri. Fyrsta skrefið er því að fá nákvæmt mat sérfræðings sem hefur reynslu í meðhöndlun geðrænna vandamála.

En til að njóta góðs af mati sérfræðings er nauðsynlegt að komast yfir feimni við að tala um geðsjúkdóm sinn við aðra og þiggja meðferð við hæfi. Meðferð gæti falið í sér að ræða við fagfólk á sviði geðheilbrigðis sem getur hjálpað sjúklingnum að skilja sjúkdóm sinn, leysa vandamál daglegs lífs og hvatt hann til að gefast ekki upp á meðferðinni. Fjölskyldumeðlimur eða náinn vinur getur líka gert mikið gagn með því að bjóða fram aðstoð sína og vera til staðar.

Margir hafa lært að takast á við sjúkdóm sinn eftir að hafa fengið betri skilning á honum og með því að fara að ráðum geðlækna og sálfræðinga. „Áður en konan mín fékk greiningu,“ segir Mark sem áður var vitnað í, „vissum við lítið um geðraskanir. En við lærðum að laga okkur að aðstæðum og taka einn dag í einu. Í gegnum árin höfum við fengið ómetanlegan stuðning frá færum læknum og sömuleiðis frá fjölskyldu og vinum.“

Fyrsta skrefið er að fá nákvæmt mat sérfræðings sem hefur reynslu í meðhöndlun geðrænna vandamála.

Claudia tekur í sama streng. „Í fyrstu leið mér eins og ég hefði fengið dauðadóm,“ viðurkennir hún. „En þótt sjúkdómurinn setji okkur báðum skorður hef ég lært af eigin reynslu að það er hægt að sigrast á hindrunum sem virðast óyfirstíganlegar. Ég tekst á við sjúkdóminn með því að vinna með læknunum og öðrum sérfræðingum, styrkja tengslin við fjölskyldu og vini og með því að taka eitt skref í einu.“

Trúin hjálpar

Biblían gefur ekki til kynna að sterk trú lækni sjúkdóma. Samt sem áður hafa margar fjölskyldur um allan heim sótt huggun og styrk í það sem Biblían kennir. Til dæmis fullvissar hún okkur um að kærleiksríkur skapari okkar hafi einlægan áhuga á að hugga þá sem hafa „sundurmarið hjarta“ og „sundurkraminn anda“. – Sálmur 34:19.

Þótt Biblían sé ekki leiðarvísir um heilsu gefur hún gagnleg ráð sem geta hjálpað okkur að takast á við sársaukafullar tilfinningar og þjakandi aðstæður. Biblían veitir okkur líka von um framtíð þar sem enginn jarðarbúi mun veikjast eða þjást. Orð Guðs lofar: „Þá munu augu blindra ljúkast upp og eyru daufra opnast. Þá stekkur hinn halti sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar.“ – Jesaja 35:5, 6.

^ gr. 5 Til einföldunar er orðið „geðröskun“ í þessari grein notað bæði yfir geðræn vandamál og hegðunarraskanir.

^ gr. 32 Vaknið! mælir ekki með einni læknismeðferð umfram aðra. Kristinn einstaklingur ætti að gæta þess að meðferðin stangist ekki á við meginreglur Biblíunnar.

^ gr. 40 Sjá einnig greinina „Leiðir til að takast á við streitu“ sem birtist í Vaknið! júlí-ágúst 2014.