Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | TEKIST Á VIÐ LÍFIÐ ÞEGAR ÁFÖLL DYNJA YFIR

Að missa ástvin

Að missa ástvin

Ronaldo, frá Brasilíu, lenti í bílslysi sem kostaði fimm úr fjölskyldunni lífið, þar á meðal foreldra hans. „Ég hafði legið á spítalanum í tvo mánuði þegar ég fékk að vita að þau hefðu látist,“ segir hann.

„Í fyrstu trúði ég ekki að þau væru farin. Þau gátu ekki öll verið dáin! Þegar ég gerði mér grein fyrir að þetta var satt hrundi veröldin fyrir mér. Aldrei fyrr hafði ég fundið fyrir svona miklum sársauka. Mér fannst lífið einskis virði án þeirra og ég grét á hverjum degi í marga mánuði. Ég kenndi sjálfum mér um að hafa leyft öðrum að keyra bílinn og hugsaði með mér að þau væru kannski enn á lífi ef ég hefði bara keyrt sjálfur.

Sextán ár eru liðin síðan þetta gerðist. Mér hefur tekist að koma lífinu aftur í fastar skorður en dauði þeirra skildi eftir sig tómarúm innra með mér sem ég finn enn þá fyrir.“

AÐ TAKAST Á VIÐ ÁFÖLL

Leyfðu þér að syrgja. „Að gráta hefur sinn tíma,“ segir í Biblíunni. (Prédikarinn 3:1, 4) Ronaldo segir: „Í hvert skipti sem mig langaði til að gráta lét ég það eftir mér. Að reyna að halda aftur af tárunum var hvort sem er gagnslaust og mér leið líka betur eftir á.“ Það syrgja auðvitað ekki allir á sama hátt. Þótt þú berir sorgina ekki utan á þér þýðir það ekki að þú sért að bæla niður tilfinningarnar eða ættir að syrgja á annan hátt.

Einangraðu þig ekki. (Orðskviðirnir 18:1, New World Translation) „Ég leyfði mér ekki að einangra mig,“ segir Ronaldo. „Ég tók á móti gestum sem komu í heimsókn og ég trúði konunni minni og nánum vinum fyrir líðan minni.“

Haltu ró þinni þó að einhver særi þig með orðum sínum. Sumir segja kannski: „Þetta var fyrir bestu.“ Ronaldo segir: „Sumar athugasemdir, sem áttu að hugga mig, höfðu þveröfug áhrif.“ Láttu orð annarra ekki draga þig niður. Fylgdu heldur eftirfarandi ráði Biblíunnar: „Gefðu ekki ... gaum öllum þeim orðum sem töluð eru.“ – Prédikarinn 7:21.

Kynntu þér sannleikann um dauðann. Ronaldo segir: „Í Prédikaranum 9:5 kemur fram að hinir dánu þjáist ekki. Það gefur mér hugarfrið. Biblían kennir líka að hinir dánu verði reistir upp til lífs á ný. Ég hugsa því um látna ástvini mína eins og væru þeir í löngu ferðalagi.“ – Postulasagan 24:15.

Vissir þú? Biblían lofar að Guð muni á sínum tíma „afmá dauðann að eilífu“. * – Jesaja 25:8.

^ gr. 11 Nánari upplýsingar er að finna í kafla 7 í bókinni Hvað kennir Biblían? Hægt er að nálgast hana á Netinu á www.pr418.com/is.