Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Umburðarlyndi – hvernig getur Biblían hjálpað?

Umburðarlyndi – hvernig getur Biblían hjálpað?

 „Umburðarlyndi er sú dyggð sem friður byggist á.“ – Yfirlýsing UNESCO um meginreglur umburðarlyndis, 1995

 Umburðarleysi getur hins vegar skapað virðingarleysi og jafnvel hatur. Slíkar kenndir geta stigmagnast upp í hatursorðræðu, mismunun og ofbeldi.

 Skoðanir eru hins vegar skiptar um það hvað sé umburðarlyndi. Sumir telja að umburðarlyndri manneskju beri skylda til að leggja blessun sína yfir hvers kyns hegðun og hátterni. Aðrir eru á því að umburðarlynd manneskja virði rétt hvers og eins til að velja sér sín eigin gildi og skoðanir, jafnvel þótt henni sjálfri mislíki þessi gildi og skoðanir. Biblían styður þá afstöðu.

 Getur Biblían hjálpað fólki að temja sér ósvikið umburðarlyndi í heimi nútímans?

Biblíulegur grunnur umburðarlyndis

 Biblían hvetur til umburðarlyndis. Í henni stendur: „Verið þekkt fyrir að vera sanngjörn.“ (Filippíbréfið 4:5) Biblían leggur áherslu á tillitssemi, kurteisi og sanngirni. Þeir sem fylgja þessari ráðleggingu eru ekki endilega sammála þeim gildum sem aðrir aðhyllast né tileinka sér þau, en þeir en fetta samt ekki fingur út í að aðrir lifi eins og þeim sýnist best.

 Biblían gefur hins vegar til kynna að Guð setji fólki ákveðnar lífsreglur. Þar stendur: „[Guð] hefur sagt þér, maður, hvað er gott.“ (Míka 6:8) Leiðbeiningar Guðs er að finna í Biblíunni og eiga að hjálpa fólki að njóta lífsins á sem bestan hátt. – Jesaja 48:17, 18.

 Guð hefur ekki gefið okkur umboð til að dæma aðra. Í Biblíunni segir: „Það er aðeins einn löggjafi og dómari … hver ert þú sem dæmir náunga þinn?“ (Jakobsbréfið 4:12) Okkur er öllum frjálst að velja hvernig við hugsum og lifum en við þurfum sjálf að taka ábyrgð á vali okkar. – 5. Mósebók 30:19.

Hvað segir Biblían um virðingu?

 Í Biblíunni kemur fram að við eigum að ‚virða alla menn‘. (1. Pétursbréf 2:17, Biblían 2010) Þeir sem velja að lifa eftir lífsreglum Biblíunnar sýna því öllum virðingu, óháð því hverju þeir trúa og hvernig þeir kjósa að lifa. (Lúkas 6:31) Það merkir ekki að þeir sem fylgja Biblíunni séu sammála öllum trúarhugmyndum eða skoðunum annarra eða styðji allar ákvarðanir þeirra. En í stað þess að vera ruddalegir eða dónalegir reyna þeir sitt besta til að líkja eftir framkomu Jesú við annað fólk.

 Jesús hitti einu sinni konu sem aðhylltist trúarskoðanir sem hann var ekki hlynntur. Konan bjó auk þess með manni sem var ekki eiginmaður hennar – og það var líferni sem Jesús var ekki samþykkur. Engu að síður sýndi hann konunni virðingu. – Jóhannes 4:9, 17–24.

 Vottar Jehóva eru, líkt og Jesús, reiðubúnir að segja þeim sem vilja hlusta frá trú sinni en þeir gera það með „djúpri virðingu“. (1. Pétursbréf 3:15) Kristnir menn fá þau fyrirmæli í Biblíunni að þröngva ekki skoðunum sínum upp á aðra. Sá sem fylgir Kristi „á ekki að rífast heldur á hann að vera ljúfur við alla“, þar á meðal fólk sem er annarrar trúar. – 2. Tímóteusarbréf 2:24.

Hvað segir Biblían um hatur?

 Biblían hvetur fólk til að „eiga frið við alla“. (Hebreabréfið 12:14) Friðsamt fólk reynir sitt besta til að bera ekki hatur í brjósti. Það leggur sig fram um að eiga friðsamleg samskipti við aðra, án þess þó að fara á svig við sín eigin lífsgildi. (Matteus 5:9) Biblían hvetur kristna menn meira að segja til að elska óvini sína með því að sýna góðvild þeim sem koma illa fram við þá. – Matteus 5:44.

 Í Biblíunni segir vissulega að Guð hati eða hafi „andstyggð“ á framferði sem niðurlægir fólk eða skaðar. (Orðskviðirnir 6:16–19) En sögnin að hata er notuð hér til að lýsa sterkri andúð á vondum verkum. Af Biblíunni má sjá að Guð er fús til að fyrirgefa og hjálpa fólki sem vill breyta hátterni sínu og lifa í samræmi við lífsreglur hans. – Jesaja 55:7.

Biblíuvers tengd umburðarlyndi og virðingu

 Títusarbréfið 3:2: ‚Verið sanngjörn og alltaf mild í viðmóti við alla.‘

 Sanngjörn manneskja bregst mildilega við ólíkum skoðunum og stuðlar að virðingu manna í milli.

 Matteus 7:12: „Allt sem þið viljið að aðrir geri fyrir ykkur skuluð þið gera fyrir þá.“

 Okkur finnst öllum notalegt að njóta virðingar og finna að aðrir taka tillit til skoðana okkar og tilfinninga. Nánari upplýsingar um þessa frægu hegðunarreglu Jesú er að finna í greininni „Hver er gullna reglan?

 Jósúabók 24:15: „Veljið þá í dag hverjum þið viljið þjóna.“

 Við stuðlum að friði með því að virða rétt annarra til að velja.

 Postulasagan 10:34: „Guð mismunar ekki fólki.“

 Guð gerir ekki upp á milli fólks eftir menningu, kynferði, þjóðerni, kynþætti eða uppruna. Þeir sem vilja líkja eftir Guði sýna öllum virðingu.

 Habakkuk 1:12, 13: ‚Guð umber ekki illsku.‘

 Umburðarlyndi Guðs á sér takmörk. Hann leyfir ekki vondum mönnum að fara sínu fram endalaust. Nánari upplýsingar er að finna í myndbandinu Af hverju leyfir Guð þjáningar?

 Rómverjabréfið 12:19: „Leyfið reiði Guðs að komast að, því að skrifað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Jehóva.“ a

 Jehóva Guð leyfir engum að hefna sín sjálfur en sér til þess að réttlætið nái fram að ganga þegar það er tímabært. Nánari upplýsingar er að finna í greininni „Verður ákalli eftir réttlæti svarað?

a Guð heitir Jehóva. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?