Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tveir þýðendur sem settu nafn Guðs aftur í Nýja testamentið

Tveir þýðendur sem settu nafn Guðs aftur í Nýja testamentið

 Faðirvorið, sem Jesús kenndi fylgjendum sínum, er fyrsta bænin sem margir læra. Þessa bæn er að finna í þeim hluta Biblíunnar sem oft er kallaður Nýja testamentið. Bænin byrjar svona: „Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist.“ (Matteus 6:9) En nafn Guðs, sem er þýtt „Jehovah“ á ensku eða stundum „Yahweh“, a finnst sjaldan í enskum þýðingum Nýja testamentisins. En í þessum þýðingum er að finna nöfn falsguða, eins og Seifur, Hermes og Artemis. Ættu þær þá ekki að nefna nafn hins sanna Guðs og höfundar Biblíunnar?Postulasagan 14:12; 19:35; 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Í Nýja testamentinu eru nokkrir falsguðir nefndir á nafn. Myndum við þá ekki ætla að það nefndi hinn sanna Guð á nafn líka?

 Ensku biblíuþýðendurnir Lancelot Shadwell og Frederick Parker trúðu því að nafn Guðs ætti að endurheimta sess sinn í Nýja testamentinu. Hvers vegna segjum við „endurheimta“? Vegna þess að þeir komust að þeirri niðurstöðu að nafn Guðs hafi verið þar upprunalega en hafi síðan verið tekið út. Hvernig komust þeir að þeirri niðurstöðu?

 Shadwell og Parker vissu að í handritunum af þeim hluta Biblíunnar sem er oft kallaður Gamla testamentið og var upprunalega skrifaður á hebresku stóð nafn Guðs mörg þúsund sinnum. Þeir veltu þess vegna fyrir sér af hverju handritin af Nýja testamentinu sem þeir höfðu aðgang að slepptu nafni Guðs í heild sinni. b Shadwell tók líka eftir að þegar Nýja testamentið notaði algeng orðasambönd úr Gamla testamentinu, eins og „engill Jehóva“, höfðu afritarar Nýja testamentisins á grísku greinilega skipt nafni Guðs út fyrir titla eins og Kyrios, sem þýðir „Drottinn“. – 2. Konungabók 1:3, 15; Postulasagan 12:23.

Nafn Guðs á hebresku.

 Jafnvel áður en Shadwell og Parker gáfu út sínar þýðingar á ensku höfðu aðrir þýðendur sett nafn Guðs aftur í þýðingar af Nýja testamentinu á ensku, en aðeins á fáum stöðum. c Parker gaf út A Literal Translation of the New Testament árið 1863 og þá var ekki vitað til þess að neinn enskur þýðandi hafi áður sett nafn Guð aftur á marga staði í útgáfu Nýja testamentisins. Hverjir voru Lancelot Shadwell og Frederick Parker?

Lancelot Shadwell

 Lancelot Shadwell (1808–1861) var hæstaréttarlögmaður og sonur sir Lancelot Shadwell, varafjármálaráðherra Englands. Hann tilheyrði ensku kirkjunni. Þótt hann tryði þrenningarkenningunni sýndi hann nafni Guðs virðingu og lýsti því sem „hinu dýrlega nafni JEHÓVA“. Í þýðingu sinni, The Gospels of Matthew, and of Mark, notaði hann „Jehovah“ 28 sinnum í megintextanum og 465 sinnum í fylgiathugasemdunum.

 Shadwell kynntist ef til vill nafni Guðs þegar hann sá það í frummáli Gamla testamentisins á hebresku. Hann sagði að þeir sem hefðu skipt nafni Guðs út fyrir titilinn Kyrios í grískri þýðingu Gamla testamentisins „væru ekki heiðarlegir þýðendur“.

The Gospel according to Matthew rendered into English with notes, by L. Shadwell (1859), provided by the Bodleian Libraries. Licensed under CC BY-NC-SA 2.0 UK. Modified: Text highlighted

Matteus 1:20 í þýðingu Shadwells.

 Shadwell notaði fyrst „Jehovah“ í Matteusi 1:20 í þýðingu sinni. Í athugasemd við það vers segir hann: „Orðið [Kyrios] í þessu versi og mörgum öðrum í N.T. þýðir JEHÓVA, sem er nafn Guðs. Og það er mjög mikilvægt að þetta orð endurheimti sinn sess í þýðingunni á ensku.“ Hann sagði líka: „Heiður Guðs útheimtir það. Hann hefur kynnt sig sjálfur undir nafninu JEHÓVA og við getum ekki gert betur en að nota það nafn þegar við tölum um hann.“ Síðan sagði hann um King James Version: „Nafnið JEHÓVA kemur sjaldan fyrir … Í stað þess að sjá rétt nafn Guðs lesum við Drottinn.“ Shadwell sagði að „Drottinn … [væri] með öllu óverðugur titill“ til að nota í staðinn fyrir nafn Guðs og bætti við að hann væri jafnvel kallaður „Drottinn“ á sveitasetri sínu, eða heimili.

„[Guð] hefur kynnt sig sjálfur undir nafninu JEHÓVA og við getum ekki gert betur en að nota það nafn þegar við tölum um hann.“ – Lancelot Shadwell.

 Shadwell gaf út þýðingu sína á Matteusi árið 1859 og samsetta útgáfu af Matteusi og Markúsi árið 1861. En þá tók vinna hans enda. Hann lést 11. janúar 1861, 52 ára að aldri. En hann hafði ekki erfiðað til ónýtis.

Frederick Parker

 Þýðing Shadwells á Matteusi greip athygli auðugs viðskiptamanns í Lundúnum að nafni Frederick Parker (1804–1888), en hann hafði hafist handa við að þýða Nýja testamentið þegar hann var um tvítugt. Ólíkt Shadwell hafnaði Parker þrenningarkenningunni. Hann skrifaði að allir kristnir menn ættu að „taka innilega við sannleikanum … og tilbiðja hinn eina almáttuga Jehóva.“ Parker fannst líka að handrit Nýja testamentisins sem notuðu Kyrios bæði fyrir Drottinn Guð og Drottinn Jesú gerðu greinamuninn á þeim tveim óljósan. Það vakti því áhuga hans að sjá að í vissu samhengi hafði Shadwell þýtt Kyrios sem „Jehovah“.

 Hvernig skildi Parker þessi málefni? Hann lærði grísku og skrifaði nokkrar bækur og smárit um gríska málfræði. Hann gerðist líka félagi í enskri biblíustofnun sem stuðlaði að rannsóknum biblíuhandrita með það að markmiði að gefa út betri biblíur á ensku. Parker gaf út fyrsta hlutann af þýðingu sinni á Nýja testamentinu árið 1842, en hann átti eftir að gefa það út í mörgum hlutum og útgáfum. d

Þýðing Nýja testamentisins eftir Parker (Heinfetter).

Viðleitni Parkers til að setja nafn Guðs aftur á sinn stað

 Í nokkur ár hafði Parker skrifað um spurningar eins og: „Hvenær á Kyrios við um Drottinn Jesú og hvenær á það við um Drottinn Guð?“ og „Hvers vegna er Kyrios oft notað málfræðilega sem nafn en ekki titill?“

 Þegar Parker sá þýðingu Shadwells á Matteusi frá 1859 með athugasemdum hans um Kyrios sannfærðist hann um að í vissu samhengi „ætti að þýða [Kyrios] sem Jehovah.“ Hann endurskoðaði því alla þýðingu sína á Nýja testamentinu til að setja „Jehovah“ þar sem honum sýndist samhengið eða málfræðin í gríska textanum benda til þess. Útgáfa Parkers í einu bindi sem hann gaf út árið 1863, A Literal Translation of the New Testament, hefur því að geyma nafn Guðs 187 sinnum í megintextanum. Þetta er fyrsta útgefna þýðingin sem vitað er um á ensku sem notar nafn Guðs í kristnu Grísku ritningunum út í gegn. e

Upphafssíða þýðingar Parkers frá 1864 á Nýja testamentinu.

 Árið 1864 gaf Perker líka út A Collation of an English Version of the New Testament … With the Authorized English Version. Hann sameinaði þessi tvö Nýja testamenti í eitt bindi til að benda á hvar og hvernig þýðing hans var ólík hinni. f

 Til að benda á gildi þess að setja nafn Guðs aftur á sinn stað benti Parker á nokkur vers í Authorized Version. Þar á meðal var Rómverjabréfið 10:13 sem segir: „Því að hver sem ákallar nafn Drottins bjargast.“ Parker spurði: „Hver hefur nokkurn tíma skilið Authorized Version í þessum versum þannig að það væri Jehóva en ekki sonurinn, Jesús Kristur Drottinn okkar … sem átt væri við“?

Rómverjabréfið 10:13 í King James Version (fyrir ofan) og þýðingu Parkers frá 1864.

 Parker eyddi þúsundum punda, sem var stórfé í þá daga, til að gefa út og auglýsa smáritin sín, tímaritin og annað sem hann skrifaði. Á aðeins einu ári eyddi hann 800 pundum sem samsvara yfir 100.000 breskum pundum (um 17.700.000.- ISK) í dag. Hann gaf líka kunningjum og hátt settum prestum mörg rita sinna án endurgjalds til að fá þá til að ritdæma þau.

 Sumir fræðimenn hæddust að skrifum Parkers og þýðingum hans á Nýja testamentinu, sem voru prentaðar í mjög takmörkuðu magni. Þeir drógu þannig athyglina frá einlægri tilraun hans, og Shadwells og annarra, til að setja nafn Guðs aftur í Nýja testamentið á ensku.

 Þér gæti einnig fundist fróðlegt að horfa á tíu mínútna myndbandið: Safnið í Warwick: „Biblían og nafn Guðs“.

a Á íslensku er „Jehovah“ þýtt „Jehóva“ eða stundum „Jahve“.

b „Jah“, stytting nafnsins „Jehóva“, er að finna í Opinberunarbókinni 19:1, 3, 4, 6 í orðinu „Hallelúja“ sem þýðir „Lofið Jah!“

c Shadwell þýddi ekki allt Nýja testamentið. Hinir þýðendur útgáfunnar voru meðal annars Philip Doddridge, Edward Harwood, William Newcome, Edgar Taylor og Gilbert Wakefield.

d Til að aðskilja viðskiptin frá biblíufræðastöfum sínum notaði Parker höfundarnafnið Herman Heinfetter þegar hann skrifaði um trúmál og í biblíuþýðingum sínum. Það nafn kemur nokkrum sinnum fyrir í viðaukum Nýheimsþýðingar Biblíunnar.

e Parker gaf út An English Version of the New Testament árið 1864 þar sem hann notaði nafn Guðs 186 sinnum.

f Nafn Guðs var í ýmsum versum í mörgum hebreskum þýðingum Nýja testamentisins áður en Parker gaf út sínar þýðingar. Og árið 1795 gaf Johann Jakob Stolz út þýska þýðingu sem notaði nafn Guðs yfir 90 sinnum frá Matteusi til Júdasarbréfsins.