Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

DEA/G. Dagli Orti/De Agostini via Getty Images

Leit Huldrychs Zwinglis að sannleika Biblíunnar

Leit Huldrychs Zwinglis að sannleika Biblíunnar

 Nú á dögum getur flest trúað fólk gengið úr skugga um hvort trúarskoðanir þess séu byggðar á því sem Biblían kennir eða ekki. Fólk við upphaf 16. aldar gat það ekki. Fæstir höfðu nefnilega aðgang að biblíu á eigin tungumáli. Fyrir vikið gátu fáir sem tilheyrðu kirkjunni borið það sem kirkjan kenndi saman við það sem Biblían segir. Og prestarnir veittu litla sem enga hjálp. „Kirkjan í Sviss var spillt,“ segir í bókinni History of the Christian Church. „Prestastéttin var fáfróð, hjátrúarfull og siðlaus.“

 Það var við þessar aðstæður sem Huldrych Zwingli byrjaði að leita að sannleika Biblíunnar. Hvað fann hann? Hvernig sagði hann öðrum frá því sem hann fann? Og hvað getum við lært af lífi hans og sannfæringu?

Zwingli byrjar að leita

 Þegar Zwingli var rúmlega tvítugur ætlaði hann að verða prestur í kaþólsku kirkjunni. Á þeim tíma þurfti hann, eins og aðrir sem ætluðu að verða prestar, að læra heimspeki, kirkjusiði og rit „kirkjufeðranna“ – en ekki það sem Biblían kennir.

 Hvernig byrjaði Zwingli að uppgötva sannleika Biblíunnar? Þegar hann var í háskóla í Basel í Sviss sótti hann fyrirlestra hjá Thomasi Wyttenbach en hann fordæmdi þá hefð kirkjunnar að selja aflátsbréf. a Samkvæmt einum ævisöguritara lærði Zwingli frá Wyttenbach „að dauði Krists hefði í eitt skipti fyrir öll verið fórnin fyrir syndir okkar“. (1. Pétursbréf 3:18) Þegar Zwingli skildi að lausnarfórn Jesú væri eini grundvöllurinn fyrir fyrirgefningu synda okkar hafnaði hann þeirri kenningu að leiðtogar kirkjunnar gætu fyrirgefið syndir í skiptum fyrir peninga. (Postulasagan 8:20) Hann hélt samt áfram námi og varð prestur í kaþólsku kirkjunni 22 ára gamall.

 Þegar Zwingli var á þrítugsaldri lærði hann grísku til að geta skilið Nýja testamentið, eins og það er almennt kallað, á frummálinu. Hann kynnti sér líka verk Erasmusar og komst að því að Jesús er eini milligöngumaðurinn milli Guðs og manna, eins og Biblían kennir. (1. Tímóteusarbréf 2:5) Það varð til þess að Zwingli fór að efast um þá kenningu kaþólsku kirkjunnar að fólk gæti talað við Guð fyrir milligöngu dýrlinga.

 Zwingli fór að leita sannleikans af enn meiri ákafa þegar hann var rúmlega þrítugur. Á þeim tíma var hann herprestur í styrjöldum í Evrópu sem voru háðar um yfirráð yfir Ítalíu. Í orrustunni við Marignano árið 1515 varð hann vitni að því að kaþólikkar drápu aðra kaþólikka í þúsundatali. Fáeinum árum síðar afritaði Zwingli og lagði jafnvel á minnið stóran hluta Grísku ritninganna. Árið 1519 bjó hann í Zürich sem var miðpunktur stjórnmálanna í Sviss. Þar komst hann á þá skoðun að kirkjan ætti að afnema allar kenningar sem ekki væri hægt að sanna út frá Biblíunni. En hvernig gæti hann hjálpað öðrum að komast að sömu niðurstöðu?

„Slík prédikun hefur aldrei heyrst áður“

 Zwingli trúði því að fólk myndi hafna trúarlegum lygum ef það fengi að heyra sannleika Biblíunnar. Hann ákvað því eftir að hafa verið kosinn prestur í Grossmünster-kirkjunni, þekktri kirkju í Zürich, að hefja prédikun sína með því að lýsa hugrakkur yfir að hann myndi ekki lengur lesa upp úr latneskum kirkjufræðum b sem prestarnir höfðu vitnað í um aldir. Hann myndi þess í stað boða guðspjöllin beint frá Biblíunni, kafla fyrir kafla, frá upphafi til enda. Hann lét Biblíuna útskýra sig sjálfa í staðinn fyrir að nota hugmyndir kirkjufeðranna. Hann gerði það með því að láta skýrari hluta hennar varpa ljósi á þá sem voru erfiðari að skilja. – 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Sergio Azenha/Alamy Stock Photo

Grossmünster-kirkjan í Zürich.

 Zwingli hjálpaði fólki að skilja að Biblían gefur góð ráð fyrir daglegt líf. Hann kenndi siðferði út frá Biblíunni og talaði gegn því að tilbiðja Maríu, móður Jesú, biðja til dýrlinga, selja aflátsbréf og hann gagnrýndi siðleysi prestastéttarinnar. Hver voru viðbrögð fólks? Eftir fyrstu prédikun hans sögðu sumir: „Slík prédikun hefur aldrei heyrst áður.“ Og einn sagnfræðingur sagði um kaþólska áheyrendur Zwinglis: „Þeir sem höfðu hætt að sækja messur vegna þess að þeir höfðu andstyggð á heimsku og siðleysi prestanna fóru að mæta aftur.“

 Árið 1522 reyndu prestar kirkjunnar að fá stjórnmálamenn í Zürich til að stöðva fólk í að vinna á móti kenningum kirkjunnar. Zwingli var sakaður um villutrú. Hann neitaði að víkja frá trú sinni og sagði af sér sem prestur.

Hvað gerði Zwingli?

 Zwingli hætti sem prestur en hann var áfram virkur prédikari og reyndi að sannfæra aðra um trúarskoðanir sínar. Hann var orðinn vinsæll meðal fólks vegna prédikana sinna og þar með hafði hann áhrif meðal stjórnmálamanna í Zürich. Hann notaði þau áhrif til að reyna að gera trúarlegar endurbætur þar. Árið 1523 sannfærði hann til dæmis dómstóla um að banna kenningar sem ekki væri hægt að sanna út frá Biblíunni. Árið 1524 fékk hann þá til að banna skurðgoðadýrkun. Borgaryfirvöld eyðilögðu ölturu, líkneski, myndir og minjar með hjálp presta á svæðinu og samþykki fólksins. „Fyrir utan rán víkinga í trúarlegum byggingum hefur vestræn kirkja aldrei orðið vitni að annarri eins eyðileggingu,“ segir í bókinni Zwingli – God’s Armed Prophet. Fyrir hans áhrif breyttu yfirvöld árið 1525 byggingum kirkjunnar í sjúkrahús og munkum og nunnum var gefið leyfi til að gifta sig. Hann lagði líka til að messur myndu víkja fyrir einfaldri hátíð sem byggðist á fyrirmynd Biblíunnar. (1. Korintubréf 11:23–25) Sagnfræðingar segja að átak Zwinglis hafi sameinað trúarleiðtoga og stjórnmálaleiðtoga og lagt grunn að siðaskiptunum og nýju mótmælendatrúnni.

Eintak af Zürich-biblíunni sem kom út árið 1536, aðalstöðvum Votta Jehóva í Warwick í New York.

 Það mikilvægasta sem Zwingli gerði var að þýða Biblíuna. Á þriðja áratug 16. aldar var hann í fararbroddi hóps fræðimanna sem þýddu Biblíuna úr frummálum hebresku og grísku, grísku Sjötíumannaþýðingunni og latnesku Vulgata­-þýðingunni. Þeir notuðu einfalda aðferð. Þeir lásu hvert vers í frummálstextanum og einnig í virtum þýðingum. Síðan ræddu þeir merkingu versins og skrifuðu niður það sem þeir fundu. Vinna þeirra við að útskýra og þýða orð Guðs varð að lokum til þess að Zürich-biblían var gefin út í einu bindi árið 1531.

 Zwingli var ef til vill einlægur en hann var líka ósveigjanlegur og herskár. Hann tók til dæmis þátt í réttarhöldum yfir anabaptistum sem voru ekki sammála honum að ungbörn skyldu skírð. Þegar dómstóllinn felldi síðar dauðadóm yfir þeim sem höfnuðu ungbarnaskírn mótmælti hann ekki þeim harða úrskurði. Hann hvatti stjórnmálaleiðtoga til að beita hervaldi til að þvinga fólk til að breyta um trúarskoðanir. Þrátt fyrir það stóðu mörg héruð í Sviss þar sem kaþólskan var rótgróin á móti breytingunum. Að lokum braust út borgarastyrjöld. Zwingli slóst í för með hermönnum frá Zürich og féll í átökum 47 ára að aldri.

Arfleið Zwinglis

 Huldrych Zwingli hafði sannarlega áhrif á mannkynsöguna þótt hann sé ekki eins þekktur og siðbótamenn mótmælenda eins og Marteinn Lúter og Jóhann Kalvín. Zwingli hafnaði kenningum rómversk-kaþólsku kirkjunnar af enn meiri ákefð en Lúter og ruddi brautina fyrir Kalvín. Hann hefur því verið kallaður þriðji maður siðaskiptanna.

 Áhrif Zwinglis eru bæði jákvæð og neikvæð. Til að koma skoðunum sínum á framfæri tók hann virkan þátt í stjórnmálum og hernaði. Að þessu leyti fylgdi hann ekki fordæmi Jesú sem neitaði að blanda sér í stjórnmál og kenndi lærisveinum sínum að elska óvini sína, ekki drepa þá. – Matteus 5:43, 44; Jóhannes 6:14, 15.

 Zwinglis er samt minnst sem iðins biblíunemanda sem var ákveðinn í að segja öðrum frá því sem hann lærði. Hann uppgötvaði margt sem Biblían kennir og kynnti það fyrir öðrum.

a Kirkjuleiðtogar seldu aflátsbréf sem áttu að draga úr eða afnema refsingu sem fólk fengi annars í hreinsunareldi eftir dauðann.

b Bók sem hefur að geyma valin biblíuvers sem eru lesin yfir árið.