Hoppa beint í efnið

Myndir frá Bretlandi 4 (mars til ágúst 2017)

Myndir frá Bretlandi 4 (mars til ágúst 2017)

Skoðið þessar myndir til að sjá hvernig framkvæmdum miðaði áfram við nýja deildarskrifstofu Votta Jehóva á Bretlandi frá mars til ágúst 2017.

28. mars 2017 – lóð deildarskrifstofunnar

Verktaki notar vörubíl með krana til að flytja gám sem er með glerhlið. Gámurinn verður hluti af upphækkaðri áhorfendaaðstöðu sem er á öruggum, afgirtum stað á byggingasvæðinu. Gestastofan opnaði í maí 2017 ásamt áhorfendaaðstöðunni og í ágúst höfðu rúmlega 17.000 gestir bókað skoðunarferð til að skoða framkvæmdirnar.

29. mars 2017 – íbúðabygging F

Verktakar hífa forsteyptar gólfplötur með byggingakrana í íbúðabyggingu F sem er fyrsta íbúðabyggingin á lóðinni. Mögulegt er að koma plötunum fljótt fyrir á endanlegum stað án þess að taka þær í sundur vegna þess hve rúmgott er í kringum byggingarnar.

7. apríl 2017 – íbúðabyggingar

Fimm íbúðabyggingar voru reistar samtímis. Fremst á myndinni sjást verktakar járnabinda áður en steypu er dælt í grunn íbúðabyggingar B. Hægra megin fyrir aftan dæla verktakar steypu í gólf fyrstu hæðar í íbúðabyggingu D. Vinstra megin fyrir aftan má sjá byggingakrana setja steypumót fyrir lyftuhús og stigagang í íbúðabyggingu E.

19. apríl 2017 – lóð deildarskrifstofunnar

Starfsmaður vélateymis gengur frá samskeytum á tveimur plaströrum sem tilheyra brunavarnakerfinu. Samskeytin eru brædd saman, sléttuð og prófuð til að kanna styrkleika þeirra og gæði. Samtals voru lagðir um fjórir km af svona rörum.

25. apríl 2017 – íbúðabyggingar

Starfsmaður hreinsar ræsi fyrir afrennsli sem er nýbúið að gera vatnshelt. Afrennsliskerfið á lóðinni tryggir að hægt sé að leggja vegi yfir vatnsfarvegi svo að regnvatn renni í safntjarnir og fyrirbyggi þar með flóð.

28. apríl 2017 – íbúðabygging F

Hjón í arkitektateymi merkja fyrir veggjum á gólf á gangi fyrstu hæðar.

5. maí – íbúðabyggingar

Séð í austurátt. Loftmynd af fimm íbúðabyggingum sem verið er að reisa. Í september var búið að steypa útveggi. Verið var að setja upp milliveggi í íbúðabyggingu F (aftast til hægri) og byrjað að gifsa og mála húsið. Á sama tíma var byrjað að setja upp útveggi og glugga fyrir íbúðabyggingu E (aftast til vinstri). Íbúðabyggingar B, C og D (fremst á myndinni) voru gerðar klárar svo að arkitekta-, rafmagns-, véla- og vinnupalla-teymin gætu hafist handa.

18. maí 2017 – bráðabirgðaaðstaða starfsfólks

Robert Luccioni, aðstoðarmaður útgáfunefndar hins stjórnandi ráðs og umsjónarmaður alþjóða hönnunar- og byggingardeildarinnar, flytur hvetjandi biblíuræðu fyrir byggingateymin. Alþjóða hönnunar- og byggingardeildin hefur umsjón með hönnun og byggingu nýju deildarskrifstofunnar og sér um að framkvæmdirnar fari fram á skilvirkan og hagkvæman hátt.

25. maí 2017 – lóð deildarskrifstofunnar

Starfsmenn steypa plötur byggingar sem kemur til með að hýsa tækjabúnað fyrir gas, stafræn gögn og rafmagn. Til hægri dæla starfsmenn steypu í grunn fyrir hljóðeinangrandi vegg sem kemur til með að dempa hávaðann frá tækjunum.

7. júní 2017 – íbúðabygging E

Arkitektar skoða vinnuteikningar áður en merkt er á gólfið fyrir stálleiðara undir milliveggi.

13. júní 2017 – íbúðabygging F

Starfsmaður festir stálramma fyrir útveggi.

22. júní 2017 – íbúðabygging E

Vinnupallar settir upp umhverfis íbúðabyggingu E svo vinna við útveggina verði aðgengilegri.

11. júlí 2017 – íbúðabygging F

Málari setur sérstaka varnarhúð á glugga sem er nýbúið að koma fyrir. Þegar varnarhúðin þornar myndast plastfilma sem ver gegn skemmdum meðan á framkvæmdum stendur. Filmunni er síðan flett af þegar hennar gerist ekki lengur þörf.

13. júlí 2017 – íbúðabygging F

Pípulagningateymi athugar þrýstingin á gólfhitakerfi íbúðar. Þegar búið er að gera allar nauðsynlegar stillingar er síðasta steypulaginu dælt yfir hitalögnina.

19. júlí 2017 – lóð deildarskrifstofunnar

Garðyrkjumaður sker part úr túnþöku á hringtorgi fyrir utan aðal innkeyrsluna að deildarskrifstofunni. Þessar sérstöku þökur hindra vöxt illgresis en það sparar tíma og fyrirhöfn sem annars hefði farið í að sjá um gróðurinn við þennan fjölfarna þjóðveg.

1. ágúst 2017 – skrifstofubygging

Landmælingamaður notar GPS-tæki til að merkja staðinn þar sem inngangur skrifstofuhúsnæðisins verður. Hann auðkennir staðinn með stöng og málar hana síðan svo hún verði sýnilegri. Þessi bygging á að hýsa varanlegt eldhús ásamt rými sem er hannað bæði sem matsalur og fyrirlestrarsalur. Íbúðabyggingarnar sjást fyrir aftan.

8. ágúst 2017 – íbúðabyggingar

Hjón vinna við steypumót fyrir dælustöð sem tilheyrir fráveitu fyrir afrennslisvatn. Fyrir aftan má sjá íbúðabyggingar E og F klæddar byggingaplasti til að skapa góða vinnuaðstöðu í öllum veðrum yfir vetrarmánuðina.

9. ágúst 2017 – lóð deildarskrifstofunnar

Lærlingur lærir að stjórna soglyftara. Lyftarinn er notaður til að flytja kantsteina sem vega um 70 kg og koma þeim fyrir. Þegar kantsteinarnir eru komnir á réttan stað er steypt sitt hvoru megin við þá til að festa þá.

16. ágúst 2017 – lóð deildarskrifstofunnar

Vatnsrör dregið á réttan stað, vélvirki sér til þess að tengirörið halli rétt. Það þarf um það bil fimm km af vatnsrörum fyrir húsnæði nýju deildarskrifstofunnar.

22. ágúst 2017 – íbúðabygging E

Starfsmaður í útveggjateyminu sagar múrsteina með steinsög. Hálfir múrsteinar eru notaðir til að búa til fallegt mynstur á gafla íbúðabygginganna. Þær verða klæddar með yfir 300.000 múrsteinum.