Hoppa beint í efnið

Hvernig líta vottar Jehóva á menntun?

Hvernig líta vottar Jehóva á menntun?

 Viðhorf okkar til menntunar er byggt á meginreglum Biblíunnar. Hver og einn vottur Jehóva notar biblíufrædda samvisku sína til að ákveða hvernig hann eigi að fylgja þeim meginreglum sem eru ræddar í þessari grein. a

 Menntun er mikilvæg

 Menntun hjálpar fólki að þroska með sér „visku og gætni“, eiginleika sem Biblían talar vel um. (Orðskviðirnir 2:10, 11; 3:21, 22) Auk þess sagði Jesús fylgjendum sínum að kenna öðrum það sem hann hafði boðið þeim. (Matteus 28:19, 20) Þess vegna hvetjum við fólk í söfnuðinum og hjálpum því að afla sér alhliða menntunar, svo sem í lestri, skrift og framsögn, b og þekkingar á öðrum trúarbrögðum og menningu. 1. Korintubréf 9:20–22; 1. Tímóteusarbréf 4:13.

 Stjórnvöld sjá einnig gagn þess að afla sér menntunar og víða er ákveðin grunnmenntun lögskyld. Við lútum slíkum lögum í samræmi við þetta boð: „Allir eiga að vera undirgefnir yfirvöldum.“ (Rómverjabréfið 13:1) Þar að auki hvetjum við börnin okkar til að leggja sig fram um að stunda skólanám sitt vel í stað þess að gera eins lítið og þau komast upp með. c Í orði Guðs segir: „Hvað sem þið gerið, þá vinnið af allri sál eins og fyrir Jehóva en ekki menn.“ – Kólossubréfið 3:23.

 Menntun auðveldar okkur að sjá fyrir fjölskyldunni. Biblían segir: „Ef einhver sér ekki fyrir sínum nánustu, sérstaklega fjölskyldu sinni, hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ (1. Tímóteusarbréf 5:8) Menntun getur auðveldað okkur að gegna þeirri skyldu að sjá fyrir fjölskyldunni. Í The World Book Encyclopedia segir að meginmarkmið menntunar sé að „gera menn að virkum þjóðfélagsþegnum ... sem vinna að efnahagnum“. Það er auðveldara fyrir þann sem hefur góða menntun og verkkunnáttu að sjá fjölskyldu sinni farborða en þann sem er ófaglærður og vantar grunnmenntun. – Orðskviðirnir 22:29.

 Foreldrar sjá einnig fyrir börnum sínum með því að búa þau undir fullorðinsárin, en skólaganga getur verið ómetanlegur undirbúningur fyrir lífið. (2. Korintubréf 12:14) Við hvetjum foreldra til að gera börnunum kleift að ganga í skóla, jafnvel þó að þau búi þar sem eru skólagjöld, þar sem er erfitt að komast í skóla eða það er ekki almenn venja. d Við gefum foreldrum líka hagnýt ráð um hvernig þeir geti tekið virkan þátt í menntun barna sinna. e

 Líta ætti bæði á kosti og galla menntunar

 Við skoðum vandlega þá menntun sem er í boði. Í Biblíunni segir: „Einfaldur maður trúir öllu en hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ (Orðskviðirnir 14:15) Við fylgjum þessari meginreglu með því að skoða vandlega og meta bæði kostnað og gildi þeirrar framhaldsmenntunar sem er í boði. Til dæmis er verknám oft ekki svo langt miðað við gagnið sem maður hefur af því.

 Menntun byggð á Biblíunni er verðmætari en veraldleg menntun. Menntun byggð á Biblíunni bjargar lífi okkar því að hún veitir okkur þekkingu á Guði, ólíkt veraldlegri menntun. (Jóhannes 17:3) Hún kennir okkur líka góð siðferðisgildi – „hvað réttlæti er, réttur og réttsýni ... sérhverja braut hins góða“. (Orðskviðirnir 2:9) Páll postuli fékk menntun sem gæti verið sambærileg við háskólamenntun nú á dögum. Hann viðurkenndi þó að ,þekkingin á Kristi Jesú væri óviðjafnanlega verðmæt‘. (Filippíbréfið 3:8; Postulasagan 22:3) Eins hafa margir vottar Jehóva nú á dögum aflað sér frekari menntunar en telja samt menntunina byggða á Biblíunni mun verðmætari. f

Menntun byggð á Biblíunni kennir fólki góð siðferðisgildi.

 Æðri menntun getur stofnað siðferði manns og trú í hættu

 Spakmæli úr Biblíunni hljómar svona: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ (Orðskviðirnir 22:3) Vottar Jehóva telja að umhverfið í sumum háskólum eða menntastofnunum á svipuðu stigi geti stofnað siðferði manns og trú í hættu. Þess vegna hafa margir vottar valið að fara ekki í háskóla eða senda börnin sín þangað. Þeim finnst að í menntastofnunum á háskólastigi sé röngum hugmyndum oft haldið á lofti. Hér eru nokkur dæmi um þær:

  •   Ranghugmynd: Peningar veita hamingju og öryggi

     Háskólamenntun er oft sögð vera öruggasta leiðin til að fá vel launuð störf. Sífellt fleiri fara því í háskólanám fyrst og fremst í von um að þéna meira. Sumir vonast til að peningar geri þá hamingjusama og veiti þeim öryggi. Biblían bendir hins vegar á að slík hugsun sé gagnslaus. (Prédikarinn 5:9) Og það sem mikilvægara er, Biblían kennir að ,ást á peningum sé rót alls konar ógæfu‘ og að oft missi menn trúna vegna hennar. (1. Tímóteusarbréf 6:10) Vottar Jehóva leggja sig fram um að láta ekki „tál auðæfanna“ kæfa sig. – Matteus 13:22.

  •   Ranghugmynd: Maður ætti að sækjast eftir þeirri upphefð og virðingu sem háskólamenntun veitir

     Nika Gilauri, fyrrverandi forsætisráðherra Georgíu, skrifaði til dæmis um algengt viðhorf í heimalandi sínu: „Háskólagráða er nánast nauðsynlegt stöðutákn í Georgíu ... [áður fyrr] var ungt fólk sem hafði ekki háskólagráðu fjölskyldu sinni til skammar.“ g Aftur á móti varar Biblían við því að sækjast eftir frama í heiminum. Jesús sagði við trúarleiðtoga síns tíma sem sóttust eftir heiðri: „Hvernig getið þið trúað þegar þið þiggið lof hver af öðrum?“ (Jóhannes 5:44) Háskólaumhverfið getur alið á hroka, eiginleika sem Guð hatar. – Orðskviðirnir 6:16, 17; 1. Pétursbréf 5:5.

  •   Ranghugmynd: Hver og einn ætti að setja sér sín eigin viðmið um rétt og rangt

     Vottar Jehóva viðurkenna mælikvarða Guðs á rétt og rangt. (Jesaja 5:20) Í grein sem birt var í Journal of Alcohol and Drug Education kemur fram að hópþrýstingur í háskólum verður til þess að margir nemendur „taka ákvarðanir þvert á það sem þeir vita að er rétt eða rangt“. h Þessi athugasemd kemur heim og saman við meginreglu úr Biblíunni: „Vondur félagsskapur spillir góðum venjum.“ (1. Korintubréf 15:33) Í háskólaumhverfi er ýmis hegðun sem Guð fordæmir algeng og jafnvel hvatt til hennar, svo sem fyllirí, fíkniefnaneysla og kynlíf utan hjónabands. – 1. Korintubréf 6:9, 10; 2. Korintubréf 7:1.

  •   Ranghugmynd: Háskólamenntun er besta leiðin til að bæta heiminn.

     Við vitum að margir sækjast ekki eftir ríkidæmi, upphefð eða ánægju af syndugu líferni þegar þeir fara í háskólanám heldur gera þeir það sjálfum sér til gagns og til að bæta heiminn. Það eru göfug markmið. En vottar Jehóva velja aðra leið í lífinu. Við teljum ríki Guðs vera einu vonina um betri heim, rétt eins og Jesús gerði. (Matteus 6:9, 10) En við bíðum ekki aðgerðarlaus eftir því að ríki Guðs leysi vandamál heimsins. Rétt eins og Jesús tökum við þátt í að boða ,fagnaðarboðskapinn um ríkið‘ um allan heim og hjálpum hundruð þúsundum manna á hverju ári að breyta lífi sínu til hins betra. i – Matteus 24:14.

a Ungir vottar Jehóva sem búa enn hjá foreldrum sínum fara að óskum þeirra um menntun svo framarlega sem þær stangast ekki á við lög Guðs. – Kólossubréfið 3:20.

b Til þess höfum við gefið út yfir 11 milljónir eintaka af hjálpargögnum við lestrarkennslu, svo sem bæklinginn Apply Yourself to Reading and Writing. Við höldum einnig ókeypis lestrarnámskeið á 120 tungumálum víða um heiminn. Á árunum 2003–2017 kenndum við um 70.000 manns að lesa og skrifa.

c Sjá greinina „Should I Quit School?

d Til dæmis hvetjum við foreldra til að láta syni sína og dætur ganga í skóla. Sjá greinina „Should My Child Go to School?“ í Varðturninum á ensku 15. mars 2003.

f Sjá flokkinn „Viðhorf til uppruna lífsins“ á jw.org.

g Practical Economics: Economic Transformation and Government Reform in Georgia 2004–2012, bls. 170.

h 61. árgangur, nr. 1, apríl 2017, bls. 72.

i Sjá reynslusögur sem sýna kraftinn í orði Guðs og boðskapnum um ríki hans í flokknum „Biblían breytir lífi fólks“ á jw.org.