Hoppa beint í efnið

Flóð færir góðar fréttir

Flóð færir góðar fréttir

 Tólf vottar sigldu af stað frá strandhéraðinu Miskító í Níkaragva árið 2017. Báturinn þeirra hét Sturi Yamni. Einn úr hópnum, Stephen að nafni, segir: „Markmið okkar var að uppörva lítinn hóp votta sem bjó á afskekktu svæði og hjálpa þeim að boða fagnaðarboðskapinn á stóra starfssvæðinu þeirra.“

 Vottarnir 12 lögðu af stað frá Perlulóni (Laguna de Perlas) í 200 kílómetra ferðalag upp ána Río Grande de Matagalpa. Þeir vissu ekki að nafn bátsins, sem þýðir ‚góðar fréttir‘ á miskító, myndi hafa sérstaka þýðingu fyrir fólkið sem bjó meðfram ánni. Eftir um 12 klukkustunda ferðalag, að frátöldu næturstoppi, komu vottarnir á áfangastað – til bæjarins La Cruz de Río Grande. Vottarnir sex sem bjuggu á staðnum tóku vel á móti trúsystkinum sínum.

 Þá um nóttina urðu hamfarir. Öflugur stormur olli steypiregni við upptök Río Grande de Matagalpa. Innan fárra klukkustunda fór áin að flæða yfir bakka sína og hún hélt áfram að hækka næstu tvo daga. Það flæddi inn í ríkissalinn og mörg önnur hús í La Cruz. Trúsystkinin sem voru í heimsókn hjálpuðu íbúunum að rýma hús sín. Flestir vörðu næstu tveim nóttum í tveggja hæða húsi í eigu trúsystur.

Ríkissalurinn í La Cruz sem varð fyrir vatnstjóni.

 Þriðja kvöldið leitaði bæjarstjóri La Cruz til vottanna sem voru í heimsókn til að biðja þá um hjálp. Sturi Yamni var eini báturinn sem var nógu stöðugur til að sigla eftir ólgandi ánni og bæjarstjórinn vildi að gestirnir myndu flytja teymi hjálparstarfsmanna niður ána til að aðstoða önnur þorp sem höfðu líka orðið fyrir tjóni. Vottarnir voru fúsir til að aðstoða.

 Morguninn eftir lögðu þrír vottar af stað með hjálparstarfsteymið. „Nú var áin í miklum ham,“ segir Stephen. „Risastór tré sem höfðu rifnað upp með rótum flutu með straumnum, stórir svelgir höfðu myndast og áin flæddi á meira en 18 kílómetra hraða á klukkustund.“ Þrátt fyrir erfið skilyrði tókst þeim að komast til þriggja þorpa á bátnum.

 Vottarnir þrír notuðu tækifærið til að veita þorpsbúum þá hughreystingu sem þeir þurftu sárlega á að halda. Þeir dreifðu líka eintökum af Vaknið! sem kom út árið 2017 og hitti í mark með titli sínum „Þegar hamfarir verða – hvað getur bjargað lífum?

 Íbúar í þorpunum við ána kunnu virkilega að meta hagnýta aðstoð vottanna og andlega uppörvun þeirra. „Þeir eru tilbúnir að hjálpa á neyðartímum,“ sögðu sumir þeirra. Aðrir sögðu: „Þeir sýna sannan náungakærleika.“ Margir þorpsbúanna hafa verið fúsari til að hlusta á hughreystandi boðskap Biblíunnar eftir að þeir urðu vitni að því hversu mikið vottarnir lögðu á sig til að hjálpa trúsystkinum sínum og öðrum.

Marco, einn bátsmanna, yfirgefur Sturi Yamni til að boða þorpsbúum fagnaðarboðskapinn.

Sturi Yamni liggur að landi í þorpi sem varð fyrir tjóni.