Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Ég var að grafa mína eigin gröf“

„Ég var að grafa mína eigin gröf“
  • Fæðingarár: 1978

  • Föðurland: El Salvador

  • Forsaga: Ofbeldisfullur meðlimur í glæpagengi

FORTÍÐ MÍN

 „Ef þér er alvara að vilja fræðast um Guð skaltu halda áfram að umgangast votta Jehóva.“ Þessi athugasemd kom mér mjög á óvart. Um þessar mundir hafði ég verið að kynna mér Biblíuna með vottum Jehóva. Ég verð að segja svolítið frá lífi mínu til að þið skiljið viðbrögð mín.

 Ég fæddist í borginni Quezaltepeque í El Salvador. Ég var sá 6. í röð 15 systkina. Foreldar mínir reyndu að kenna mér heiðarleika og löghlýðni. Auk þess komu Leonardo og aðrir vottar Jehóva stundum við til að kenna okkur út frá Biblíunni. En ég hunsaði það sem mér var kennt og tók hverja slæmu ákvörðunina á fætur annarri. Ég byrjaði að drekka og neyta fíkniefna með skólafélögum mínum þegar ég var 14 ára gamall. Hver á fætur öðrum heltust þeir úr lestinni við námið til að slást í lið með glæpagengi og ég fylgdi slæmu fordæmi þeirra. Við héngum úti á götu liðlangan daginn, betluðum peninga og stunduðum þjófnað til að fjármagna fíkn okkar.

 Glæpagengið varð fjölskylda mín. Mér fannst ég skulda þeim hollustu. Dag einn réðst til dæmis ein meðlimur gengisins sem var í vímu á nágranna minn. Nágrannanum tókst að hafa vin minn undir og hringja í lögregluna. Þetta gerði mig fokvondan og ég fór að eyðileggja bílinn hans með þungri kylfu í von um að hann myndi sleppa vini mínum. Nágranninn sárbændi mig að hætta meðan ég mölvaði hverja rúðuna á fætur annarri og eyðilagði bílinn hans. En ég neitaði að hlusta.

 Þegar ég var 18 ára lenti glæpagegnið í átökum við lögregluna. Meðan ég gerði mig líklegan til að varpa heimagerðri sprengju, sprakk hún í hendi minni – ég veit ekki alveg hvernig það gerðist. Ég man bara eftir að hafa séð illa laskaða hönd mína – og þá leið fyrir mig. Þegar ég vaknaði á spítalanum var mér sagt að ég hefði misst hægri höndina, heyrnina á hægra eyra og að ég væri næstum blindur á hægra auga.

 Þrátt fyrir örkuml mín fór ég beinustu leið til félaganna í glæpagenginu eftir að ég var útskrifaður af spítalanum. Skömmu síðar var ég þó handtekinn og sendur í fangelsi. Þar styrktust tengslin við meðlimi gengisins enn frekar. Við gerðum allt saman allan liðlangan daginn – frá morgunverðinum þegar við reyktum okkar fyrstu marijúana-sígarettu og þangað til við fórum að sofa.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Meðan ég var í fangelsinu heimsótti Leonardo mig. Í einu samtala okkar benti hann á húðflúr á hægri handlegg mínum og spurði mig: „Veistu hvað þessir þrír punktar merkja?“ „Auðvitað,“ svaraði ég, „kynlíf, eiturlyf og rokktónlist.“ En Leonardo svaraði: „Ég myndi nú frekar segja að þeir merki spítala, fangelsi og dauða. Þú ert búinn að vera á spítala, núna ertu í fangelsi. Þú veist hvað verður næst.“

 Þessi orð Leonardos voru rothögg fyrir mig. Hann hafði rétt fyrir sér. Ég var að grafa mína eigin gröf með lífsmáta mínum. Leonardo bauðst til að hjálpa mér að rannsaka Biblíuna og ég þáði það. Það sem ég lærði úr Biblíunni knúði mig til að breyta lífi mínu. Biblían segir til dæmis: „Vondur félagsskapur spillir góðu siðferði.“ (1. Korintubréf 15:33, neðanmáls) Eitt það fyrsta sem ég þurfti því að gera var að finna nýja vini. Þess vegna hætti ég að mæta á fundi glæpagengisins og byrjaði þess í stað í mæta á samkomur sem Vottar Jehóva héldu innan veggja fangelsisins. Á þessum samkomum hitti ég fanga sem heitir Andrés. Hann hafði látið skírast sem vottur Jehóva á meðan hann var í fangelsinu. Hann bauð mér að borða með sér morgunverð. Upp frá því hætti ég að byrja daginn á því að reykja marijúana. Þess í stað ræddum við Andrés biblíuvers á hverjum morgni.

 Meðlimir glæpagengisins tóku strax eftir því að ég var að breytast. Einn leiðtoganna kom því að máli við mig og sagðist þurfa að tala við mig. Ég varð logandi hræddur. Ég vissi ekki hvað hann myndi gera mér þegar hann kæmist að áformum mínum, vegna þess að það er næstum ómögulegt að yfirgefa glæpagengi. Hann sagði: „Við höfum tekið eftir því að þú er hættur að mæta á fundina okkar en þú sækir samkomur Votta Jehóva. Hvað hefur þú hugsað þér að gera?“ Ég sagði honum að ég vildi halda áfram að kynna mér Biblíuna og breyta lífi mínu. Mér til undrunar sagði hann mér að gegnið myndi virða mig svo lengi sem ég sýndi að ég ætlaði virkilega að verða vottur Jehóva. Síðan sagði hann: „Ef þér er alvara að vilja fræðast um Guð skaltu halda áfram að umgangast votta Jehóva. Við væntum þess að þú hættir að gera slæma hluti. Ég óska þér til hamingju. Þú ert á réttri braut. Vottarnir geta sannarlega hjálpað þér. Ég las með þeim þegar ég var í Bandaríkjunum og sumir í fjölskyldu minni eru vottar Jehóva. Vertu óhræddur. Haltu áfram á sömu braut.“ Ég var enn þá hræddur en samt yfir mig glaður. Ég þakkaði Jehóva Guði í hjarta mínu. Mér leið eins og fugli sem hafði verið sleppt úr búri sínu, og skildi orð Jesú: „Þið munuð þekkja sannleikann og sannleikurinn veitir ykkur frelsi.“ – Jóhannes 8:32.

 Sumir af gömlu vinunum reyndu mig með því að bjóða mér eiturlyf. Ég verð að játa að ég lét stundum undan. En með tímanum, eftir margar einlægar bænir, tókst mér loks að sigrast á löstum mínum. – Sálmur 51:10, 11.

 Margir bjuggust við að ég myndi snúa til baka til fyrra lífs eftir að mér hafði verið sleppt úr fangelsi. En það varð ekki raunin. Hins vegar fór ég oft í fangelsið til að segja öðrum föngum frá því sem ég hafði lært í Biblíunni. Gömlu félagarnir sannfærðust loks um að ég hafði breyst. Það sama átti því miður ekki við um gömlu óvinina.

 Dag einn þegar ég var úti í boðuninni vorum starfsfélagi minn og ég skyndilega umkringdir vopnuðum meðlimum fyrrverandi óvinagengis. Þeir vildu mig feigan. Félagi minn var kurteis og hugrakkur þegar hann útskýrði fyrir þeim að ég væri ekki lengur meðlimur glæpagengisins. Ég reyndi að halda ró minni á meðan. Eftir að hafa barið mig og varað mig við að hætta mér ekki inn á þetta svæði framar, lögðu þeir niður vopnin og slepptu okkur. Biblían hafði sannarlega breytt lífi mínu. Áður hefði ég reynt að ná fram hefndum. En núna fer ég eftir ráði Biblíunnar í 1. Þessaloníkubréfi 5:15: „Gætið þess að enginn gjaldi nokkrum illt með illu en gerið hvert öðru alltaf gott og sömuleiðis öllum öðrum.“

 Allt frá því að ég varð vottur Jehóva hef ég leitast við að vera heiðarlegur. Það hefur ekki verið auðvelt. En með hjálp Jehóva Guðs, ráðum Biblíunnar og stuðningi minna nýju vina hefur mér tekist það. Ég vil aldrei snúa aftur til fyrri breytni. – 2. Pétursbréf 2:22.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Ég var ofbeldisfullur maður og reiðin ólgaði í mér. Ég er sannfærður um að ég væri ekki á lífi ef ég hefði haldið áfram á þessari lastabraut. Það sem ég hef lært úr Biblíunni hefur breytt mér. Ég hætti að stunda lesti mína. Ég hef lært að vera friðsamur við fyrrverandi óvini mína. (Lúkas 6:27) Og núna hef ég eignast vini sem hjálpa mér að rækta góða eiginleika. (Orðskviðirnir 13:20) Ég er hamingjusamur og lifi tilgangsríku lífi í þjónustu Guðs sem reyndist tilbúinn að fyrirgefa allt það illa sem ég hef gert. – Jesaja 1:18.

 Árið 2006 sótti ég sérstakan þjálfunarskóla fyrir einhleypa kristna boðbera. Nokkrum árum síðar kvæntist ég yndislegri eiginkonu minni og saman ölum við upp dóttur okkar. Ég nota núna mikinn hluta tíma míns í að kenna öðrum meginreglur Biblíunnar sem hjálpuðu mér. Ég þjóna líka sem öldungur í söfnuði mínum og ég reyni að hjálpa hinum ungu að forðast mistökin sem ég gerði á þeirra aldri. Í stað þess að grafa eigin gröf, byggi ég upp til þeirrar eilífu framtíðar sem Guð lofar í Biblíunni.