Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Gatan var heimili mitt“

„Gatan var heimili mitt“
  • Fæðingarár: 1955

  • Föðurland: Spánn

  • Forsaga: Ofdrykkja, vímuefnaneysla og ofbeldi

FORTÍÐ MÍN

 Sumir eru lengi að læra af biturri reynslu. Ég var einn af þeim. Ég fæddist og ólst upp í Barcelona, annarri stærstu borg Spánar. Við fjölskyldan bjuggum í Somorrostro sem er hverfi sem nær yfir stóran hluta borgarinnar sem liggur að strönd. Somorrostro er þekkt fyrir glæpi og fíkniefnasölu.

 Við vorum níu systkinin og ég var elstur. Faðir minn sendi mig til að vinna sem boltastrákur í tennisklúbbi í nágrenninu því við vorum mjög fátæk. Þegar ég var tíu ára vann ég í tíu klukkustundir á hverjum degi. Það þýddi að ég gat ekki sótt skóla eins og flestir jafnaldra minna. Þegar ég var 14 ára fékk ég vinnu á vélaverkstæði.

Árið 1975 gekk ég í spænsku útlendingahersveitina í Norður-Afríku og klæddist einkennisbúningi hennar.

 Árið 1975 var ég kallaður í herinn en það var herskylda á Spáni. Ég þráði ævintýri þannig að ég gekk til liðs við spænsku útlendingahersveitina í Melilla sem er spænskt sjálfsstjórnarsvæði í Norður-Afríku. Á þessum tíma sökk ég djúpt í ömurlegan heim áfengis- og vímuefnaneyslu.

 Þegar ég yfirgaf hersveitina sneri ég aftur til Barcelona og stofnaði glæpaklíku. Við stálum öllu steini léttara. Við seldum síðan þýfið til að fjármagna vímuefnaneysluna. Ég fór að nota LSD og amfetamín og líf mitt snerist um kynlíf, vín og fjárhættuspil. Þessi skaðlegi lífsmáti varð til þess að ég varð stöðugt ofbeldisfyllri. Ég var alltaf með hníf, öxi eða sveðju á mér og skorti aldrei kjark til að beita þeim ef mér sýndist þörf á því.

 Eitt sinn stálum við í klíkunni bíl og vorum eltir af lögreglunni. Þetta var eins og atriði í kvikmynd. Við keyrðum um það bil 30 km þar til lögreglan byrjaði að skjóta á okkur. Það endaði með árekstri og við hlupum allir af vettvangi. Þegar faðir minn komst að þessu rak hann mig skiljanlega að heiman.

 Næstu fimm árin bjó ég á götunni. Ég svaf í stigagöngum, vörubílum, á garðbekkjum og í kirkjugörðum. Um tíma bjó ég jafnvel í helli. Ég hafði engan tilgang í lífinu og mér fannst ekki skipta máli hvort ég væri lífs eða liðinn. Ég man að ég skar á mér úlnliðina og handleggina undir áhrifum vímuefna. Ég ber örin ennþá.

HVERNIG BILÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Þegar ég var 28 ára leitaði móðir mín mig uppi og bauð mér að koma aftur heim. Ég samþykkti það og lofaði henni að ég kæmi lífi mínu í lag en það tók mig dágóðan tíma að efna það loforð.

 Dag einn komu tveir vottar Jehóva í heimsókn til okkar. Á meðan ég hlustaði á þá hrópaði faðir minn að ég ætti að skella á þá hurðinni. Þar sem ég átti erfitt með að hlýða skipunum ákvað ég að hunsa hann. Þeir buðu mér þrjár litlar bækur sem ég þáði með þökkum. Ég spurði hvar samkomusalur þeirra væri og fáeinum dögum síðar ákvað ég að mæta.

 Það fyrsta sem ég tók eftir var hversu snyrtilega allir voru klæddir. Ég var aftur á móti með sítt hár og druslulegt skegg og var í subbulegum fötum. Það var greinilegt að ég passaði ekki í þetta umhverfi þannig að ég hélt mig fyrir utan ríkissalinn. En mér til mikillar furðu sá ég fyrrum félaga minn og meðlim í klíkunni sem hét Juan í jakkafötum. Ég komst að því síðar að hann hafði gerst vottur Jehóva ári áður. Þegar ég sá hann fékk ég kjark til að fara inn og vera viðstaddur samkomuna. Þá fór allt að breytast hjá mér.

 Ég þáði biblíunámskeið og áttaði mig fljótlega á því ef ég vildi fá velþóknun Guðs þyrfti ég að breyta ofbeldisfullum og siðlausum lífstíl mínum. Það var ekki auðvelt að gera þessar breytingar. Ég komst að því að til að þóknast Jehóva Guði varð ég að ,láta umbreytast með nýju hugarfari‘. (Rómverjabréfið 12:2) Miskunn Guðs snerti mig djúpt. Þrátt fyrir öll mín mistök fann ég að hann vildi gefa mér tækifæri til að breyta algerlega um lífstíl. Það sem ég lærði um Jehóva Guð hafði djúp áhrif á mig. Mér varð ljóst að til var skapari sem var annt um mig. – 1. Pétursbréf 5:6, 7.

 Þetta varð til þess að ég fór að gera breytingar. Þegar til dæmis umræðan um reykingar kom upp á biblíunámskeiðinu sagði ég við sjálfan mig að fyrst Jehóva Guð vildi að ég væri hreinn og flekklaus að öllu leiti þá yrði ég að hætta að reykja. (2. Korintubréf 7:1) Sígaretturnar fóru beint í ruslið.

 Ég þurfti líka að hætta að nota og selja fíkniefni. Það var erfiðara og tók lengri tíma. Til að ná því takmarki vissi ég að ég þurfti að slíta tengslin við fyrrum félaga mína. Áhrif þeirra hjálpuðu mér ekki að taka framförum andlega. Með tímanum fór ég að reiða mig betur á Guð og hjálp nýrra vina í söfnuðinum. Kærleikur þeirra og athygli var eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað áður. Eftir nokkra mánuði var ég laus við fíkniefnin og gat ,íklæðst hinum nýja manni‘, sem hjálpaði mér að öðlast velþóknun Guðs. (Efesusbréfið 4:24) Ég var skírður sem vottur Jehóva í ágúst 1985.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Biblían hefur breytt lífi mínu til hins betra. Hún frelsaði mig frá lífstíl sem var að eyðileggja líkama minn og sjálfsvirðingu. Fleiri en 30 fyrrum félaga minna dóu ungir af völdum alnæmis eða annarra sjúkdóma sem tengjast vímuefnum. Ég er svo þakklátur að hafa sloppið við þær hörmulegu afleiðingar með því að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar.

 Hnífar og axir sem ég bar á mér sem ungur ofbeldisfullur maður heyra nú sögunni til. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að dag einn myndi ég þess í stað vera með Biblíu og nota hana til að hjálpa fólki. Núna boðum við hjónin trúna í fullu starfi sem vottar Jehóva.

 Foreldrar mínir gerðust aldrei vottar Jehóva en þau kunnu að meta áhrifin sem það hafði á mig að kynnast Biblíunni. Faðir minn kom jafnvel vottunum til varnar frammi fyrir öllum samstarfsmönnum sínum. Honum var ljóst að nýfundin trú mín hafði breytt lífi mínu ótrúlega mikið til hins betra. Móðir mín sagði oft að ég hefði átt að kynnast Biblíunni fyrr. Ég er henni innilega sammála.

 Þessi reynsla mín hefur kennt mér hversu heimskulegt er að leita eftir lífsfyllingu í vímuefnum eða öðrum löstum. Nú fæ ég sanna lífsfyllingu þegar ég kynni boðskapinn í orði Guðs. Sá boðskapur bjargaði lífi mínu.