Hoppa beint í efnið

LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | JÓNATAN

Ekkert getur hindrað Jehóva

Ekkert getur hindrað Jehóva

 Sjáðu fyrir þér hermenn í útvarðarstöð í hrjóstrugu landi. Í annars tilbreytingalausu útsýni er eitthvað sem vekur athygli hermanna Filista sem standa á verði. Handan gils birtast tveir Ísraelsmenn. Hermönnunum er skemmt, í augum þeirra eru mennirnir engin ógn. Filistar hafa um langa hríð drottnað yfir Ísraelsmönnum sem geta ekki einu sinni brýnt landbúnaðarverkfæri án þess að fá hjálp frá óvinum sínum, Filistum. Hermenn Ísraelsmanna eru af þeim sökum illa búnir vopnum. Og þar að auki eru þetta bara tveir menn. Hvaða skaða gætu þeir mögulega valdið þótt þeir væru vopnaðir stríðsmenn? Í hæðnistón kalla Filistarnir: „Komið upp til okkar. Við ætlum að segja ykkur svolítið.“ – 1. Samúelsbók 13:19-23; 14:11, 12.

 Sitthvað átti eftir að koma í ljós en ekki eins og Filistarnir bjuggust við. Ísraelsmennirnir tveir hlupu niður í gilið og klifruðu síðan upp hinum megin í áttina til Filistanna. Það var svo bratt að þeir þurftu að nota bæði hendur og fætur en áfram klöngruðust þeir og stefndu beint á útvarðarstöðina. (1. Samúelsbók 14:13) Filistarnir sáu nú að maðurinn sem fór á undan var vopnaður og á eftir honum kom skjaldsveinn hans. Ætlaði hann sér að ráðast á heila útvarðarstöð með einn mann sér við hlið? Var maðurinn galinn?

 Hann var ekki búinn að missa vitið heldur var hann maður með sterka trú. Hann hét Jónatan og sannkristið fólk nú á dögum getur lært mikið af honum. Þótt við tökum ekki þátt í bókstaflegum hernaði þá getum við lært heilmargt af Jónatan um hugrekki, trúfesti og óeigingirni sem er okkur nauðsynlegt til að byggja upp ósvikna trú. – Jesaja 2:4; Matteus 26:51, 52.

Trúfastur sonur og hugrakkur hermaður

 Til að skilja af hverju Jónatan gerði árás á útvarðarstöðina þurfum við að kynna okkur aðeins sögu hans. Jónatan var elsti sonur Sáls, fyrsta konungsins í Ísrael. Þegar Sál var útnefndur sem konungur var Jónatan orðinn 20 ára eða eldri. Jónatan hélt, að því er virðist, sterku sambandi við föður sinn sem leitaði oft til sonar síns. Á þeim tíma þekkti Jónatan ekki föður sinn einungis sem hávaxinn, myndarlegan og hugrakkan stríðsmann heldur, sem var miklu mikilvægara, trúaðan og auðmjúkan mann. Jónatan gat skilið hvers vegna Jehóva valdi Sál sem konung. Jafnvel spámaðurinn Samúel sagði að hann ætti sér engan sinn líka meðal þjóðarinnar. – 1. Samúelsbók 9:1, 2, 21; 10:20-24; 20:2.

 Jónatan hlýtur að hafa fundist það mikill heiður að berjast undir stjórn föður síns við óvini þjóðar Jehóva. Þessi stríð voru ekkert í líkingu við þjóðernisstríð nú á dögum. Í þá daga valdi Jehóva Ísraelsþjóðina sem fulltrúa sinn og hún var undir stöðugum árásum þjóða sem tilbáðu falsguði. Filistarnir voru spilltir vegna tilbeiðslu á guðum eins og Dagon og reyndu oft að kúga og jafnvel útrýma útvalinni þjóð Jehóva.

 Fyrir menn eins og Jónatan var það að berjast spurning um trúfasta þjónustu við Jehóva Guð. Og Jehóva blessaði viðleitni Jónatans. Fljótlega eftir að Sál varð konungur útnefndi hann son sinn til að fara fyrir 1000 hermönnum og réðust þeir á útvarðarstöð Filista í Geba. Þótt þeir væru illa vopnum búnir unnu þeir Jónatan orrustuna með hjálp Jehóva. Filistar svöruðu með því að draga saman mikinn herafla. Margir hermanna Sáls voru skelfingu lostnir. Sumir flýðu og földu sig og fáeinir gengu jafnvel í lið með andstæðingunum. En hugrekki Jónatans dvínaði aldrei. – 1. Samúelsbók 13:2-7; 14:21.

 Þegar sá atburður átti sér stað, sem lýst er í upphafi, ákvað Jónatan að læðast í burtu með aðeins skjaldsvein sinn sér við hlið. Þegar þeir nálguðust útvarðarstöð Filista í Mikmas útskýrði Jónatan áætlun sína fyrir skjaldsveininum. Þeir myndu láta hermenn Filista sjá sig. Ef Filistarnir skoruðu á þá að koma á móti þeim væri það tákn um að Jehóva myndi hjálpa þjónum sínum. Skjaldsveinninn samþykkti þetta fúslega, kannski vegna hvatningar frá Jónatan: „Ekkert getur hindrað að Drottinn veiti sigur, hvort heldur það er með mörgum mönnum eða fáum.“ (1. Samúelsbók 14:6-10) Hvað átti hann við?

 Jónatan þekkti Guð sinn greinilega mjög vel. Hann vissi örugglega að áður fyrr hafði Jehóva hjálpað þjónum sínum að sigra óvini sem voru mörgum sinnum fleiri en þeir. Stundum hafði hann jafnvel notað einn einstakling til að ná fram sigri. (Dómarabókin 3:31; 4:1-23; 16:23-30) Jónatan vissi því að það var hvorki fjöldi, styrkur né vopn þjóna Guðs sem skiptu mestu máli heldur trú þeirra. Í trú lét Jónatan Jehóva ákveða hvort hann og skjaldsveinn hans ættu að gera árás á útvarðarstöðina. Hann valdi tákn sem Jehóva gæti notað til að sýna honum samþykki sitt. Með vissu um samþykki Jehóva hélt Jónatan óhræddur af stað.

 Skoðum tvo þætti í trú Jónatans nánar. Í fyrsta lagi bar hann djúpa lotningu fyrir Guði sínum, Jehóva. Hann vissi að Guð almáttugur reiðir sig ekki á mannlegan mátt til að framkvæma vilja sinn en Jehóva gleðst samt yfir því að blessa trúfast fólk sem þjónar honum. (2. Kroníkubók 16:9) Í öðru lagi leitaði Jónatan eftir sönnun um samþykki Jehóva áður en hann lét til skarar skríða. Við leitum ekki eftir yfirnáttúrulegum táknum frá Guði nú á dögum til að sannreyna hvort hann samþykkir ákvarðanir okkar. Við höfum Biblíuna og höfum því allt sem við þurfum til að finna út hver vilji Guðs er. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Skoðum við Biblíuna vandlega áður en við tökum mikilvægar ákvarðanir? Ef við gerum það sýnum við að við metum vilja Guðs meira en okkar eigin, rétt eins og Jónatan.

 Mönnunum tveimur, stríðsmanninum og skjaldsveininum, miðaði hratt upp bratta brekkuna að útvarðarstöðinni. Filistarnir áttuðu sig loksins á að verið var að ráðast á þá og sendu menn til að berjast við innrásarmennina tvo. Filistarnir höfðu ekki bara yfirburði vegna fjölda hermanna heldur stóðu þeir hærra og hefðu auðveldlega átt að geta sigrað tvo árásarmenn. En Jónatan felldi hvern hermanninn á fætur öðrum. Skjaldsveinninn kom á eftir og drap þá. Mennirnir tveir drápu 20 óvinahermenn á litlum bletti. Og Jehóva lét ekki þar við sitja. Við lesum: „Við þetta greip um sig mikil skelfing í herbúðunum niðri á völlunum. Allur herinn skalf af ótta, bæði framvarðarsveitir og ránsflokkarnir. Og jörðin nötraði því að þessi skelfing var send af Guði.“ – 1. Samúelsbók 14:15.

Jónatan fór gegn heilli framvarðarsveit vopnaðra óvina með einn mann sér við hlið.

 Úr fjarlægð fylgdust Sál og menn hans með þegar ringulreiðin braust út á meðal Filista sem fóru jafnvel að berjast hver gegn öðrum. (1. Samúelsbók 14:16, 20) Ísraelsmenn fylltust hugrekki og réðust til atlögu, hugsanlega með því að taka vopn fallinna Filista. Þennan dag veitti Jehóva fólki sínu mikinn sigur. Og hann hefur ekki breyst síðan þessir spennandi atburðir áttu sér stað. Ef við setjum traust okkar á hann eins og Jónatan og ónefndur skjaldsveinn hans sjáum við aldrei eftir því. – Malakí 3:6; Rómverjabréfið 10:11.

Hann vann með Guði

 Sigurinn var ekki eins jákvæður fyrir Sál eins og Jónatan. Sál gerði alvarleg mistök. Hann óhlýðnaðist smurðum spámanni Jehóva, Samúel, með því að bera fram fórn sem spámaðurinn átti að bera fram en hann var Levíti. Þegar Samúel kom sagði hann Sál að vegna óhlýðninnar myndi ríki hans ekki endast. Áður en Sál sendi menn til orrustu sór hann óskynsamlegan eið: „Bölvaður sé hver sá maður sem neytir einhvers áður en kvöldar og áður en ég hef hefnt mín á fjandmönnum mínum“ – 1. Samúelsbók 13:10-14; 14:24.

 Orð Sáls gáfu til kynna þá sorglegu staðreynd að hann var að breytast til hins verra. Var þessi auðmjúki, andlega sinnaði maður að verða framagjarn eiginhagsmunaseggur? Jehóva sagði aldrei að það ætti að setja þessum hugrökku, duglegu hermönnum slíkar hömlur. Og hvað um orð Sáls: „Áður en ég hef hefnt mín á fjandmönnum mínum“? Gefa þau til kynna að Sál hafi haldið að þetta stríð hafi bara snúist um hann sjálfan? Hafði hann gleymt að það sem skipti mestu máli var réttlæti Jehóva en ekki löngun Sáls til að fá hefnd, frægð eða sigur?

 Jónatan vissi ekkert um þennan illa ígrundaða eið föður síns. Úrvinda eftir orrustuna dýfði hann stafnum sínum í hunangsbú og smakkaði á hunanginu og fann samstundis hvernig hann hresstist. Síðan var honum sagt að faðir hans hefði bannað að þeir fengju sér að borða. Þá sagði Jónatan: „Faðir minn leiðir ógæfu yfir landið. Sjáið hve augu mín ljóma af því að ég bragðaði aðeins á hunanginu. Vissulega hefði ósigur Filista orðið enn meiri ef liðið hefði etið af herfanginu sem það tók af fjandmönnum sínum“ (1. Samúelsbók 14:25-30) Hann hafði rétt fyrir sér. Jónatan var trúfastur sonur en trúfesti hans var ekki blind. Hann samþykkti ekki hugsunarlaust allt sem faðir hans gerði eða sagði og það sýndi að hann sá hlutina í réttu ljósi og aðrir virtu hann fyrir það.

 Þegar Sál komst að því að Jónatan hefði brotið bannið neitaði hann samt að viðurkenna hvað það hafði verið heimskulegt að setja þetta bann. Þess í stað fór hann fram á að hans eigin sonur yrði tekinn af lífi. Jónatan hvorki mótmælti né bað um miskunn. Hann sýndi óeigingirni og svaraði: „Ég er reiðubúinn að deyja.“ En Ísraelsmenn tóku þá til máls: „Á Jónatan að láta lífið, hann sem hefur unnið slíkan sigur fyrir Ísrael? Það skal aldrei verða. Svo sannarlega sem Drottinn lifir þá skal ekki hár skert á höfði hans því að í dag sigraði hann með hjálp Guðs.“ Hverju skilaði þetta? Sál tók þessum rökum. Frásagan segir: „Þannig leysti fólkið líf Jónatans“ – 1. Samúelsbók 14:43-45.

„Ég er reiðubúinn að deyja.“

 Með hugrekki sínu, dugnaði og óeigingirni ávann Jónatan sér gott mannorð. Þegar líf hans var í hættu var það mannorð hans sem kom honum til hjálpar. Það er skynsamlegt að hugleiða hvaða mannorð við ávinnum okkur dag frá degi. Biblían sýnir okkur að gott mannorð er mjög dýrmætt. (Prédikarinn 7:1) Ef við leggjum okkur fram um að eiga gott mannorð hjá Jehóva eins og Jónatan eignumst við dýrmætan orðstír.

Vaxandi myrkur

 Þrátt fyrir mistök Sáls hélt Jónatan áfram að berjast af trúfesti við hlið föður síns í gegnum árin. Við getum rétt ímyndað okkur hversu vonsvikinn hann hefur verið að sjá föður sinn þróa með sér anda óhlýðni og stolts. Myrkrið varð sífellt meira í huga föður hans og Jónatan gat ekkert gert til að stöðva það.

 Vandamálið náði hámarki þegar Jehóva fól Sál að fara í stríð við Amalekíta, fólk sem var svo djúpt sokkið í illsku að á dögum Móse hafði Jehóva boðað eyðingu allrar þjóðarinnar. (2. Mósebók 17:14) Sál var sagt að eyða öllum búfénaði þeirra og taka konung þeirra, Agag, af lífi. Sál vann orrustuna, án efa með hjálp Jónatans sem barðist af hugrekki undir stjórn föður síns eins og venjulega. En Sál sýndi þá óskammfeilni að óhlýðnaðist Jehóva með því að þyrma lífi Agags og halda eftir dýrmætum búfénaði. Spámaðurinn Samúel kvað upp endanlegan dóm Jehóva yfir Sál: „Af því að þú hafnaðir orði Drottins hefur hann hafnað þér sem konungi“ – 1. Samúelsbók 15:2, 3, 9, 10, 23.

 Það leið ekki á löngu þar til Jehóva tók heilagan anda sinn frá Sál. Án stuðnings Jehóva var Sál ofurseldur skapsveiflum, reiðiköstum og ofsakvíðni. Það var eins og vondur andi frá Guði kæmi í stað þess góða. (1. Samúelsbók 16:14; 18:10-12) Jónatan hlýtur að hafa verið miður sín að sjá föður sinn, sem eitt sinn hafði verið göfuglyndur, breytast svona mikið. Jónatan hætti samt aldrei að þjóna Jehóva af trúfesti. Hann studdi föður sinn eins vel og hann gat og var stundum beinskeyttur við hann en fylgdi alltaf sjálfur Jehóva, sem breytist aldrei. – 1. Samúelsbók 19:4, 5.

 Hefur þú einhvern tíma horft upp á einhvern sem þú elskar, kannski ættingja, breytast umtalsvert til hins verra? Það getur verið mjög sársaukafullt. Fordæmi Jónatans minnir okkur á það sem sálmaritarinn skrifaði: „Þótt faðir minn og móðir yfirgefi mig tekur Drottinn mig að sér.“ (Sálmur 27:10) Jehóva er trúfastur. Hann tekur þig líka að sér og er besti faðir sem þú getur hugsað þér hversu mikið sem aðrir bregðast þér eða valda þér vonbrigðum.

 Jónatan komst líklega að því að Jehóva hafði ákveðið að taka konungdóminn frá Sál. Hvernig brást Jónatan við? Velti hann því einhvern tíma fyrir sér hvernig stjórnandi hann yrði? Bar hann von í brjósti sér að leiðrétta einhver af mistökum föður síns og setja með því betra fordæmi sem trúfastur og hlýðinn konungur? Við vitum ekki hvað hann hugsaði með sér, aðeins að slíkar vonir urðu aldrei að veruleika. Er þar með sagt að Jehóva hafi yfirgefið trúfastan mann? Þvert á móti notaði hann Jónatan sem eitt besta fordæmi í Biblíunni um trausta vináttu. Sú vinátta verður til umfjöllunar í annarri grein um Jónatan.