Hoppa beint í efnið

Var Jesús kvæntur maður? Átti Jesús systkini?

Var Jesús kvæntur maður? Átti Jesús systkini?

Svar Biblíunnar

 Það er augljóst af Biblíunni að Jesús var ekki kvæntur maður þó svo að hvergi sé sagt frá hjúskaparstöðu hans. a Hugleiddu eftirfarandi.

  1.   Biblían nefnir oft fjölskyldu Jesú og sömuleiðis konur sem fylgdu honum í þjónustu hans og voru til staðar þegar hann var líflátinn, en aldrei er sagt að hann hafi átt eiginkonu. (Matteus 12:46, 47; Markús 3:31, 32; 15:40; Lúkas 8:2, 3, 19, 20; Jóhannes 19:25) Líklegasta ástæðan fyrir því að Biblían er þögul um málið er sú að hann kvæntist aldrei.

  2.   Jesús talaði við lærisveina sína um þá sem ákvæðu að ganga ekki í hjónaband til að geta gert meira í þjónustu Guðs. Hann sagði þeim: „Sá sem hefur tök á því [að vera einhleypur] ætti að gera það.“ (Matteus 19:10–12) Hann gaf þeim fordæmi sem kysu að giftast ekki til að geta helgað sig Guði í enn fyllri mæli. – Jóhannes 13:15; 1. Korintubréf 7:32–38.

  3.   Rétt fyrir dauða sinn gerði Jesús ráðstafanir varðandi umönnun móður sinnar. (Jóhannes 19:25–27) Ef Jesús hefði verið kvæntur eða átt börn hefði hann líka séð til þess að séð yrði um þau.

  4.   Biblían talar um Jesú sem fyrirmynd eiginmanna en hún talar ekki um það hvernig hann kom fram við mennska eiginkonu. Þess í stað segir hún: „Þið menn, elskið eiginkonur ykkar eins og Kristur elskaði söfnuðinn og gaf líf sitt fyrir hann.“ (Efesusbréfið 5:25) Ef Jesús hefði verið kvæntur meðan hann var hér á jörð mætti þá ekki ætla að fullkomið fordæmi hans sem eiginmaður hefði verið notað í þessu versi?

Átti Jesús systkini?

 Já, Jesús átti í það minnsta sex systkini. Þeirra á meðal voru bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas og að minnsta kosti tvær systur. (Matteus 13:54–56; Markús 6:3) Þessi systkini voru börn Maríu móður Jesú og Jósefs sem þau eignuðust með eðlilegum hætti. (Matteus 1:25) Biblían kallar Jesú „frumburð“ Maríu sem gefur til kynna að hún hafi átt fleiri börn. – Lúkas 2:7.

Ranghugmyndir um bræður Jesú

 Þeir sem halda því fram að María hafi verið hrein mey alla ævi hafa lagt aðra merkingu í orðið „bræður“. Sumir telja til dæmis að bræður Jesú hafi í rauninni verið synir Jósefs af fyrra hjónabandi. En Biblían sýnir að Jesús erfði með lögmætum hætti konungdóminn sem hafði verið lofaður Davíð. (2. Samúelsbók 7:12, 13; Lúkas 1:32) Ef Jósef hefði átt syni sem voru eldri en Jesús þá hefði sá elsti þeirra verið lögmætur erfingi Jósefs.

 Gæti orðalagið átt við lærisveina Jesú eða andlega bræður hans? Þessi hugmynd stangast á við Ritningarnar vegna þess að þær segja að „bræður hans trúðu reyndar ekki á hann“ á tímabili. (Jóhannes 7:5) Biblían gerir greinarmunum á bræðrum Jesú og lærisveinum hans. – Jóhannes 2:12.

 Önnur kenning segir að bræður Jesú hafi verið systkinabörn hans. En Grísku ritningarnar nota ólík orð fyrir „bróður“, „skyldmenni“ og „systkinabarn“. (Lúkas 21:16; Kólossubréfið 4:10) Margir biblíufræðingar viðurkenna að bræður og systur Jesú hafi einfaldlega verið systkini hans. Til dæmis segir orðabókin The Expositorʹs Bible Commentary: „Eðlilegasti skilningur á orðinu ‚bræður‘ … er að átt sé við syni Maríu og Jósefs og þannig sé um að ræða bræður Jesú í móðurlegg.“ b

a Biblían talar um Krist sem brúðguma en samhengið í þessum tilvísunum sýnir klárlega að um myndmál er að ræða – Jóhannes 3:28, 29; 2. Korintubréf 11:2.

b Sjá einnig The Gospel According to St. Mark, önnur útgáfa eftir Vincent Taylor, bls. 249, og A Marginal Jew – Rethinking the Historical Jesus eftir John P. Meier, 1. bindi bls. 331-332.