Hoppa beint í efnið

Hvað er átt við með komu Krists?

Hvað er átt við með komu Krists?

Svar Biblíunnar

 Í Biblíunni er víða talað um þann tíma þegar Kristur kemur til að dæma fólk á jörðinni. a Í Matteusi 25:31–33 segir til dæmis:

 „Þegar Mannssonurinn [Jesús Kristur] kemur í dýrð sinni og allir englarnir með honum sest hann í dýrðarhásæti sitt. Allar þjóðir safnast saman frammi fyrir honum og hann skilur fólk hvað frá öðru eins og hirðir skilur sauði frá geitum. Hann lætur sauðina vera sér til hægri handar en geiturnar til vinstri.“

 Þessi tími dóms verður hluti af ‚mikilli þrengingu‘ sem á sér enga hliðstæðu í mannkynssögunni. Þessi þrenging nær hámarki í Harmagedónstríðinu. (Matteus 24:21; Opinberunarbókin 16:16) Kristur líkir óvinum sínum við geitur og segir um þá: „Þeir verða dæmdir til eilífrar eyðingar.“ (2. Þessaloníkubréf 1:9; Opinberunarbókin 19:11, 15) En trúfastir þjónar hans, eða sauðir hans, „hljóta eilíft líf“. – Matteus 25:46.

Hvenær kemur Kristur?

 Jesús sagði: „Enginn veit þann dag og stund.“ (Matteus 24:36, 42; 25:13) En hann lýsti margþættu sýnilegu ‚tákni‘ sem myndi einkenna tímabilið áður en hann kæmi. – Matteus 24:3, 7–14; Lúkas 21:10, 11.

Kemur Kristur sem andavera eða í mannslíkama?

 Jesús var reistur upp sem andi svo að hann kemur sem andavera en ekki holdi klæddur. (1. Korintubréf 15:45; 1. Pétursbréf 3:18) Af þessari ástæðu sagði Jesús postulum sínum daginn fyrir dauða sinn: „Innan skamms sér heimurinn mig ekki framar.“ – Jóhannes 14:19.

Algengar ranghugmyndir um komu Krists

 Ranghugmynd: Þegar Biblían segir að fólk muni sjá Jesú „koma á skýjum himins“ merkir það að koma Jesú verði sýnileg. – Matteus 24:30.

 Staðreynd: Biblían tengir ský oft við það sem er hulið sjónum manna. (3. Mósebók 16:2; 4. Mósebók 11:25; 5. Mósebók 33:26) Til dæmis sagði Guð við Móse: „Ég kem til þín í dimmu skýi.“ (2. Mósebók 19:9) Móse sá Guð ekki með berum augum. Eins mun Kristur ‚koma á skýjum‘ í þeim skilningi að koma hans verður augljós jafnvel þótt fólk sjái hann ekki bókstaflega.

 Ranghugmynd: Orðalagið „hvert auga mun sjá hann“ í Opinberunarbókinni 1:7 sem notað er til að lýsa komu Krists ætti að taka bókstaflega.

 Staðreynd: Grísku orðin í Biblíunni fyrir „auga“ og „sjá“ eru stundum notuð til að lýsa einhverju sem maður skynjar eða skilur frekar en um það sem maður sér bókstaflega. b (Matteus 13:15; Lúkas 19:42; Rómverjabréfið 15:21; Efesusbréfið 1:18) Biblían segir um Jesú upprisinn: „Hann … býr í ljósi sem enginn getur nálgast og enginn maður … getur séð hann.“ (1. Tímóteusarbréf 6:16) „Hvert auga mun sjá hann“ í þeim skilningi að allir menn munu skilja og skynja að Jesús sé sá sem fullnægir dómi Guðs. – Matteus 24:30.

a Þótt margir tali um „síðari komu“ þegar þeir eiga við komu Krists kemur þetta orðalag hvergi fyrir í Biblíunni.

b Sjá The New Thayer’s Greek-English Lexicon of the New Testament (1981), bls. 451 og 470.