Hoppa beint í efnið

Hvað er ófyrirgefanleg synd?

Hvað er ófyrirgefanleg synd?

Svar Biblíunnar

 Ófyrirgefanleg synd er verk ásamt viðhorfi sem kemur í veg fyrir að syndarinn geti nokkurn tíma fengið fyrirgefningu Guðs. Hvernig gæti komið til þess?

 Guð fyrirgefur þeim sem iðrast synda sinna, fylgja mælikvarða hans í lífinu og iðka trú á Jesú Krist. (Postulasagan 3:19, 20) Sumir geta hins vegar orðið svo fastir í fjötrum syndugrar breytni að þeir breyta ekki viðhorfum sínum og verkum. Biblían lýsir þeim þannig að þeir ,hafi illt í hjarta‘ sem hefur ,forherst af táli syndarinnar‘.(Hebreabréfið 3:12, 13) Líkt og leir sem hefur verið brenndur í brennsluofni og er ekki lengur hægt að móta, er hjarta þeirra andvígt Guði til frambúðar. (Jesaja 45:9) Það er enginn grundvöllur fyrir fyrirgefningu því þeir eru sekir um ófyrirgefanlega synd og geta aldrei fengið sakaruppgjöf. – Hebreabréfið 10:26, 27

 Sumir trúarleiðtogar Gyðinga á dögum Jesú frömdu ófyrirgefanlega synd. Þeir vissu að heilagur andi Guðs var á bak við kraftaverk Jesú en samt voru þeir svo illgjarnir að fullyrða að hann fengi hjálp frá Satan djöflinum. – Markús 3:22, 28-30.

Dæmi um syndir sem eru fyrirgefanlegar

  •  Guðlast vegna vanþekkingar. Páll postuli sem áður lastmælti sagði síðar: „Mér var miskunnað, sökum þess að ég trúði ekki og vissi ekki hvað ég gerði.“ – 1. Tímóteusarbréf 1:12, 13.

  •  Hjúskaparbrot. Biblían greinir frá fólki sem drýgði hjúskaparbrot en breytti hegðun sinni og fékk fyrirgefningu Guðs. – 1. Korintubréf 6:9-11.

„Hef ég drýgt ófyrirgefanlega synd?“

 Ef þú iðrast synda þinna í einlægni og vilt breyta þér þá hefurðu ekki drýgt ófyrirgefanlega synd. Guð er fús að fyrirgefa þér þótt þú hrasir ítrekað svo framarlega sem hjarta þitt forherðist ekki varanlega. – Jesaja 1:18.

 Sumir halda að þeir hafi drýgt ófyrirgefanlega synd vegna þess að sektarkenndin heldur áfram að þjaka þá. En Biblían sýnir að við getum ekki alltaf treyst eigin tilfinningum. (Jeremía 17:9) Guð hefur ekki gefið okkur leyfi til að dæma neinn, ekki heldur okkur sjálf. (Rómverjabréfið 14:4, 12) Hann getur fyrirgefið okkur jafnvel þegar okkar eigið hjarta fordæmir okkur. – 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20.

Drýgði Júdas Ískaríot ófyrirgefanlega synd?

 Já, hann gerði það. Hann var svo fégráðugur að hann stal peningum sem voru gefnir til að nota við heilaga þjónustu. Hann þóttist meira að segja bera umhyggju fyrir fátækum þegar hann hafði bara áhuga á að stela meiri peningum. (Jóhannes 12:4-8) Þegar Júdas var varanlega forhertur sveik hann Jesú fyrir 30 silfurpeninga. Jesús vissi að Júdas myndi aldrei iðrast þess í einlægni sem hann gerði. Jesús kallaði hann ,son glötunarinnar‘. (Jóhannes 17:12) Þetta þýddi að þegar Júdas myndi deyja yrði hann afmáður fyrir fullt og allt og hefði enga von um upprisu. – Markús 14:21.

 Júdas sýndi ekki einlæga iðrun. Hann játaði synd sína en ekki frammi fyrir Guði heldur trúarleiðtogunum sem höfðu lagt á ráðin með honum. – Matteus 27:3-5; 2. Korintubréf 7:10.