Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Þegar unglingurinn bregst trausti þínu

Þegar unglingurinn bregst trausti þínu

 Sumir unglingar taka ekki mark á útivistarreglunum sem þeim eru settar. Aðrir blekkja foreldra sína, kannski með því að ljúga að þeim eða laumast út úr húsinu til að vera með vinum sínum. Hvað geturðu gert ef unglingurinn þinn bregst trausti þínu?

 Er unglingurinn minn uppreisnarseggur?

 Það þarf ekki að vera. Í Biblíunni segir að ‚heimskan setjist að í hjarta sveinsins‘ og unglingar sýna oft fram á sannleika þess. (Orðskviðirnir 22:15) „Unglingar taka stundum heimskulegar skyndiákvarðanir,“ skrifar doktor Laurence Steinberg. „Búist við einhverjum mistökum.“ a

 Hvað ef unglingurinn minn hefur blekkt mig?

 Ekki hugsa sem svo að það sé markmið unglingsins að standa uppi í hárinu á þér. Rannsóknir sína að unglingum er ekki sama hvað foreldrum þeirra finnst um þá þó að þeir hagi sér kannski þannig. Þó að unglingurinn beri þess kannski ekki merki er hann sennilega vonsvikinn út í sjálfan sig og svekktur yfir því að hafa valdið þér vonbrigðum.

Þegar bein brotnar getur það endurheimt fyrri styrk eftir að það grær. Sama er að segja um traust sem bregst.

 Hverjum er um að kenna?

  •    Er það umhverfið? Í Biblíunni segir: „Vondur félagsskapur spillir góðum venjum.“ (1. Korintubréf 15:33) Vinir hafa sterk áhrif á unglinga. Og það er líka annað sem hefur sterk áhrif, eins og samfélagsmiðlar og markaðssetning. Auk þess hafa unglingar litla lífsreynslu svo það er ekki erfitt að skilja hvers vegna þeir taka stundum heimskulegar ákvarðanir. Þeir þurfa auðvitað að læra að axla ábyrgð á ákvörðunum sínum til að verða ábyrgir fullorðnir einstaklingar.

  •    Hvað hef ég gert? Þú gætir kannski velt fyrir þér hvort þú hafir verið of strangur og þannig valdið því að unglingurinn hagar sér illa. Eða þú gætir velt fyrir þér hvort þú hafið verið of undanlátsamur og gefið unglingnum þannig of mikið frelsi. Í stað þess að hugsa um hvernig þú gætir hafa átt þátt í vandamálinu skaltu hugsa um hvað þú getur gert núna til að leysa vandann.

 Hvernig get ég hjálpað unglingnum að byggja aftur upp traustið sem hann brást?

  •   Hafðu stjórn á því hvernig þú bregst við. Unglingurinn þinn býst eflaust við því að þú reiðist. Prófaðu að bregðast öðruvísi við. Ræddu í rólegheitum við unglinginn um hvers vegna hann gerði það sem hann gerði. Var hann forvitinn? Leiddist honum? Var hann einmanna og vantaði félagskap? Ekkert af þessu réttlætir það sem hann gerði en það getur hjálpað þér – og unglingnum – að skilja betur hvað varð til þess að hann gerði það sem hann gerði.

     Meginregla: „Hver og einn á að vera fljótur til að heyra, seinn til að tala og seinn til að reiðast.“ – Jakobsbréfið 1:19.

  •   Hjálpaðu unglingnum að velta fyrir sér því sem gerðist. Spyrðu spurninga eins og: Hvað lærðirðu af þessari reynslu? Hvað myndirðu gera öðruvísi næst þegar þú lendir í svipuðum aðstæðum? Spurningar sem þessar geta hjálpað þér að kenna unglingnum að hugsa rökrétt.

     Meginregla: „Áminntu, ávítaðu og hvettu með mikilli þolinmæði og góðri kennslu.“ – 2. Tímóteusarbréf 4:2.

  •   Kenndu honum að verkin hafa afleiðingar. Það er áhrifaríkast að láta afleiðingarnar tengjast því sem unglingurinn gerði af sér. Til dæmis ef hann brást trausti þínu með því að nota bílinn þinn í leyfisleysi gætu afleiðingarnar verið þær að hann fær takmörkuð not af bílnum í einhvern tíma.

     Meginregla: „Það sem maður sáir, það uppsker hann.“ – Galatabréfið 6:7.

  •   Leggðu áherslu á hvernig hann getur byggt upp traustið aftur. Það tekur auðvitað tíma en unglingurinn ætti samt að vita að með tímanum er hægt að byggja upp traust á ný. Hjálpaðu honum að sjá ljósið við enda ganganna ef svo má að orði komast. Ef unglingnum finnst hann aldrei geta byggt upp traustið aftur gæti hann gefist upp á að reyna.

     Meginregla: „Reitið ekki börn ykkar til reiði svo að þau missi ekki kjarkinn.“ – Kólossubréfið 3:21.

a Úr bókinni You and Your Adolescent.