Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | ÁNÆGJA OG GLEÐI Í STARFI

Breytt viðhorf til erfiðisvinnu

Breytt viðhorf til erfiðisvinnu

Axel andvarpar þegar hann setur enn einn kassann inn í sendibíl flutningafyrirtækisins sem hann vinnur hjá. „Af hverju er ég fastur í þessari ömurlegu vinnu?“ hugsar hann með sér. „Hvenær fer mér að ganga vel í lífinu? Allt væri svo miklu betra ef ég þyrfti ekki að vinna!“

Líkt og Axel í dæminu hér að ofan hafa margir nú á dögum ekki ánægju af að stunda vinnu sem útheimtir að þeir leggi hart að sér. „Mörgum finnst það vera fyrir neðan virðingu sína að vinna ,lítilfjörleg‘ störf,“ segir Aaron sem er bifvélavirki. „Þeir hafa gjarnan þetta viðhorf: ,Ég er bara að þessu þangað til eitthvað betra býðst.‘“

Hvers vegna finnst mörgum þess konar vinna ekki vera fyrir sig? Kannski hafa fjölmiðlar haft þessi áhrif á fólk því að þeir halda oft á lofti þeirri hugmynd að lífið eigi að snúast um þægindi og munað. „Fólk hugsar sem svo að ef maður þarf að vinna hörðum höndum til að framfleyta sér gengur manni ekkert sérlega vel í lífinu,“ segir Matthew en hann annast viðhald á húsum. Shane, sem er húsvörður, tekur í sama streng. Hann segir: „Nú orðið vill fólk fá full daglaun án þess að þurfa að vinna fullan vinnudag.“

Hins vegar segja margir, sem njóta velgengni, að þeir hafi í raun ánægju af að leggja hart að sér við vinnuna. „Ég hef mikla ánægju af því að vinna hörðum höndum, sérstaklega þegar ég hef sett mér verðug markmið,“ segir Daniel sem er 25 ára byggingaverkamaður. Andre, 23 ára, er á sömu skoðun. „Ég held að hamingja og gleði tengist vinnusemi,“ segir hann. „Lykillinn að langvarandi hamingju er ekki iðju- og athafnaleysi. Það er miklu frekar lykill að langvarandi leiða!“

Hvað hefur hjálpað Daniel og Andre að tileinka sér jákvætt viðhorf til vinnu? Þeir hafa einfaldlega farið eftir meginreglum Biblíunnar. Í Biblíunni erum við hvött til að hlífa okkur ekki við erfiðisvinnu heldur vera iðjusöm og dugleg. En Biblían gerir þó annað og meira en bara að segja okkur að vera vinnusöm. Hún segir okkur líka hvernig við getum haft ánægju af vinnu okkar.

Hvaða meginreglur Biblíunnar geta hjálpað þér að njóta gleði í starfi þínu? Við hvetjum þig til að kynna þér það í næstu grein.