Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farsælt fjölskyldulíf

Uppeldi og ögun barnanna

Uppeldi og ögun barnanna

John: * Áður en foreldrar mínir refsuðu mér fyrir eitthvað sem ég hafði gert af mér lögðu þeir sig einlæglega fram um að skilja af hverju ég hafði gert þetta og hverjar aðstæðurnar voru. Ég reyni að líkja eftir fordæmi þeirra í uppeldi dætra minna. Eiginkona mín Alison var alin upp á annan hátt. Foreldrar hennar voru hvatvísari. Þau virðast hafa skammað börnin án þess að hugsa um aðstæðurnar í hverju tilviki. Stundum finnst mér konan mín aga börnin okkar af þessari sömu hörku.

Carol: Faðir minn yfirgaf fjölskylduna þegar ég var aðeins fimm ára. Hann sýndi mér og systkinum mínum þremur engan áhuga. Móðir mín vann hörðum höndum til að sjá fyrir okkur. Ég þurfti því að axla mikla ábyrgð og sjá um yngri systur mínar. Það var erfitt að njóta þess að vera barn þegar ég þurfti að vera í hlutverki foreldris. Enn þann dag í dag er ég frekar alvörugefin. Þegar börnin mín þurfa að fá aga verð ég óróleg og velti mér upp úr mistökum þeirra. Ég vil vita nákvæmlega hvað gerðist og hvað þau voru að hugsa. Eiginmaðurinn minn, Mark, er allt öðruvísi. Hann gerir sér ekki of miklar áhyggjur af hlutunum. Hann var alinn upp af föður sem var ástríkur en ákveðinn og umhyggjusamur eiginmaður. Þegar Mark sinnir stelpunum okkar er hann fljótur að leysa vandamálin. Hann metur stöðuna, leiðréttir málin og snýr sér síðan að öðru.

EINS og ummæli Johns og Carol bera vitni um getur uppeldi manns haft mikil áhrif á það hvernig maður agar sín eigin börn. Ef hjón hafa mismunandi bakgrunn er líklegt að þau nálgist barnauppeldi á ólíkan hátt. Stundum getur þessi mismunur valdið spennu í hjónabandinu.

Spennan getur síðan magnast þegar foreldrar eru úrvinda af þreytu. Nýbakaðir foreldrar komast fljótt að því að barnauppeldi er krefjandi vinna sem tekur mikinn tíma og orku. Joan og Darren, eiginmaður hennar, hafa alið upp tvær dætur. Hún segir: „Ég elska stelpurnar mínar en þær vildu sjaldnast fara að sofa þegar þær áttu að gera það og vöknuðu oft á óhentugum tíma. Þær gripu fram í fyrir mér þegar ég talaði, skildu skóna sína, fötin og leikföngin eftir út um allt og settu smjörið aldrei inn í ísskáp.“

Eiginkona Jacks þjáðist af fæðingarþunglyndi eftir að þau eignuðust annað barnið sitt. Hann segir: „Oft kom ég úrvinda heim úr vinnunni og vakti síðan hálfa nóttina til að sinna nýfædda barninu. Þetta gerði að verkum að það var erfitt að veita eldri dóttur okkar stefnufastan aga. Og þar sem hún var ekki lengur ein um athygli okkar varð hún afbrýðisöm út í litlu systir sína.“

Þegar þreyttir foreldrar rífast um það hvernig eigi að ala upp barn geta smávægileg ágreiningsefni magnast upp í hörkurifrildi. Óútkljáð ágreiningsmál geta síðan orðið til þess að það myndist gjá milli hjónanna. Börnin geta notfært sér slíkar aðstæður til að hleypa foreldrunum upp á móti hvort öðru. Hvaða meginreglur Biblíunnar geta hjálpað hjónum að varðveita náið samband en jafnframt veita börnunum markvissan aga?

Takið frá tíma fyrir hvort annað

Til hjónabands ætti að stofna áður en börnin koma í heiminn og það ætti að vara áfram eftir að börnin fara að heiman. Í Biblíunni segir um hjónabandið: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matteus 19:6) Í versinu á undan kemur hins vegar fram að Guð ætlaðist til þess að börn myndu að lokum „yfirgefa föður og móður“. (Matteus 19:5) Uppeldi barnanna er því ákveðið tímabil í hjónabandinu en ekki grundvöllur þess. Að sjálfsögðu þurfa foreldrar að verja miklum tíma í uppeldi barnanna en þau ættu líka að muna að sterkt hjónaband er besti vettvangurinn til að gera það farsællega.

En hvernig geta hjón haldið sambandinu sterku á uppvaxtarárum barnanna? Takið reglulega frá tíma til að vera saman án barnanna ef það er á annað borð mögulegt. Það gefur ykkur tíma til að ræða mikilvæg fjölskyldumál og líka til að njóta félagsskapar hvort við annað. Óneitanlega getur verið erfitt fyrir hjón að finna tíma til að vera út af fyrir sig. Alison, móðirin sem vitnað var í áðan, segir: „Um leið og við hjónin höldum að við fáum smá tíma fyrir okkur hrópar sú yngsta á athygli eða sú eldri gengur í gegnum einhverja ‚krísu‘ eins og að finna ekki litina sína.“

Joan og Darren, sem nefnd voru fyrr í greininni, settu reglur um háttatíma dætranna og fylgdu þeim eftir til að fá tíma fyrir hvort annað. „Stelpurnar áttu alltaf að vera komnar í háttinn á ákveðnum tíma og tilbúnar til að fara að sofa áður en ljósin voru slökkt,“ segir Joan. „Þetta gaf okkur Darren tíma til að slaka á og tala saman.“

Með því að hafa háttatíma barnanna í föstum skorðum fá hjón ekki aðeins tíma fyrir sig heldur kenna þau börnunum líka að ‚hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber‘. (Rómverjabréfið 12:3) Börn, sem læra að virða reglur um háttatíma, gera sér að lokum grein fyrir því að þótt þau skipi mikilvægan sess í fjölskyldunni eru þau ekki miðdepillinn. Þau verða að laga sig að reglum fjölskyldunnar í stað þess að ætlast til reglurnar breytist eftir duttlungum þeirra.

PRÓFIÐ ÞETTA: Setjið reglur um háttatíma og fylgið þeim staðfastlega eftir. Ef barnið biður um eitthvað til þess að fá að vaka lengur, til dæmis vatnsglas, gætuð þið orðið við þessari einu bón. En ekki leyfa barninu að fresta háttatímanum endalaust með alls konar óskum. Ef barnið biður um að fá að vaka í fimm mínútur í viðbót og þið viljið verða við bóninni skulið þið stilla klukku þannig að hún hringi eftir fimm mínútur. Þegar klukkan hringir skulið þið láta barnið fara að sofa án frekari tilslakana. Látið ‚já yðar vera já og nei vera nei‘. — Matteus 5:37.

Sýnið að þið standið saman

Í einum orðskvið er að finna þessi viturlegu orð: „Hlýddu, sonur minn, á áminningar föður þíns og hafnaðu ekki viðvörun móður þinnar.“ (Orðskviðirnir 1:8) Í þessu versi kemur fram að bæði faðirinn og móðirin hafi rétt á að setja barninu reglur. En jafnvel þótt hjón hafi fengið svipað uppeldi geta þau verið ósammála um hvernig eigi að aga barnið og hvaða reglur fjölskyldunnar eigi við í hvert skipti. Hvernig geta foreldrar tekist á við þennan ágreining?

John, sem vitnað var í áðan, segir: „Mér finnst mikilvægt að við séum ekki ósammála fyrir framan börnin.“ En hann viðurkennir að það sé hægara sagt en gert. „Börn eru mjög athugul,“ segir hann. „Jafnvel þótt við segjum ekki upphátt að við séum ósammála getur dóttir okkar skynjað að við erum það.“

En hvernig takast John og Alison á við þennan vanda? Alison segir: „Ef ég er ósammála því hvernig maðurinn minn agar dóttur okkar bíð ég með að segja mína skoðun þangað til hún heyrir ekki til. Ég vil ekki að hún haldi að hún geti fengið sínu fram með því nýta sér það að við séum ósammála. Ef hún gerir sér grein fyrir að við erum ekki sammála segi ég henni að allir í fjölskyldunni verði að hlýða fyrirkomulagi Jehóva, að ég sé fús til að fylgja forystu föður hennar og á sama hátt eigi hún að hlýða okkur sem foreldrum.“ (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 6:1-3) John segir: „Þegar öll fjölskyldan er saman tek ég yfirleitt frumkvæðið að því að aga dætur okkar. En ef Alison þekkir aðstæðurnar betur leyfi ég henni að eiga frumkvæðið og síðan styð ég hana. Ef ég er ósammála henni að einhverju leyti ræðum við um það seinna.“

Hvernig geturðu komið í veg fyrir að ólíkar skoðanir um barnauppeldi valdi gremju milli þín og maka þíns og grafi þannig undan virðingu barnanna fyrir ykkur?

PRÓFIÐ ÞETTA: Takið frá tíma í hverri viku til að tala um uppeldi barnanna. Verið opinská og ræðið um það sem þið eruð ósammála um. Reyndu að skilja sjónarmið maka þíns og virtu þá staðreynd hann hefur sitt persónulega samband við barnið.

Látið foreldrahlutverkið styrkja samband ykkar

Barnauppeldi er án efa erfitt starf. Stundum finnst ykkur það kannski taka alla ykkar orku. En fyrr eða síðar fara börnin að heiman og þá mun þér og maka þínum líða aftur eins og hjónum. Mun samband ykkar styrkjast eða veikjast við það að ala upp börn saman? Svarið fer eftir því hversu vel þið fylgið meginreglunni í Prédikaranum 4:9, 10: „Betri eru tveir en einn því að þeir hafa betri laun fyrir strit sitt. Falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur.“

Þegar hjón vinna saman sem félagar getur árangurinn verið mjög ánægjulegur. Carol, sem nefnd var í byrjun, segir um reynslu sína: „Ég vissi að maðurinn minn byggi yfir mörgum kostum en ég kynntist alveg nýrri hlið á honum þegar við ólum börnin upp saman. Ást mín og virðing hefur dýpkað við það að sjá hann annast dætur okkar af mikilli alúð.“ Og John segir um Alison: „Þegar ég sé hversu umhyggjusöm móðir hún er dýpkar það ást mína og aðdáun á henni.“

Ef þið takið frá tíma fyrir hvort annað og vinnið saman sem heild við uppeldi barnanna mun hjónabandið styrkjast eftir því sem börnin eldast. Betra fordæmi er ekki hægt að gefa börnunum.

^ gr. 3 Nöfnum hefur verið breytt.

SPYRÐU ÞIG . . .

  • Hversu miklum tíma ver ég með maka mínum í hverri viku án barnanna?

  • Hvernig styð ég maka minn þegar hann agar börnin?