Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Fyrst Kingsley getur það get ég það líka“

„Fyrst Kingsley getur það get ég það líka“

EFTIR að hafa fengið klapp á öxlina byrjar Kingsley biblíulesturinn. Þetta er fyrsta verkefni hans í Boðunarskólanum. Hann les hvert orð vandlega og missir ekki úr eitt einasta atkvæði. En bíðum nú við. Af hverju lítur hann ekki í Biblíuna?

Kingsley bjó á Srí Lanka og var blindur. Hann var líka heyrnarskertur og háður hjólastól til að komast leiðar sinnar. Hvernig kynntist hann Jehóva og hvernig gat hann orðið nemandi í Boðunarskólanum? Ég skal segja frá því.

Þegar ég hitti Kingsley í fyrsta sinn var ég hissa hve hann þyrsti í sannleika Biblíunnar. Nokkrir bræður höfðu þegar verið með hann í biblíunámi. Hann átti bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs á blindraletri og hún var orðin frekar snjáð. * Ég bauð honum að hefja biblíunám að nýju og hann þáði það. En það var við tvenns konar vanda að glíma.

Í fyrsta lagi bjó Kingsley ásamt mörgum öðrum á heimili fyrir aldraða og fatlaða. Þar sem staðurinn var ekki beinlínis hljóðlátur og Kingsley heyrnarskertur þurfti ég að tala mjög hátt. Reyndar heyrðu allir á heimilinu það sem við ræddum í vikulegu biblíunámi okkar.

Í öðru lagi gat Kingsley aðeins lesið og skilið lítið eitt af nýjum upplýsingum í hverri námsstund. Hann undirbjó sig vel og vandlega til að nýta námsstundirnar betur. Hann las yfir efnið oftar en einu sinni, fletti upp ritningarstöðunum í blindraletursbiblíunni sinni og íhugaði hvernig hann myndi svara spurningunum. Þessi aðferð reyndist mjög vel. Í námsstundinni sat hann yfirleitt á mottu með krosslagða fætur og bankaði fingrunum spenntur í gólfið meðan hann útskýrði háum rómi það sem hann hafði lært. Það leið ekki á löngu áður en við fórum að hittast tvisvar í viku og tvo tíma í senn.

HANN SÓTTI SAMKOMUR OG TÓK ÞÁTT Í ÞEIM

Kingsley og Paul.

Kingsley vildi gjarnan sækja samkomur en það var ekki auðvelt. Hann þurfti hjálp til að komast í og úr hjólastólnum, og hið sama var að segja um bílinn og ríkissalinn. En margir í söfnuðinum skiptust á að hjálpa honum og fannst það vera heiður að fá að gera það. Á samkomunum var Kingsley með hátalara alveg við eyrað. Hann hlustaði af athygli og tók þátt í umræðunum.

Eftir að hafa stundað biblíunám um nokkurt skeið ákvað Kingsley að skrá sig í Boðunarskólann. Tveim vikum áður en hann átti að lesa biblíulestur í fyrsta sinn í ríkissalnum spurði ég hvort hann hefði æft sig. Hann svaraði: „Já, bróðir, ég hef lesið efnið svona 30 sinnum.“ Ég hrósaði honum fyrir dugnaðinn og bað um að fá að heyra hann lesa. Hann opnaði Biblíuna, snerti textann með fingrunum og hóf lesturinn. En ég tók eftir að hann renndi ekki fingrunum yfir síðuna eins og venjulega. Hann hafði lagt allan textann á minnið!

Með tárin í augunum horfði ég vantrúaður á Kingsley. Ég spurði hann hvernig hann gæti kunnað textann utan að eftir að hafa æft sig bara 30 sinnum. Hann svaraði: „Nei, ég hef lesið hann svona 30 sinnum á dag.“ Í meira en mánuð hafði Kingsley setið á mottunni sinni og lesið textann aftur og aftur þangað til hann kunni hann utan að.

Að lokum rann upp dagurinn sem Kingsley átti að lesa í ríkissalnum. Þegar hann var búinn klöppuðu allir ákaft og margir grétu þegar þeir sáu hve einbeittur þessi nýi nemandi var. Systir ein var svo taugaóstyrk að hún hafði hætt að taka að sér verkefni í skólanum en núna skráði hún sig aftur í hann. Hvers vegna? „Fyrst Kingsley getur það get ég það líka,“ sagði hún.

Kingsley lét skírast til tákns um að hann hefði vígst Jehóva 6. september 2008, eftir þriggja ára biblíunám. Hann var dyggur þjónn Jehóva til dauðadags, hinn 13. maí 2014. Hann var sannfærður um að hann gæti haldið áfram að þjóna Jehóva við fullkomna heilsu í paradís framtíðar. (Jes. 35:5, 6) – Eftir Paul McManus.

^ Bókin kom út árið 1995 en er ekki lengur fáanleg.