Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar makinn horfir á klám

Þegar makinn horfir á klám
  • „Mér leið eins og eiginmaður minn hefði framið hjúskaparbrot aftur og aftur.“

  • „Ég var niðurlægð og mér fannst ég óaðlaðandi og einskis virði.“

  • „Ég gat ekki talað við neinn um þetta. Ég þjáðist ein með sjálfri mér.“

  • „Mér leið eins og Jehóva stæði á sama um mig.“

Orð þessara kvenna lýsa því hversu illa eiginkonu getur liðið ef hún á eiginmann sem horfir á klám. Og ef hann hefur gert það í leyni, kannski mánuðum eða árum saman, finnst henni kannski að hún geti ekki treyst honum lengur. Eins og ein kona sagði: „Ég velti því fyrir mér hver maðurinn minn væri eiginlega. Hélt hann fleiru leyndu fyrir mér?“

Þessi grein er skrifuð fyrir eiginkonu sem á eiginmann sem horfir á klám. a Fjallað verður um meginreglur í Biblíunni sem veita huggun, fullvissa hana um stuðning Jehóva og hjálpa henni til að endurheimta tilfinningalegan og andlegan styrk. b

HVAÐ GETUR SAKLAUSI MAKINN GERT?

Þú getur ekki stjórnað öllu sem eiginmaður þinn gerir en þú getur gert ýmislegt sem dregur úr vanlíðan þinni og veitir þér meiri hugarfrið.

Forðastu að ásaka sjálfa þig. Eiginkonu gæti fundist það vera henni að kenna ef maðurinn hennar horfir á klám. Alice c fannst að hún væri ekki nógu góð fyrir eiginmann sinn. Hún hugsaði: „Hvers vegna kýs maðurinn minn að horfa á aðrar konur frekar en mig?“ Sumar eiginkonur ásaka sig og álíta að þær geri illt verra með viðbrögðum sínum. Danielle segir: „Ég leit á sjálfa mig sem bitra konu sem eyðilegði hjónaband okkar með óbiblíulegri reiði.“

Ef þú hefur svipaðar tilfinningar máttu vita að Jehóva lítur ekki á þig sem ábyrga fyrir hegðun eiginmanns þíns. Í Jakobsbréfinu 1:14 segir: „Það er girnd hvers og eins sem reynir hann með því að lokka hann og tæla.“ (Rómv. 14:12; Fil. 2:12) Jehóva kennir þér ekki um heldur metur hann mikils hollustu þína. (2. Kron. 16:9)

Það er líka gott að vita að klámáhorf eiginmanns er ekki merki um að eiginkonan sé ekki nógu góð. Sérfræðingar á þessu sviði benda á að klám veki kynferðislegar langanir sem engin kona geti uppfyllt.

Forðastu of miklar áhyggjur. Catherine segir að klámáhorf eiginmanns síns hafi heltekið sig. Frances segir: „Ég verð stressuð þegar ég veit ekki hvar maðurinn minn er. Ég er ein taugahrúga.“ Aðrar eiginkonur segjast hafa verið vandræðalegar í návist trúsystkina sem gætu vitað af vandamáli eiginmanns þeirra. Enn öðrum hefur fundist þær einmana vegna þess að þeim finnst enginn skilja aðstæður þeirra.

Þetta eru eðlilegar tilfinningar. En kvíðinn eykst ef þú lætur hugann dvelja við þær. Reyndu frekar að einbeita þér að sambandi þínu við Jehóva. Það hjálpar þér að byggja upp innri styrk. – Sálm. 62:2; Ef. 6:10.

Þér gæti fundist gagnlegt að lesa og hugleiða frásögur af konum sem voru þjakaðar en fengu huggum þegar þær leituðu til Jehóva í bæn. Hann fjarlægði ekki alltaf vandamálin en hann veitti þeim innri ró. Hanna var til dæmis í „miklu uppnámi“. En eftir að hún hafði ‚beðið lengi til Jehóva‘ fékk hún hugarfrið, jafnvel þótt hún vissi ekki hvort aðstæður hennar myndu breytast. – 1. Sam. 1:10, 12, 18; 2. Kor. 1:3, 4.

Bæði hjónin gætu þurft að leita hjálpar öldunganna.

Leitaðu stuðnings öldunganna. Þeir geta verið eins og „skjól fyrir vindi og athvarf í slagviðri“. (Jes. 32:2, neðanmáls) Þeir gætu hugsanlega bent þér á systur sem þú gætir treyst fyrir tilfinningum þínum og gæti hughreyst þig. – Orðskv. 17:17.

GETURÐU HJÁLPAÐ HONUM?

Getur verið að þú gætir hjálpað manninum þínum að sigrast á þeim ávana að horfa á klám? Kannski. Biblían segir að þegar leysa þarf vandamál eða berjast gegn öflugum óvini séu ‚tveir betri en einn‘. (Préd. 4:9–12) Rannsóknir sýna að þegar hjón vinna saman getur eiginmaðurinn oft sigrast á klámfíkn og eiginkonan lært að treysta honum aftur.

Það fer auðvitað að miklu leyti eftir því hvort maki þinn er einlægur og ákveðinn í að hætta að horfa á klám. Hefur hann beðið innilega til Jehóva um styrk og leitað hjálpar öldunganna? (2. Kor. 4:7; Jak. 5:14, 15) Hefur hann gert ráðstafanir til að forðast freistingar, til dæmis með því að setja sér hömlur varðandi notkun raftækja og forðast aðstæður þar sem freistingin getur verið mikil? (Orðskv. 27:12) Er hann tilbúinn að þiggja hjálp þína og vera algerlega heiðarlegur við þig? Ef svo er má vera að þú getir hjálpað honum.

Hvernig geturðu hjálpað? Skoðum reynslu Feliciu. Hún giftist Ethan en hann ánetjaðist klámi þegar hann var barn. Felicia gerir honum auðvelt fyrir að tala við sig þegar hann ítrekað fær sterka löngun til að horfa á klám. Ethan segir: „Ég tala opinskátt við konuna mína. Hún hjálpar mér að forðast freistingar og spyr reglulega hvernig mér gangi. Og hún hjálpar mér að takmarka aðgengi að netinu.“ Það særir auðvitað Feliciu að Ethan skuli hneigjast til klámáhorfs. „En,“ segir hún, „reiði mín og sársauki hjálpar honum ekki að halda sér frá þessum hræðilega ávana. Eftir að við höfum rætt vandamál hans er hann tilbúinn að hjálpa mér að lina sársauka minn.“

Slíkar umræður geta hjálpað eiginmanni að halda sig frá klámi og eiginkonunni að treysta honum á ný. Þegar eiginmaður segir heiðarlega frá veikleika sínum, hvert hann sé að fara og hvað hann sé að gera hverfur leyndin og það verður auðveldara fyrir konuna að treysta honum.

Heldurðu að þú gætir hjálpað eiginmanni þínum á svipaðan hátt? Þá gætuð þið kannski lesið og rætt þessa grein saman. Markmið hans yrði að hætta að horfa á klám og gefa þér ástæðu til að treysta sér aftur. Hann ætti að reyna að skilja hvernig vandamál hans snertir þig frekar en að láta sér gremjast að þú skulir vilja ræða það. Markmið þitt yrði að styðja hann í baráttu hans og gefa honum tækifæri til að ávinna sér traust þitt á ný. Þið þurfið bæði að skilja hvað veldur því að sumir láti undan löngun til að horfa á klám og hvernig hægt sé að sigrast á henni. d

Ef þú óttast að hiti færist í umræðurnar gætirðu spurt öldung sem ykkur líður báðum vel með að sitja með ykkur meðan þið talið saman. Hafðu í huga að það gæti tekið talsverðan tíma að byggja upp traust á ný þótt maki þinn hafi sigrast á klámfíkninni. Ekki gefast upp. Taktu eftir litlum vísbendingum um framför í sambandi ykkar. Varðveittu þá von að með tíð og tíma verði hjónaband ykkar sterkt aftur. – Préd. 7:8; 1. Kor. 13:4.

HVAÐ EF HANN HÆTTIR EKKI?

Þýðir það að eiginmaður þinn sé iðrunarlaus og óforbetranlegur ef hann fær bakslag? Ekki endilega. Ef hann hefur verið háður klámi má vera að hann þurfi að berjast gegn fíkninni alla ævi. Hann gæti jafnvel fengið bakslag eftir að hafa verið laus við klámáhorf í mörg ár. Til að forðast afturkipp þarf hann að setja upp enn sterkari varnir og mögulega halda vissum hömlum, jafnvel eftir að vandamálið virðist vera leyst. (Orðskv. 28:14; Matt. 5:29; 1. Kor. 10:12) Hann þarf að „endurnýja hugsunarhátt“ sinn og læra að ‚hata það sem er illt‘ – klám og óhreinar venjur sem geta tengst því, eins og til dæmis sjálfsfróun. (Ef. 4:23; Sálm. 97:10; Rómv. 12:9) Er hann fús til að gera þetta? Ef svo er má vera að hann nái að losa sig algerlega við þennan ávana. e

Einbeittu þér að sambandi þínu við Jehóva.

En hvað ef maki þinn hefur engan áhuga á að sigrast á þessum vanda? Þá gætirðu skiljanlega oft verið vonsvikin, reið og þér gæti fundist þú svikin. Varpaðu áhyggjum þínum á Jehóva. Hann getur veitt þér hugarró. (1. Pét. 5:7) Nálgastu hann með því að stunda sjálfsnám, hugleiða það sem þú lærir og biðja reglulega til hans. Þegar þú gerir það mun hann nálgast þig á móti. Jesaja 57:15 sýnir að hann býr hjá þeim sem eru „niðurbrotnir og auðmjúkir“ til að hjálpa þeim að taka gleði sína á ný. Reyndu þitt besta til að vera góður þjónn Jehóva. Leitaðu stuðnings öldunganna. Og varðveittu vonina um að maki þinn geti einhvern tíma breytt sér. – Rómv. 2:4; 2. Pét. 3:9.

a Til einföldunar tölum við í greininni um þann sem horfir á klám sem eiginmann. En margar meginreglur sem er rætt um koma eiginmanni líka að gagni ef hann á eiginkonu sem horfir á klám.

b Að horfa á klám er ekki biblíulegur grundvöllur fyrir lögskilnaði. – Matt. 19:9.

c Nöfnum hefur verið breytt.

d Finna má gagnlegar upplýsingar á jw.org og í ritum okkar. Sjá til dæmis greinina „Klám getur eyðilagt hjónaband þitt“ á jw.org, greinina „Þú getur staðist freistingar“ í Varðturninum 1. júlí 2014, bls. 10–12 og „Klám – skaðlaus skemmtun eða banvænt eitur?“ í grein úr Varðturninum á jw.org.

e Þar sem klám er vanabindandi hafa sum hjón ákveðið að leita til sérfræðinga auk þess að leita hjálpar öldunganna.