Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við fræðumst um Guð af spámönnum hans

Við fræðumst um Guð af spámönnum hans

Áður fyrr gaf Guð mannkyninu mikilvæg skilaboð fyrir milligöngu spámanna sinna. Getur sá boðskapur sýnt okkur hvernig við fáum blessun Guðs? Já, hann getur það. Skoðum nú hvað við getum lært af þrem trúföstum spámönnum.

ABRAHAM

Guð mismunar ekki fólki og hann vill veita öllum blessun sína.

Guð lofaði spámanninum Abraham: „Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun hljóta.“ – 1. Mósebók 12:3.

Hvað lærum við? Guð elskar okkur innilega og hann vill veita öllum fjölskyldum sem hlýða honum blessun sína – körlum, konum og börnum.

MÓSE

Guð er miskunnsamur og blessar þá sem leggja sig fram um að kynnast honum.

Hinn almáttugi gaf spámanninum Móse kraft til að vinna mikil kraftaverk. Samt bað Móse: „Skýrðu mér ... frá vegum þínum svo að ég megi þekkja þig og hljóta náð fyrir augum þínum.“ (2. Mósebók 33:13) Guð hafði velþóknun á bæn Móse og blessaði hann með því að gefa honum þekkingu og skilning á eiginleikum sínum og vegum. Til dæmis kynntist Móse því af eigin raun að skaparinn er „miskunnsamur og náðugur Guð“. – 2. Mósebók 34:6, 7.

Hvað lærum við? Guð vill blessa okkur öll – karla, konur og börn – ef við leggjum okkur fram um að kynnast honum betur. Hann segir okkur í Ritningunni hvernig við eigum að tilbiðja hann og að hann sé fús til að sýna okkur velvild og blessa okkur.

JESÚS

Jesús sýndi fólki samúð og læknaði alls konar veikindi.

Við getum notið eilífrar blessunar frá Guði ef við kynnumst Jesú og því sem hann gerði og kenndi.

Orð Guðs kennir okkur margt um líf Jesú og kennslu hans. Guð gaf Jesú kraft til að vinna mörg stórkostleg kraftaverk eins og að lækna blinda, heyrnarlausa og lamaða. Jesús reisti jafnvel látna til lífs aftur. Þannig sýndi Jesús hvernig Guð á eftir að blessa allt mannkynið í framtíðinni. Og hann sagði hvernig við getum hvert og eitt okkar fengið að njóta þessarar blessunar: „Til að hljóta eilíft líf þurfa þeir að kynnast þér, hinum eina sanna Guði, og þeim sem þú sendir, Jesú Kristi.“ – Jóhannes 17:3.

Jesús var samúðarfullur, blíður og góður. Karlar og konur á öllum aldri flykktust að honum vegna þess að hann gaf þetta hlýlega boð: „Lærið af mér því að ég er ljúfur í lund og lítillátur í hjarta, og þá endurnærist þið.“ (Matteus 11:29) Margir á dögum Jesú fóru illa með konur en hann kom vel fram við þær og sýndi þeim virðingu og skilning.

Hvað lærum við? Jesús bar djúpan kærleika til fólks og var okkur einstök fyrirmynd um hvernig við eigum að koma fram hvert við annað.

JESÚS ER EKKI GUÐ

Ritningin kennir að ,við höfum aðeins einn Guð‘ og að Jesús Kristur hafi verið auðmjúkur sendiboði hans. (1. Korintubréf 8:6) Jesús sagði skýrt að Guð væri sér æðri og að hann hefði sent sig til jarðarinnar. – Jóhannes 11:41, 42; 14:28. *

^ gr. 17 Hægt er að fræðast meira um Jesú Krist í 4. hluta bæklingsins Gleðifréttir frá Guði. Bæklingurinn er fáanlegur á www.pr418.com.