Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

4. LÆRDÓMUR

Kenndu barninu að bera ábyrgð

Kenndu barninu að bera ábyrgð

HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR AÐ VERA ÁBYRGUR?

Það er hægt að treysta á fólk sem er ábyrgt. Það sinnir verkefnum sínum og klárar þau á réttum tíma.

Þrátt fyrir takmarkaðan þroska geta börn lært frá unga aldri að bera ábyrgð. Í bókinni Parenting Without Borders segir: „Börn frá 15 mánaða aldri geta gert það sem foreldrarnir biðja þau um. Þegar þau ná 18 mánaða aldri fer þau að langa til að gera það sem foreldrarnir gera.“ Þar segir einnig: „Í ýmsum löndum eru foreldrar byrjaðir að kenna börnum sínum hvernig þau geti hjálpað til á heimilinu þegar þau eru fimm til sjö ára. Þrátt fyrir ungan aldur eru þau fær um að leggja sitt að mörkum.“

HVERS VEGNA ER MIKILVÆGT AÐ BERA ÁBYRGÐ?

Stundum lendir ungt fólk í fjárhagserfiðleikum eftir að það er farið að heiman og þarf að flytja aftur heim til foreldra sinna. Í sumum tilfellum er það vegna þess að þeim hefur ekki verið kennt að fara vel með peninga, reka heimili eða standa undir ábyrgð daglegs lífs.

Það er því best að kenna börnunum snemma að bera ábyrgð. Í bókinni How to Raise an Adult segir: „Það er ekki gott að börnin séu algerlega háð foreldrum sínum þar til þau ná 18 ára aldri og eigi þá allt í einu að takast á við lífið upp á eigin spýtur.“

HVERNIG ER HÆGT AÐ KENNA BARNINU AÐ BERA ÁBYRGÐ?

Gefðu barninu verkefni á heimilinu.

MEGINREGLA: „Allt erfiði færir ágóða.“ – Orðskviðirnir 14:23.

Ungum börnum finnst gaman að hjálpa mömmu og pabba með það sem þau gera. Því ekki að nýta það með því að gefa barninu verkefni á heimilinu?

Sumir foreldrar eru tregir til þess. Þeir hugsa með sér að börnin séu með það mikla heimavinnu frá skólanum á hverjum degi að ekki sé hægt að leggja meira á þau.

Börn sem sinna heimilisverkum eru þó mun líklegri til að standa sig vel í skólanum af því að þannig læra þau að sinna verkefnum sem þeim eru falin og klára þau. „Þegar við nýtum ekki löngun barnanna til að vinna með okkur fá þau þá hugmynd að þeirra framlag skipti engu máli,“ segir í bókinni Parenting Without Borders. „Þau fara líka að ætlast til þess að allt sé gert fyrir þau.“

Af þessu má sjá að þegar börnum er treyst fyrir verkefnum fá þau þjálfun í að vera þátttakendur frekar en bara þiggjendur. Börn sem taka þátt í heimilisstörfum finna að þau eru mikils metin af fjölskyldunni og þau finna líka til ábyrgðar.

Kenndu barninu að taka ábyrgð á eigin mistökum.

MEGINREGLA: „Hlýddu ráðum og taktu umvöndun svo að þú verðir vitur að lokum.“ – Orðskviðirnir 19:20.

Þegar börnunum verður eitthvað á – til dæmis ef þau skemma eigur annarra óvart – skaltu ekki reyna að hylma yfir það. Börn geta tekið afleiðingum gerða sinna, eins og að biðjast afsökunar og jafnvel bæta fyrir skaðann.

Að viðurkenna mistök sín hjálpar börnum að ...

  • vera heiðarleg.

  • kenna ekki öðrum um.

  • koma ekki með afsakanir.

  • biðjast afsökunar.