Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að hjálpa veikum ástvini

Að hjálpa veikum ástvini

„Þegar verið var að útskrifa pabba af spítalanum báðum við lækninn um að fara yfir niðurstöður blóðrannsóknar sem gerð hafði verið. Læknirinn fullvissaði okkur um að allt væri í lagi en hann var svo vænn að líta yfir þær aftur. Sér til undrunar sá hann að tvær niðurstöður voru of háar. Hann baðst afsökunar og kallaði til sérfræðing. Pabba líður vel núna. En við erum fegin að hafa að spurt lækninn spurninga.“ – Maribel.

Skrifið niður sjúkdómseinkenni og lyf til að undirbúa ykkur fyrir læknisheimsóknina.

Það getur reynt mjög á að fara til læknis og leggjast inn á spítala. Reynsla Maribel sýnir að sú hjálp, sem vinir og ættingjar geta veitt, er ekki aðeins gagnleg heldur getur jafnvel bjargað lífi. Hvernig getur þú hjálpað ástvinum þínum?

Fyrir heimsóknina. Aðstoðaðu ástvin þinn við að skrifa niður sjúkdómseinkenni sín og sömuleiðis öll lyf og bætiefni sem hann tekur inn. Skrifaðu niður þær upplýsingar sem læknirinn þarf að vita. Hjálpaðu ástvini þínum að muna eftir öllum kvillum sem hrjá hann og hvort einhver annar í fjölskyldunni hafi greinst með sama sjúkdóm. Gerðu ekki ráð fyrir að læknirinn hafi allar þessar upplýsingar eða falist eftir þeim.

Hlustaðu með athygli, spyrðu spurninga og skrifaðu minnispunkta.

Heimsóknin. Það er mikilvægt að þú og ástvinur þinn skiljið það sem læknirinn talar um. Spyrðu spurninga en dragðu ekki ályktanir of fljótt. Gefðu ástvini þínum líka færi á að spyrja spurninga og tala sjálfur við lækninn. Hlustaðu með athygli og skrifaðu minnispunkta. Spyrðu hvaða meðferðarúrræði séu í boði. Stundum er hyggilegt að hvetja ástvin sinn til að fá álit hjá öðrum lækni.

Lesið aftur yfir lyfseðilinn og leiðbeiningar læknisins.

Eftir heimsóknina. Ræðið saman og rifjið upp það sem kom fram í heimsókninni. Athugaðu hvort ástvinur þinn hafi fengið réttu lyfin. Þú skalt hvetja hann til að taka inn lyfin í samræmi við leiðbeiningar og láta lækninn strax vita af alvarlegum aukaverkunum. Hvettu ástvin þinn til að vera jákvæður og fylgja öllum leiðbeiningum sem hann fær eins og til dæmis að fara í áframhaldandi meðferð. Hjálpaðu honum að afla sér þekkingar á sjúkdómnum.

Á spítalanum

Gakktu úr skugga um að allir pappírar séu rétt útfylltir.

Vertu yfirvegaður og athugull. Sá sem þarf að leggjast inn á spítala getur fundið til vanmáttarkenndar og kvíða. Með því að vera yfirvegaður og eftirtektarsamur geturðu haft róandi áhrif á fólk í kringum þig og það getur minnkað líkurnar á að því verði á mistök. Athugaðu hvort innritunarskjöl séu fyllt út rétt. Virtu rétt ástvinar þíns til að taka upplýsta ákvörðun um læknismeðferð. Ef hann er of veikur til þess skaltu virða skráðar óskir hans og þeirra sem tala í umboði hans eins og nánustu ættingja eða annarra fulltrúa hans. *

Þegar þú kemur með ábendingar skaltu gera það af virðingu.

Taktu frumkvæðið. Vertu ekki feiminn við að tjá þig. Vertu kurteis og snyrtilegur til fara. Það getur hvatt læknateymið til að sýna sjúklingnum meiri áhuga og jafnvel stuðlað að því að hann fái betri aðhlynningu. Á sumum sjúkrahúsum sjá fleiri en einn læknir um sama sjúklinginn. Að hafa góð samskipti við læknana getur verið gagnlegt. Þú getur til dæmis sagt þeim frá því sem hinir í læknateyminu hafa sagt um sjúklinginn. Og þar sem þú þekkir sjúklinginn geturðu bent á breytingar sem verða á líkamlegu eða andlegu ástandi hans.

Vertu reiðubúinn að hjálpa án þess þó að vera fyrir.

Sýndu virðingu og þakklæti. Oft eru starfsmenn sjúkrahúsa undir miklu álagi. Komdu fram við þá eins og þú vilt að komið sé fram við þig. (Matteus 7:12) Berðu virðingu fyrir menntun þeirra og reynslu, vantreystu þeim ekki og sýndu að þú kunnir að meta þjónustu þeirra. Það getur hvatt þá til að leggja sig enn betur fram.

Enginn getur komist algjörlega hjá því að verða veikur. En með góðum undirbúningi og stuðningi getur þú hjálpað veikum vini eða ættingja að gera það besta úr aðstæðum sínum. – Orðskviðirnir 17:17.

^ gr. 8 Lög um réttindi og skyldur sjúklinga eru breytileg frá einum stað til annars. Sjáðu til þess að skjöl sjúklingsins, sem hafa að geyma upplýsingar um óskir hans um læknismeðferð, séu nýleg og rétt útfyllt.