Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Útbruni – hvað er til ráða?

Útbruni – hvað er til ráða?

ANIL var yfirkominn af þreytu. Hann hafði skipt um vinnu til að fá betri laun og hækka í áliti. En nú þurfti hann að vinna langt fram á kvöld og líka um helgar, stundum allt að 80 klukkustundir á viku. Hann segir: „Á vinnustaðnum var ekkert skipulag og öll ábyrgðin lenti á mér. Ég hugsaði með mér: ,Hvað er ég búinn að koma mér í? Ég á eftir að drepa mig á vinnunni ef ég geri ekki eitthvað í málinu.‘“ Anil var á hraðri leið með að brenna út.

Kulnun í starfi er annað og meira en venjuleg þreyta eða vinnustreita. Sá sem brennur út er sífellt örmagna og finnur til reiði og vanmáttarkenndar. Honum hættir til að verða sama um vinnuna sína, missa áhugann og verða afkastalítill. Rannsóknir tengja útbruna þar að auki við ýmsa tilfinningalega og líkamlega kvilla.

Hvað veldur útbruna? Of mikið vinnuálag á oft hlut að máli. Vegna efnahagserfiðleika krefjast vinnuveitendur stundum lengri vinnutíma af starfsmönnum sínum, jafnvel fyrir lægri laun. Tæknin gerir sumum kleift að vera stöðugt tengdir vinnunni og skilin milli vinnu og frítíma verða óljós. Sumir eru hræddir um að missa vinnuna, þeim finnst þeir ráða litlu um hana eða ekki njóta sanngirni á vinnustaðnum. Það getur ýtt undir kulnun í starfi. Það sama er að segja um óljósa forgangsröð verkefna eða ágreining milli vinnufélaga.

Útbruni getur líka verið sjálfskaparvíti. Sumir taka á sig sífellt meiri vinnu í leit að starfsframa og til að þéna meira. Þeir gætu gengið í þá gildru að skuldbinda sig um of og þá er stutt í að þeir brenni út.

Hvað er til ráða ef þú ert að brenna út? Þú sérð kannski enga möguleika á að bæta ástandið ef þér finnst þú fastur í aðstæðum sem þú ræður engu um. Skoðaðu samt eftirfarandi fjögur ráð við útbruna. Þú átt kannski fleiri úrræði en þú gerir þér grein fyrir.

1. HAFÐU SKÝRA FORGANGSRÖÐ.

Hvað skiptir þig mestu máli? Margir myndu væntanlega setja fjölskylduna og heilsuna ofarlega á listann. Ef þú brennur út bitnar það eflaust á þessu tvennu.

Með því að hafa skýra forgangsröð ertu undir það búinn að taka erfiðar ákvarðanir og gera málamiðlanir. Þú skynjar kannski að þú sért að brenna út í vinnunni en finnst þú hvorki geta skipt um vinnu eða unnið minna því að þú þarft á tekjunum að halda. En þó að allir þurfi einhverjar tekjur má spyrja sig hve miklar tekjur séu nauðsynlegar og að hvaða marki vinnan bitni á því sem maður metur mest.

Láttu ekki aðra hafa of mikil áhrif á hvernig þú forgangsraðar í lífinu. Forgangsröð vinnuveitanda þíns er líklega ekki sú sama og þín. Þú þarft ekki að setja vinnuna í fyrsta sæti þó að þú sjáir aðra gera það.

MEGINREGLA: „ENGINN ÞIGGUR LÍF AF EIGUM SÍNUM ÞÓTT AUÐUGUR SÉ.“ – LÚKAS 12:15.

2. EINFALDAÐU LÍF ÞITT.

Til að minnka álagið og fá meiri tíma fyrir það sem þú metur mest gætirðu kannski minnkað vinnuna, beðið vinnuveitanda þinn um að gera minni kröfur til þín eða skipt um vinnu ef þú telur það nauðsynlegt. Hvað sem þú ákveður að gera þarftu eflaust að breyta lífsstílnum og gæta þess að eyða ekki um efni fram. Það er hægt og kannski auðveldara en þú heldur.

Neysluþjóðfélög víða um heim telja fólki trú um að hamingjan sé háð tekjum þess og eignum. En það er ekki rétt. Einfaldari lífsstíll getur gert lífið ánægjulegra og veitt meira frelsi. Minnkaðu útgjöldin og sparaðu peninga til að auðvelda þér að fara út í slíkar breytingar. Reyndu að borga upp skuldir eða saxa á þær. Ræddu við fjölskylduna um hverju þið þurfið að breyta og fáðu hana til að vinna með þér.

MEGINREGLA: „EF VIÐ HÖFUM FÆÐI OG KLÆÐI ÞÁ LÁTUM OKKUR ÞAÐ NÆGJA.“ – 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 6:8.

3. LÆRÐU AÐ SEGJA NEI VIÐ VERKEFNUM.

Ef þú ert undir óhóflegu álagi eða viðvarandi vandamál í vinnunni gerir þér erfitt fyrir skaltu ræða málið við yfirmann þinn. Þegar mögulegt er skaltu reyna að koma með lausnir sem henta bæði þér og vinnuveitandanum. Fullvissaðu hann um að þú gerir þitt besta í vinnunni og útskýrðu fyrir honum hvað þú sért reiðubúinn að gera. Láttu hann jafnframt vita skýrt og greinilega hvað þú getur ekki gert.

Sýndu fyrirhyggju og vertu raunsær. Ef þú vilt minnka við þig vinnuna ætlast vinnuveitandinn væntanlega til að þú sættir þig við lægri kjör. Vertu viðbúinn að geta misst vinnuna og tilbúinn að bregðast við því. Mundu að þú átt meiri möguleika á að finna aðra vinnu meðan þú ert enn í starfi.

Þó að þú hafir komist að samkomulagi við yfirmann þinn um vinnutíma máttu gera ráð fyrir að hann reyni aftur að fá þig til að taka að þér meiri vinnu. Hvað getur hjálpað þér að láta ekki undan? Að standa við það sem þú hefur lofað. Þá ertu í betri aðstöðu til að ætlast til þess sama af vinnuveitandanum og þú getur vænst þess að hann ætlist ekki til meira af þér en um var samið.

MEGINREGLA: „ÞEGAR ÞÉR TALIÐ SÉ JÁ YÐAR JÁ OG NEI SÉ NEI.“ – MATTEUS 5:37.

4. ENDURNÆRÐU ÞIG.

Þú losnar kannski ekki alveg við allt álag þó að vinnuumhverfið sé í ágætu lagi. Þú gætir samt þurft að kljást við erfiða einstaklinga og óþægilegar aðstæður. Gefðu þér því tíma fyrir hæfilega hvíld og afþreyingu. Mundu að afþreying þarf ekki að kosta mikið til að vera endurnærandi fyrir þig og fjölskylduna.

Leggðu rækt við áhugamál og vini utan vinnunnar og varastu að skilgreina sjálfan þig eftir því hve mikið þú vinnur eða við hvað. Hvers vegna er það mikilvægt? Í bókinni Your Money or Your Life (Peningana eða lífið) segir: „Þú ert annað og meira en það sem þú gerir til að afla peninga.“ Ef sjálfsmynd þín og sjálfsvirðing er fyrst og fremst byggð á vinnunni er erfitt fyrir þig að leggja minni áherslu á vinnu.

MEGINREGLA: „BETRI ER HNEFAFYLLI AF RÓ EN BÁÐAR HENDUR FULLAR AF STRITI OG EFTIRSÓKN EFTIR VINDI.“ – PRÉDIKARINN 4:6.

Er hægt að gera nauðsynlegar breytingar til að ná sér eftir útbruna? Já, það er hægt. Anil, sem var nefndur í upphafi greinarinnar, gerði það. Hann segir: „Ég hafði samband við fyrrverandi vinnuveitanda minn og bað hann um að ráða mig aftur, sem hann og gerði. Það var vandræðalegt að hitta fyrrverandi vinnufélaga mína því að ég hafði talað um að ég myndi hafa það miklu betra á nýja staðnum. Ég lækkaði líka töluvert í launum. En ég fann hugarró og fékk meiri tíma fyrir fjölskylduna og annað sem ég met mikils.“