Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tekist á við breytingaskeiðið

Tekist á við breytingaskeiðið

„Fyrirvaralaust fylltist ég depurð og brast í grát. Ég velti því fyrir mér hvort ég væri að missa vitið.“ – Ragna, * 50 ára.

„Ég vakna að morgni og allt er á hvolfi. Ég finn ekkert heima hjá mér. Allt í einu á ég erfitt með að gera hluti sem ég var vön að fara létt með og ég hef ekki hugmynd um hvers vegna.“ – Hanna, 55 ára.

ÞESSAR konur áttu ekki við veikindi að stríða heldur voru þær að ganga í gegnum breytingaskeiðið, eðlilega breytingu í lífi hverrar konu þegar hún fer úr barneign. Ertu kannski sjálf að komast á breytingaaldurinn? Eða ertu á breytingaskeiðinu núna? Því meira sem þú og þínir nánustu vita um breytingaskeiðið því betur eruð þið í stakk búin að takast á við það.

Breytingaskeiðið

Breytingaskeiðið er tímabilið fyrir tíðahvörf og tíðahvörfin sjálf. * Breytingaskeið flestra kvenna hefst á fimmtugsaldrinum en hjá sumum ekki fyrr en á sjötugsaldri. Hjá flestum konum hætta tíðablæðingar smám saman. Vegna þess að hormónastarfsemin verður óstöðug getur konan misst úr blæðingar, þær orðið óútreiknanlegar eða óvenjumiklar. Hjá einstaka konu hætta tíðablæðingar skyndilega, eins og hendi sé veifað.

„Konur upplifa breytingaskeiðið hver á sinn hátt,“ segir í bókinni Menopause Guidebook. „Algengustu óþægindi, sem fylgja tíðahvörfum, eru svitakófin (stundum kölluð hitakóf),“ en þeim „fylgir stundum kuldahrollur“. Þessi einkenni geta truflað svefn og rænt mann orku. Hversu lengi vara þessi óþægindi? „Sumar konur fá svitakóf við og við í eitt til tvö ár í kringum tíðahvörfin,“ segir The Menopause Book. „Aðrar þjást af þeim í mörg ár. Og einstaka konur segjast fá svitakóf af og til það sem eftir er ævinnar.“ *

Vegna þess að hormónastarfsemin er óstöðug getur konan fundið fyrir þunglyndi og skapsveiflum sem geta valdið grátköstum. Hún getur líka átt erfitt með einbeitingu og fundið fyrir minnisleysi. En hafa ber í huga að „afar ólíklegt er að ein og sama konan fái öll einkennin,“ segir The Menopause Book. Sumar konur hafa meira að segja lítil sem engin óþægindi af breytingaskeiðinu.

Hvað er til ráða?

Einfaldar breytingar á daglegu lífi geta dregið úr sumum óþægindum. Til dæmis gæti það fækkað hitakófum að hætta að reykja. Margar konur hafa líka gagn af því að breyta mataræðinu, til dæmis með því að draga úr eða hætta að drekka áfengi eða koffíndrykki eða forðast mikið kryddaðan eða sykraðan mat sem getur aukið á hitakófin. Að sjálfsögðu er mikilvægt að borða fjölbreyttan og hollan mat.

Að hreyfa sig reglulega getur líka mildað fylgikvilla breytingaskeiðsins verulega. Til að mynda getur það bætt svefn og andlega líðan til muna. Hreyfing styrkir þar að auki beinin og heilsuna almennt. *

Segðu hvernig þér líður

„Það er óþarfi að loka allt innra með sér,“ segir Ragna sem nefnd var fyrr í greininni. „Ef þú talar opinskátt við þá sem standa þér næst hafa þeir ekki of miklar áhyggjur þó að þeir taki eftir einhverjum breytingum.“ Þeir gætu meira að segja sýnt þér meiri skilning og þolinmæði. „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður,“ segir í 1. Korintubréfi 13:4.

Mörgum konum finnst líka gagn í því að biðja, þar á meðal þeim sem sakna þess að geta ekki lengur átt börn. Biblían fullvissar okkur um að Guð hughreysti okkur í sérhverri þrengingu sem við verðum fyrir. (2. Korintubréf 1:4) Auk þess er hughreystandi að vita að breytingaskeiðið er tímabundið ástand. Að því loknu geta konur, sem halda áfram að hugsa vel um heilsuna, endurheimt fyrra þrek og átt mörg góð ár til að njóta lífsins.

^ gr. 2 Nöfnum er breytt.

^ gr. 6 Læknar líta svo á að breytingaskeiðinu sé lokið þegar kona hefur ekki haft tíðablæðingar í 12 mánuði.

^ gr. 7 Fleira getur valdið svitakófum, svo sem skjaldkirtilssjúkdómar, sýkingar og sumar lyfjameðferðir. Áður en gert er ráð fyrir að svitakófin séu tengd breytingaskeiðinu er skynsamlegt að ganga úr skugga um að þau séu ekki af öðrum orsökum.

^ gr. 11 Læknar ráðleggja stundum sjúklingum sínum ýmis fæðubótarefni, hormónalyf, þunglyndislyf og fleira til að auðvelda þeim breytingaskeiðið. Vaknið! mælir ekki með einni meðferð umfram aðra.