Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Klám

Klám

Fordæmir Biblían klám?

„Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ – Matteus 5:28.

HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Klám er orðið vinsælla og aðgengilegra en nokkurn tíma áður. Ef þig langar til að þóknast Guði og lifa betra lífi ættirðu að kynna þér hvað Guði finnst um klám.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Í Biblíunni er ekki talað sérstaklega um klám. Klámnotkun brýtur samt algerlega í bága við meginreglur hennar.

Í Biblíunni er meðal annars bent á að ef giftur maður „horfir á konu“, aðra en eiginkonu sína, og girnist að eiga kynferðislegt samband við hana, getur það orðið til þess að hann haldi fram hjá. Meginreglan að baki þessari viðvörun á vel við alla, gifta sem ógifta, sem horfa á klám og girnast kynferðislegt siðleysi. Slíkt athæfi er greinilega Guði á móti skapi.

Er rangt að horfa á klám jafnvel þegar það leiðir ekki til kynferðislegs siðleysis?

„Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd.“ – Kólossubréfið 3:5.

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Sumir fræðimenn, sem hafa gert rannsóknir á þessu sviði, efast um að það ýti mikið undir kynferðislegt siðleysi að horfa á klám. En fellur klámnotkun ein og sér undir siðlausa hegðun?

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Í Biblíunni kemur fram að „ósæmandi spé“ sé óviðunandi og siðlaust. (Efesusbréfið 5:3, 4) Ætli Guð sætti sig eitthvað frekar við að maður horfi á klám? Núorðið felur klám oft í sér upptökur af fólki að drýgja hór, kynmökum samkynhneigðra og kynferðislegu siðleysi af öðru tagi. Það að horfa lostafullum augum á slíkt klámfengið efni er augljóslega mun alvarlegra í augum Guðs en ósæmandi tal.

Fræðimenn halda áfram að deila um hversu líklegt það sé að fólk fari sjálft að stunda hugarórana sem klám kveikir. En Biblían styður eindregið þá skoðun að það eitt að horfa á klám skaði samband okkar við Guð og gangi í berhögg við vilja hans. Í henni fáum við þessa áminningu: „Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm . . . losta.“ (Kólossubréfið 3:5) Þeir sem horfa á klám ganga þvert á þessar leiðbeiningar. Í stað þess að deyða slíkar girndir næra þeir þær og ala á þeim.

Hvað getur hjálpað manni að forðast klám?

„Leitið hins góða en ekki hins illa . . . Hatið hið illa og elskið hið góða.“ – Amos 5:14, 15.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Í Biblíunni er sagt frá lauslátu fólki, drykkjumönnum og þjófum sem tókst að hætta skaðlegu líferni sínu. (1. Korintubréf 6:9-11) Hvernig þá? Með því að nýta sér viskuna í Biblíunni lærði það að hata hið illa.

Maður getur lært að hata klám ef maður hugsar alvarlega um þær hræðilegu afleiðingar sem fylgja þessum ljóta sið. Nýleg rannsókn við Utah State-háskólann leiddi í ljós að sumir sem horfa á klám „verða þunglyndir og einangrast, það hefur skaðleg áhrif á vinasambönd þeirra“ auk annarra slæmra afleiðinga. Eins og bent var á fyrr í greininni er klámnotkun Guði á móti skapi. Verstu afleiðingar kláms eru því að menn glata sambandinu við skapara sinn.

Af Biblíunni getum við líka lært að elska hið góða. Því meira sem við lesum í henni því meira förum við að elska siðferðisreglur Guðs. Það fær okkur til að taka skýra afstöðu gegn klámi og hugsa eins og sálmaskáldið sem skrifaði: „Ég vil ekki hafa illvirki fyrir augum.“ – Sálmur 101:3.