Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bók sem þú getur treyst — 2. hluti

Assýría og biblíusagan

Bók sem þú getur treyst — 2. hluti

Þetta er önnur greinin af sjö í tímaritinu „Vaknið!“ þar sem fjallað er um þau sjö heimsveldi sem koma við sögu í Biblíunni. Markmiðið er að sýna fram á að Biblían sé trúverðug, að hún sé innblásin af Guði og að boðskapur hennar veiti von um að endir verði á þeim þjáningum sem stafa af óstjórn manna.

MEÐAN Assýría var og hét þurfti varla annað en að nefna hana til að fólki austan við Miðjarðarhaf rynni kalt vatn milli skinns og hörunds. Spámaðurinn Jónas segir frá því í bók sinni að hann hafi fengið það verkefni frá Guði að boða dóm í Níníve, höfuðborg Assýríu. Hann gerði sér þá lítið fyrir og flúði í þveröfuga átt. (Jónas 1:1-3) Kannski var það vegna þess hve illt orð fór af Assýringum.

Áreiðanleg saga

Spámaðurinn Nahúm kallaði Níníve „bæli ljónanna“ og ,blóðseka borg‘. Síðan segir hann: „[Hún] lætur ekki af ofbeldi. Svipusmellir. Hjólaskrölt. Hófatak. Vagnagnýr. Riddarar geysast fram, sverð blika, spjót leiftra. Fjöldi valfallinna, kestir af hræjum. Óteljandi eru líkin, um þau hrasa menn.“ (Nahúm 2:12; 3:1-3) Kemur lýsing Biblíunnar á Assýringum fortíðar heim og saman við sögulegar heimildir?

Í bókinni Light From the Ancient Past segir að Assýría hafi verið „miskunnarlaus stríðsvél sem gerði út á óttann sem óvinunum stóð af þeim“. Einn af konungum Assýríu, Assúrnasírpal annar, gortar af því hvernig hann fór með andstæðinga sína og segir:

„Ég reisti stólpa á móts við borgarhlið hans og fláði alla höfðingjana sem gert höfðu uppreisn, og ég þakti stólpann með húðum þeirra; suma múraði ég inni í stólpanum, suma festi ég upp á staura á stólpanum . . . og ég hjó útlimina af liðsforingjunum, hinum konunglegu liðsforingjum sem gert höfðu uppreisn . . . Marga af bandingjunum meðal þeirra brenndi ég í eldi og marga tók ég lifandi til fanga.“ Þegar fornleifafræðingar grófu upp konungshallir Assýringa uppgötvuðu þeir að veggirnir voru skreyttir myndum sem lýstu hrottalegri meðferð þeirra á föngum.

Árið 740 f.Kr. lögðu Assýringar undir sig Samaríu, höfuðborg Ísraelsríkis, og fluttu íbúana í útlegð. Átta árum síðar gerðu þeir innrás í Júda. * (2. Konungabók 18:13) Sanheríb, konungur Assýríu, krafðist þess að Hiskía Júdakonungur greiddi sér í skatt 30 talentur gulls og 300 talentur silfurs. Í Biblíunni kemur fram að skatturinn hafi verið greiddur. Þrátt fyrir það heimtaði Sanheríb að íbúar Jerúsalem, höfuðborgar Júdaríkisins, gæfust upp án skilyrða. — 2. Konungabók 18:9-17, 28-31.

Fornleifafræðingar hafa fundið annála Sanheríbs í rústum Níníve. Þeir eru skráðir á sexhyrndan strending úr leir, og þar er greint frá þessum sömu atburðum. Sanheríb gortar þar af afrekum sínum og segir: „Hiskía Gyðingur beygði sig ekki undir ok mitt og settist ég um 46 rammbyggðar borgir hans, virki og ótal smáþorp í grenndinni og vann (þau) . . . Sjálfan gerði ég hann að fanga í Jerúsalem, konungssetri sínu, eins og fugl í búri.“ Sanheríb fullyrðir síðan að Hiskía hafi sent honum „30 talentur gulls, 800 talentur silfurs, dýra steina . . . (og) alls konar verðmæta fjársjóði“. Hann ýkir töluvert hve mikið hann fékk af silfrinu.

Það vekur hins vegar athygli að Sanheríb nefnir hvergi að hann hafi unnið Jerúsalem. Hann þegir reyndar þunnu hljóði um þann hrikalega ósigur sem hann beið þegar Guð skarst í leikinn. Að sögn Biblíunnar banaði engill Guðs 185.000 hermönnum Assýringa á einni nóttu. (2. Konungabók 19:35, 36) Um þetta segir fræðimaðurinn Jack Finegan: „Þegar litið er á gortið, sem gegnsýrir áletranir assýrískra konunga, er varla við því að búast að Sanheríb geti um slíkan ósigur.“

Áreiðanlegir spádómar

Um hundrað árum áður en Assýríuveldið féll lýsti Jesaja spámaður yfir að Jehóva Guð ætlaði að láta þessa stoltu sigurvegara gjalda grimmdar sinnar og óskammfeilni. „Ég mun refsa Assýríukonungi fyrir ávöxtinn af hroka hans og drembilegt oflæti augna hans.“ (Jesaja 10:12) Og Nahúm spámaður boðaði að Níníve yrði rænd, borgarhliðin opnuð fyrir óvinum hennar og varðmennirnir myndu leggja á flótta. (Nahúm 2:9, 10; 3:7, 13, 17, 19) Spámaðurinn Sefanía skrifaði að borgin skyldi verða „að auðn“. — Sefanía 2:13-15.

Spádómarnir um eyðingu Níníve rættust árið 632 f.Kr. Það ár féll borgin fyrir sameinuðum herjum Babýloníumanna og Meda. Assýríuveldið var fallið. Í babýlonskum annál, þar sem greint er frá þessum atburði, segir að sigurvegararnir hafi „haft á brott með sér mikið herfang frá borginni og musterinu“ og gert Níníve „að rústahaug“. Á austurbakka Tígris, gegnt borginni Mosul í Írak, eru nú rústahaugar einir þar sem Níníve stóð forðum daga.

Fall Assýríu var líka undanfari þess að annar biblíuspádómur rættist. Assýringar höfðu flutt íbúa tíuættkvíslaríkisins í útlegð árið 740 f.Kr. Um svipað leyti boðaði Jesaja að Jehóva myndi ,mylja Assýríu, troða hana niður‘ og leiða Ísraelsmenn heim á ný. Jesaja skrifaði að Guð myndi kalla saman „leifar þjóðar sinnar sem eftir urðu í Assýríu“. Og það rættist um tvö hundruð árum síðar, nákvæmlega eins og spáð hafði verið. — Jesaja 11:11, 12; 14:25.

Loforð sem þú getur treyst

Löngu áður en Níníve féll, meðan konungar hennar gátu enn skotið óvinum sínum skelk í bringu, boðaði Jesaja að annar og mjög ólíkur valdhafi myndi koma fram. Hann skrifaði: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur . . . Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti, héðan í frá og að eilífu. Vandlæting Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.“ — Jesaja 9:5, 6.

Öll jörðin verður yfirráðasvæði Friðarhöfðingjans sem er Jesús Kristur. Í Sálmi 72:7, 8 segir: „Um daga hans mun hinn réttláti blómstra og friður og farsæld uns tunglið er ekki framar til. Hann mun ríkja frá hafi til hafs og frá Fljótinu [Efrat] til endimarka jarðar.“

Fyrir atbeina þessa volduga Friðarhöfðingja uppfyllir Jehóva loforðið sem hann gaf í Sálmi 46:9, 10: „Komið, sjáið dáðir Drottins, hann veldur eyðingu á jörðu. Hann stöðvar stríð til endimarka jarðar, brýtur bogann, mölvar spjótið, brennir skildi í eldi.“

Í aðdraganda þess að biblíuspádómurinn hér að ofan rætist vinna vottar Jehóva að miklu fræðsluátaki líkt og Jesús. Það miðar að því að fólk kynnist Biblíunni og læri að ástunda frið. Þá rætist spádómurinn í Jesaja 2:4, en ekki fyrir tilverknað manna heldur Guðs. Þar segir um þjóðirnar: „Þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ Heimurinn eyðir aftur á móti hundruðum milljarða dollara á ári í hergögn og stríðsrekstur.

Nákvæm sagnaritun og óbrigðulir spádómar skipa Biblíunni í sérflokk og sýna að orðum hennar er treystandi í hvívetna. Þeir sem eru að leita sannleikans geta sótt í hana. Í næstu grein í þessum greinaflokki verður rætt um Babýlon, höfuðborg þriðja heimsveldisins í biblíusögunni.

^ Ísraelsmenn skiptust í 12 ættkvíslir. Eftir stjórnartíð Salómons klofnaði ríkið. Júda og Benjamín mynduðu syðra ríkið en hinar ættkvíslirnar tíu hið nyrðra. Jerúsalem var höfuðborg syðra ríkisins en Samaría höfuðborg þess nyrðra.