Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Blóðleysi – orsök, einkenni og meðhöndlun

Blóðleysi – orsök, einkenni og meðhöndlun

 „Ég glímdi við blóðleysi þegar ég var unglingur,“ segir Beth. „Ég var kraftlítil, þreyttist fljótt, var með beinverki og átti erfitt með að einbeita mér. Læknir útvegaði mér járntöflur. Ég tók þær og bætti líka mataræðið. Þá fór mér fljótlega að líða betur.“

 Veikindin sem hrjáðu Beth eru frekar algeng. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) þjást um tveir milljarðar manna eða 30 prósent jarðarbúa af blóðleysi. Áætlað er að í þróunarlöndunum þjáist um 50 prósent barnshafandi kvenna og 40 prósent barna á aldrinum 3ja til 5 ára af blóðleysi.

 Blóðleysi getur haft alvarlegar afleiðingar. Alvarleg tilfelli geta leitt til hjartasjúkdóma og jafnvel hjartabilunar. Í skýrslu WHO kemur fram að í sumum löndum „stuðli blóðleysi að dauða 20% þeirra mæðra sem deyja í tengslum við barnsburð“. Járnskortur er algengasta orsök blóðleysis. Börn mæðra með járnskort fæðast stundum fyrir tímann og eru oft undir kjörþyngd. Það er hætta á að börn sem þjást af blóðleysi þroskist hægar og fái oft sýkingar. Samt er yfirleitt hægt að lækna eða koma í veg fyrir járnskort. a

Hvað er blóðleysi?

 Blóðleysi er heilsufarsvandamál. Í stuttu máli sagt hefur fólk með blóðleysi ekki nægilega mikið af heilbrigðum rauðum blóðkornum. Ástæðurnar geta verið ýmsar. Vísindamenn hafa greint meira en 400 afbrigði blóðleysis. Ástandið getur verið tímabundið eða langvinnt, vægt eða alvarlegt.

Hvað veldur blóðleysi?

 Helstu orsakir blóðleysis eru þrjár:

  •   Blóðmissir veldur því að rauðum blóðkornum í líkamanum fækkar.

  •   Líkaminn myndar ekki nægilega mikið af heilbrigðum rauðum blóðkornum.

  •   Líkaminn eyðir rauðum blóðkornum.

 Járnskortur er talinn algengasta ástæða blóðleysis í heiminum. Þegar líkamann skortir járn getur hann ekki myndað nægilega mikið af heilbrigðum blóðrauða, efninu inni í rauðu blóðkornunum sem gerir þeim kleift að flytja súrefni.

Hver eru einkenni blóðleysis vegna járnskorts?

 Til að byrja með getur blóðleysið verið vægt, fólk verður jafnvel ekki vart við það. Einkenni blóðleysis vegna járnskorts geta verið mismunandi en eru meðal annars:

  •   Mikil þreyta.

  •   Hand- og fótkuldi.

  •   Þróttleysi.

  •   Föl húð.

  •   Höfuðverkur og svimi.

  •   Brjóstverkur, hraður hjartsláttur, mæði.

  •   Neglur sem rifna auðveldlega.

  •   Lystarleysi, sérstaklega hjá ungbörnum og krökkum.

  •   Löngun í að borða ís, sterkju eða jafnvel mold.

Hverjir eru útsettir?

 Konur þjást oft af blóðleysi sökum járnskorts vegna þess að þær missa blóð þegar þær hafa blæðingar. Þunguðum konum er líka hætt við blóðleysi ef mataræði þeirra inniheldur ekki nægilega mikið fólat eða fólínsýru sem er B-vítamín.

 Fyrirburar eða léttburar sem fá ekki nægilegt járn úr móðurmjólk eða úr þurrmjólkurblöndu.

 Börn sem fá ekki nægilega fjölbreytt og hollt fæði.

 Grænmetisætur sem borða ekki nógu járnríkan mat.

 Langveikir, til dæmis þeir sem eru með blóðsjúkdóma, krabbamein, blæðandi magasár eða ákveðnar tegundir sýkinga.

Hvernig er blóðleysi meðhöndlað?

 Ekki er alltaf hægt að fyrirbyggja eða lækna blóðleysi. En ef það stafar af járn- eða vítamínskorti er yfirleitt hægt að lækna eða koma í veg fyrir það með heilnæmu mataræði sem inniheldur eftirfarandi næringarefni:

 Járn er að finna í kjöti, linsubaunum og öðrum baunum og dökkgrænu blaðgrænmeti eins og spínati. b Einnig getur verið gagnlegt að nota járnpotta og -pönnur því að rannsóknir sýna að það geti aukið járninnihald fæðunnar.

 Fólat er að finna í ávöxtum, dökkgrænu blaðgrænmeti, grænum baunum, nýrnabaunum, osti, eggjum, fiski, möndlum og jarðhentum. Fólat er líka að finna í vítamínbættum kornvörum, eins og brauði, morgunkorni, pasta og hrísgrjónum. Fólat framleitt með efnatengingu kallast fólansýra.

 B-12 vítamín er að finna í kjöti, mjólkurvörum, vítamínbættu morgunkorni og sojavörum.

 C-vítamín er að finna í sítrusávöxtum og sítrussafa, piparávöxtum, spergilkáli, tómötum, melónum og jarðaberjum. Fæðutegundir sem innihalda C-vítamín auka járnupptöku í líkamanum.

 Fæðuúrval er misjafnt eftir landssvæðum. Því skaltu kynna þér hvaða fæðutegundir á svæðinu innihalda nauðsynleg næringarefni. Það er mikilvægt að konur geri það, sérstaklega þungaðar konur og þær sem ráðgera barneignir. Með því að gæta heilsu þinnar dregurðu úr hættunni á að barnið þjáist af blóðleysi. c

a Upplýsingarnar í þessari grein um mataræði og skylt efni eru aðallega frá Mayo Clinic og The Gale Encyclopedia of Nursing and Allied Health. Hafðu samband við heilbrigðisstarfsfólk ef þig grunar að þú þjáist af blóðleysi.

b Ekki taka inn eða gefa barninu þínu bætiefni með járni nema í samráði við lækni. Of mikið járn getur valdið lifraskemmdum og skapað önnur vandamál.

c Læknar meðhöndla stundum blóðleysi með blóðgjöfum. Vottar Jehóva þiggja ekki slíka meðferð. – Postulasagan 15:28, 29.