Fyrra bréfið til Korintumanna 1:1–31

  • Kveðjur (1–3)

  • Páll þakkar Guði fyrir safnaðarmenn í Korintu (4–9)

  • Hvatning til að vera sameinuð (10–17)

  • Kristur, kraftur og viska Guðs (18–25)

  • Stærum okkur aðeins vegna Jehóva (26–31)

1  Frá Páli, sem er kallaður til að vera postuli Krists Jesú samkvæmt vilja Guðs, og frá Sósþenesi bróður okkar,  til safnaðar Guðs í Korintu, til ykkar sem eruð helguð til að vera sameinuð Kristi Jesú og kölluð til að vera heilög, og til allra sem ákalla nafn Drottins Jesú Krists alls staðar, hans sem er Drottinn þeirra og okkar.  Megi Guð faðir okkar og Drottinn Jesús Kristur sýna ykkur einstaka góðvild og veita ykkur frið.  Ég þakka Guði mínum alltaf fyrir ykkur því að hann sýndi ykkur einstaka góðvild fyrir milligöngu Krists Jesú.  Vegna hans eruð þið orðin auðug á allan hátt, vel hæf til að boða orð Guðs og hafið fyllst þekkingu  þar sem boðskapurinn um Krist er orðinn rótfastur hjá ykkur.  Þannig hafið þið allt sem þið þurfið* meðan þið bíðið með óþreyju eftir að Drottinn okkar Jesús Kristur opinberist.  Guð gerir ykkur staðföst allt til enda svo að ekki verði hægt að ásaka ykkur um neitt á degi Drottins okkar Jesú Krists.  Guð er trúr og hann kallaði ykkur til að eiga samneyti* við son sinn, Jesú Krist Drottin okkar. 10  Nú hvet ég ykkur, bræður og systur, í nafni Drottins okkar Jesú Krists til að vera öll á sama máli og forðast alla sundrung á meðal ykkar. Verið fullkomlega sameinuð í sama hugarfari og sömu skoðun. 11  Nokkrir heimilismenn Klóe hafa sagt mér, bræður mínir og systur, að ágreiningur sé milli ykkar. 12  Ég á við það að sum ykkar segja: „Ég fylgi Páli,“ en aðrir: „Ég fylgi Apollósi,“ eða: „Ég fylgi Kefasi,“* eða: „Ég fylgi Kristi.“ 13  Er Kristi skipt í sundur? Var Páll kannski staurfestur fyrir ykkur? Eða voruð þið skírð í nafni Páls? 14  Ég þakka Guði að ég skírði ekkert ykkar nema Krispus og Gajus 15  þannig að enginn geti sagt að hann sé skírður í mínu nafni. 16  Jú, ég skírði líka heimilisfólk Stefanasar. Annars veit ég ekki til þess að ég hafi skírt neinn annan. 17  Kristur sendi mig ekki til að skíra heldur til að boða fagnaðarboðskapinn, og ekki boða hann með orðum lærðra manna* því að þá yrði kvalastaur* Krists óþarfur. 18  Boðskapurinn um kvalastaurinn* er heimska í eyrum þeirra sem glatast en fyrir okkur sem björgumst er hann kraftur Guðs. 19  Skrifað er: „Ég geri visku hinna vitru að engu og hafna* gáfum gáfumannanna.“ 20  Hvar er hinn vitri? Hvar er fræðimaðurinn?* Hvar er kappræðumaður þessarar heimsskipanar?* Hefur ekki Guð gert visku heimsins að heimsku? 21  Í visku sinni sá Guð til þess að heimurinn gæti ekki kynnst honum með sinni eigin visku. Þess í stað kaus Guð að láta heimsku boðskaparins frelsa þá sem trúa. 22  Gyðingar biðja um tákn og Grikkir leita að visku 23  en við boðum Krist staurfestan sem er Gyðingum hrösunarhella og þjóðunum finnst heimskulegt. 24  En í augum þeirra sem eru kallaðir, bæði Gyðinga og Grikkja, er Kristur kraftur Guðs og viska Guðs 25  því að heimska frá Guði er vitrari en menn og hið veikburða frá Guði er sterkara en menn. 26  Þið sjáið, bræður og systur, þegar þið lítið á sjálf ykkur, að Guð kallaði ekki marga sem voru vitrir í augum manna, ekki marga valdamikla og ekki marga af göfugum ættum.* 27  Guð valdi öllu heldur hið heimska í heiminum til að hinir vitru fari hjá sér, og hann valdi hið veikburða í heiminum til að hið sterka fari hjá sér, 28  hann valdi hið ómerkilega í heiminum og hið fyrirlitna, það sem menn telja einskis virði, til að gera að engu það sem er einhvers metið 29  svo að enginn skyldi stæra sig frammi fyrir Guði. 30  En það er honum að þakka að þið eruð sameinuð Kristi Jesú sem birtir okkur visku Guðs og er orðinn okkur réttlæti, helgun og frelsun með lausnargjaldi 31  svo að það geti orðið sem skrifað er: „Sá sem stærir sig stæri sig vegna Jehóva.“*

Neðanmáls

Eða „skortir ykkur enga gjöf eða hæfileika“.
Eða „hafa samfélag“.
Einnig nefndur Pétur.
Eða „gáfulegu orðbragði“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Eða „vísa á bug“.
Það er, sérfræðingur í lögum Gyðinga.
Eða „aldar“. Sjá orðaskýringar.
Eða „tiginborna“.
Sjá orðaskýringar.