Hoppa beint í efnið

Traustvekjandi nærvera á Tour de France hjólreiðakeppninni

Traustvekjandi nærvera á Tour de France hjólreiðakeppninni

Mikil spenna lá í loftinu þegar heimsfræga hjólreiðakeppnin Tour de France fór fram í 103. skipti 2.-24. júlí 2016. Árið á undan höfðu rúmlega 100 manns orðið fórnarlömb nokkurra hryðjuverkaárása í Frakklandi. Á þjóðhátíðardeginum 14. júlí 2016 ók hryðjuverkamaður vöruflutningabíl á hóp fólks sem fylgdist með flugeldasýningu í borginni Nice. Áttatíu og sex létust í árásinni og margir slösuðust.

Í andrúmslofti ótta og sorgar var vottum Jehóva mikið í mun að flytja óttaslegnum íbúum Frakklands uppörvun og von. Þess vegna stilltu vottarnir upp ritatrillum á áfangastöðum keppninnar. Rúmlega 1.400 vottar tóku þátt í þessu átaki og sáu fólki sem var að leita að svörum við mikilvægustu spurningum lífsins fyrir rúmlega 2.000 biblíuritum.

„Þið eruð alls staðar“

Aðdáendur sem fylgdu keppninni eftir frá einni borg til annarrar voru hissa að sjá votta Jehóva svona víða. Oftar en einu sinni hrósuðu skipuleggendur Tour de France keppninnar vottunum fyrir gott skipulag og sögðu: „Þið virðist vera alls staðar, á öllum áfangastöðum keppninnar.“ Margir aðdáendur keppninnar sögðu hissa: „Vottar Jehóva eru líka hérna.“ Nokkrum dögum eftir að keppnin hófst afþakkaði rútubílstjóri kurteislega smárit sem honum var boðið og sagðist hafa þegar fengið fjögur rit.

Það vakti áhuga sumra að sjá að vottarnir voru alls staðar og þeir tóku rit af ritatrillunum í fyrsta skipti. Starfsmaður íþróttasjónvarpsstöðvar var einn þeirra sem mundi eftir að hafa séð vottana árið áður á Tour de France. Hann ákvað núna að skoða ritatrillu og valdi bókina Farsælt fjölskyldulíf – hver er leyndardómurinn? því hún fjallar um málefni sem honum var kært. Eftir að hafða lesið svolítið í bókinni í bílnum sagði hann vinnufélögum sínum frá ritatrillunum og þeir fengu sér líka rit um ýmis málefni.

Uppörvandi von og traust

Sumir áhorfendur keppninnar leituðu votta Jehóva uppi og tjáðu sig af einlægni. Ung kona trúði þeim fyrir því að hún hefði misst alla von og íhugaði jafnvel að taka líf sitt þennan sama dag. Hún ætlaði að henda sér fyrir lest. En eftir að hafa heyrt hughreystandi boðskap Biblíunnar um friðsama framtíð undir stjórn ríkis Guðs ákvað hún að binda ekki enda á líf sitt. Önnur kona sagði við vottana: „Haldið áfram þessu góða starfi ykkar.“

Maður sem gekk við hækjur viðurkenndi að hann væri yfirleitt tortrygginn gagnvart ókunnugum. En hann þáði aðstoð siðlega klæddrar konu þegar hann áttaði sig á að hún var vottur Jehóva. Hann sagði: „Takk fyrir brosið og að vera vel til fara. Þú ert traustvekjandi.“