Hoppa beint í efnið

BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?

Sjálfhreinsibúnaður grindhvalsins

Sjálfhreinsibúnaður grindhvalsins

 Hrúðurkarlar og aðrar sjávarlífverur sem lifa á skipsskrokkum skapa mikil vandamál fyrir skipaeigendur. Þessar lífverur hægja á skipum, valda því að skipin brenna meira eldsneyti og vegna þeirra þarf að taka skipin úr umferð á nokkurra ára fresti til að hreinsa þau. Vísindamenn leita til náttúrunnar til að finna lausn á þessu vandamáli.

 Hugleiddu þetta: Rannsóknir hafa leitt í ljós að húðin á grindhval (Globicephala melas) er með sjálfhreinsibúnað. Hún er þakin örsmáum gárum sem eru svo smáar að lirfur hrúðurkarla geta ekki fest sig á þær. Bilið á milli gáranna er fullt af hlaupkenndu efni sem ræðst á þörunga og bakteríur. Húð hvalsins gefur frá sér nýtt hlaup um leið og hún endurnýjar sig.

 Vísindamenn áforma að aðlaga sjálfhreinsibúnaðinn að yfirborði skipsskrokka. Áður fyrr notuðu menn sérstaka botnmálningu sem kom í veg fyrir að sjávarlífverur festust við skipin. En sú málning sem hefur mest verið notuð var nýlega bönnuð vegna eituráhrifa á lífið í sjónum. Lausnin sem vísindamenn hafa fundið er að klæða skipsskrokka með málmneti sem gefur frá sér efni sem er ekki hættulegt lífríkinu. Efnið þykknar og verður að seigfljótandi hlaupi þegar það kemst í snertingu við sjó og myndar húð sem þekur skipsskrokkinn. Með tímanum eyðist þessi 0,7 millimetra þykka húð og með henni þær lífverur sem hafa tekið sér far með skipinu. Síðan myndast nýtt hlaup sem þekur skipsskrokkinn.

Hrúðurkarlar hægja á skipum og það er erfitt að fjarlægja þá.

 Rannsóknir hafa sýnt fram á að með slíkum búnaði séu hundrað sinnum minni líkur á að sjávarlífverur festist á skipsskrokkum. Og það yrði mikill hagur fyrir skipafyrirtæki því það er kostnaðarsamt að koma skipum í þurrkví til að hreinsa þau.

 Hvað heldur þú? Þróaðist sjálfhreinsibúnaður grindhvalsins? Eða býr hönnun að baki?