Hoppa beint í efnið

LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | MIRJAM

„Lofsyngjum Jehóva“

„Lofsyngjum Jehóva“

 Stelpan hélt sig í öruggri fjarlægð en augu hennar hvíldu á ákveðnum stað í sefinu. Hún beið kvíðin og spennt meðan Nílarfljótið rann hjá. Tíminn silaðist áfram en hún fylgdist með og reyndi að láta skordýrin sem suðuðu kringum hana ekki trufla sig. Hún horfði á staðinn þar sem hún vissi að litli bróðir hennar var falinn í körfu. Það nísti hjarta hennar að vita af honum einum og hjálparvana. En hún efaðist ekki um að foreldrar hennar höfðu rétt fyrir sér, þetta var eina von barnsins á þessum hræðilegu tímum.

 Þessi unga stelpa sýndi einstakt hugrekki og var í þann mund að sýna enn meira hugrekki. Þótt hún væri ung var trú hennar á Guð farin að styrkjast. Það kæmi í ljós á næstu augnablikum. Og trúin hafði reyndar áhrif á allt hennar líf. Mörgum árum síðar, þegar hún var orðin öldruð, leiðbeindi trúin henni á erfiðasta tíma í sögu þjóðar hennar. Sami eiginleiki hjálpaði henni aftur þegar hún gerði alvarleg mistök. Hver var þessi stelpa? Og hvað getum við lært af trú hennar?

Mirjam ólst upp í ánauð

 Biblían greinir ekki frá nafni stelpunnar en við vitum hver hún var. Hún var Mirjam, elsti afkomandi Amrams og Jókebedar, hebreskra þræla í Egyptalandi. (4. Mósebók 26:59) Litli bróðir hennar fékk síðar nafnið Móse. Aron bróðir þeirra var um þriggja ára þegar þetta gerðist. Ekki er vitað með vissu hversu gömul Mirjam var en trúlega var hún yngri en tíu ára.

 Mirjam ólst upp á erfiðum tímum þjóðar sinnar. Egyptar álitu Hebreana mikla ógn þannig að þeir hnepptu þá í þrældóm og kúguðu þá. Þegar þrælunum fjölgaði þrátt fyrir það urðu Egyptarnir jafnvel enn grimmari. Faraó fyrirskipaði að öll sveinbörn Hebreanna skyldu drepin við fæðingu. Mirjam var örugglega kunnugt um hvernig ljósmæðurnar Sifra og Púa sýndu trú með því að hunsa fyrirskipunina. – 2. Mósebók 1:8–22.

 Mirjam tók líka eftir trú foreldra sinna. Eftir fæðingu þessa fallega drengs földu Amram og Jókebed hann fyrstu þrjá mánuði lífs hans. Þau létu ekki sjúklegan ótta við konunginn þvinga sig til að leyfa að hann yrði deyddur. (Hebreabréfið 11:23) En það er erfitt að fela barn. Fljótlega þurftu þau að taka erfiða ákvörðun. Jókebed þurfti að fela drenginn og skilja hann eftir þar sem einhver fyndi hann og gæti verndað hann og alið hann upp. Við getum rétt ímyndað okkur hversu heitt hún hefur beðið til Guðs þegar hún bjó til körfu úr sefi, þétti hana með biki og tjöru til að hafa hana vatnsþétta og skildi drenginn sinn eftir í ánni Níl. Hún hefur örugglega sagt Mirjam að standa á verði til að fylgjast með hvað myndi gerast. – 2. Mósebók 2:1–4.

Mirjam bjargar

 Mirjam beið átekta. Allt í einu greindi hún hreyfingu. Hópur kvenna nálgaðist. Og þetta voru engar venjulegar egypskar konur. Dóttir faraós, ásamt þjónustustúlkum, var komin til að baða sig í Níl. Mirjam var trúlega mjög óttaslegin. Hvers vegna ætti dóttir faraós að fara gegn fyrirmælum konungsins og ákveða að leyfa hebreskum dreng að lifa? Mirjam hefur án efa beðið innilega til Guðs á þessu augnabliki.

 Dóttir faraós tók fyrst eftir körfunni. Hún sagði ambátt sinni að færa sér hana. Frásagan segir: „Þegar dóttir faraós opnaði körfuna sá hún drenginn þar sem hann lá og grét.“ Hún var fljót að átta sig á aðstæðunum. Hebresk móðir var trúlega að reyna að bjarga lífi barnsins síns. En dóttir faraós fann til samúðar með þessu fallega barni. (2. Mósebók 2:5, 6) Mirjam fylgdist vel með og sá á svip konunnar að hana langaði að koma barninu til hjálpar. Hún skildi að það var komið að sér, að sýna trú sína á Jehóva í verki. Hún herti því upp hugann og gekk til dóttur faraós og þjónustustúlkna hennar.

 Við vitum ekki á hverju ung hebresk ambátt gat átt von þegar hún vogaði sér að tala við konungborið fólk. En Mirjam spurði blátt áfram: „Á ég að fara og kalla á hebreska konu til að hafa barnið á brjósti fyrir þig?“ Þetta hitti beint í mark. Dóttir faraós vissi að hún var ekki í aðstöðu til að hafa barnið á brjósti. Og kannski áleit hún að það bæri minna á því ef barnið væri hjá sínu fólki meðan á því stæði. Hún gæti sótt hann síðar og ættleitt hann, alið hann upp og veitt honum menntun. Mirjam hlýtur að hafa verið ofsaglöð þegar dóttir faraós svaraði: „Gerðu það.“ – 2. Mósebók 2:7, 8.

Mirjam var hugrökk þegar hún fylgdist með litla bróður sínum.

 Mirjam flýtti sér heim til foreldranna sem biðu áhyggjufullir. Við getum séð hana fyrir okkur þegar hún sagði móður sinni fréttirnar óðamála. Jókebed áttaði sig líklega á því að Jehóva stýrði málum svo að hún fór með Mirjam til dóttur faraós. Trúlega reyndi hún að leyna gleði sinni og létti þegar dóttir faraós fyrirskipaði: „Taktu barnið og hafðu það á brjósti fyrir mig. Ég skal borga þér fyrir.“ – 2. Mósebók 2:9.

 Mirjam lærði margt um Jehóva Guð sinn þennan dag. Hún lærði að honum er annt um fólk sitt og hlustar á bænir þess. Og hún komst að því að það eru ekki bara fullorðnir eða karlmenn sem geta sýnt trú og hugrekki. Jehóva hlustar á alla trúfasta þjóna sína. (Sálmur 65:2) Við þurfum öll, hvort sem við erum ung eða gömul, konur eða karlar, að minna okkur á það á þessum erfiðu tímum.

Mirjam var þolinmóð systir

 Jókebed annaðist drenginn og hafði hann á brjósti. Við getum rétt ímyndað okkur hve sterk tengsl Mirjam hefur haft við bróður sinn sem hún hafði hjálpað til við að bjarga. Kannski hjálpaði hún honum að læra að tala og fékk að heyra hann segja nafn Guðs, Jehóva, í fyrsta sinn. Þegar drengurinn stækkaði var tímabært að fara með hann til dóttur faraós. (2. Mósebók 2:10) Það var örugglega sársaukafullt fyrir alla fjölskylduna. Mirjam hlýtur að hafa hugsa mikið um það hvernig Móse, eins og dóttir faraós nefndi hann, myndi verða þegar hann yrði fullorðinn. Myndi hann halda áfram að elska Jehóva þegar hann yxi úr grasi í konungsfjölskyldu Egypta?

 Tíminn leiddi það í ljós. Mirjam hefur vafalaust verið mjög stolt þegar litli bróðir hennar varð að manni sem kaus frekar að þjóna Guði sínum heldur en að njóta þeirra forréttinda sem honum stóðu til boða í húsi faraós. Þegar Móse var fertugur stóð hann upp þjóð sinni til varnar. Hann drap Egypta sem fór illa með hebreskan þræl. Móse vissi að hann yrði drepinn fyrir þetta þannig að hann flúði frá Egyptalandi. – 2. Mósebók 2:11–15; Postulasagan 7:23–29; Hebreabréfið 11:24–26.

 Mirjam heyrði ef til vill ekkert af Móse næstu fjóra áratugina þegar hann dvaldi fjarri henni í Midían og vann þar sem fjárhirðir. (2. Mósebók 3:1; Postulasagan 7:29, 30) Tíminn leið. Mirjam varð öldruð og sá þjóð sína þjást meir og meir.

Spákonan Mirjam

 Mirjam var trúlega á níræðisaldri þegar Móse sneri aftur, sendur af Guði til að frelsa þjóð hans. Aron var talsmaður Móse og saman gengu þessir bræður Mirjamar fram fyrir faraó til að biðja hann um að leyfa þjóð Guðs að fara. Mirjam gerði örugglega sitt besta til að styðja þá og hvetja eftir að faraó neitaði bón þeirra, og líka þegar þeir fóru aftur og aftur til faraó en Jehóva sendi tíu plágur til að vara Egypta við. Loksins með síðustu plágunni – dauða allra frumburða Egypta – kom réttur tími fyrir hina miklu brottför Ísraelsþjóðarinnar frá Egyptalandi! Við getum séð Mirjam fyrir okkur hjálpa fólki sínu þegar það yfirgaf Egyptaland með Móse í fararbroddi. – 2. Mósebók 4:14–16, 27–31; 7:1–12:51.

 Síðar, þegar Ísraelsþjóðin var innikróuð milli Rauðahafsins og her Egypta, sá Mirjam Móse bróður sinn standa við hafið og reisa upp staf sinn. Hafið skiptist í tvennt! Þegar Mirjam fylgdist með bróður sínum leiða þjóðina yfir þurran hafsbotninn var trú hennar á Jehóva trúlega sterkari en nokkru sinni fyrr. Hún þjónaði Guði sem gat gert hvað sem er til að uppfylla loforð sín! – 2. Mósebók 14:1–31.

 Þegar þjóðin var komin heilu og höldnu yfir hafið og sjórinn hafði fært faraó og her hans í kaf sá Mirjam að Jehóva var sterkari en öflugasti her í heimi. Fólkið fann sig knúið til að syngja fyrir Jehóva. Mirjam leiddi konurnar í söng. Þær sungu: „Lofsyngjum Jehóva því að hann er hátt upphafinn. Hestum og riddurum kastaði hann í hafið.“ – 2. Mósebók 15:20, 21; Sálmur 136:15.

Mirjam var innblásið að leiða konur af Ísraelsþjóðinni í sigursöng við Rauðahafið.

 Þetta var trúlega hápunkturinn í lífi Mirjamar, nokkuð sem hún myndi aldrei gleyma. Þegar hér er komið sögu kallar Biblían Mirjam spákonu. Hún er fyrsta konan sem er nefnd spákona. Mirjam er ein af fáum útvöldum konum sem þjónuðu Jehóva á þennan sérstaka hátt. – Dómarabókin 4:4; 2. Konungabók 22:14; Jesaja 8:3; Lúkas 2:36.

 Biblían minnir okkur þannig á að Jehóva fylgist með okkur og er fús að veita okkur heiður fyrir okkar litla framlag, þolinmæði og löngun til að lofa hann. Hvort sem erum ung eða gömul, karlar eða konur getum við sýnt trú á Jehóva. Slík trú gleður hann. Hann gleymir henni aldrei og hann umbunar fyrir hana með gleði. (Hebreabréfið 6:10; 11:6) Við höfum mikla ástæðu til að líkja eftir trú Mirjamar.

Mirjam sýndi hroka

 Virðing og áberandi staða veitir blessun en getur líka verið hættuleg. Á þeim tíma sem Ísraelsþjóðin var frelsuð úr ánauð var Mirjam líklega þekktasta kona þjóðarinnar. Steig það henni til höfuðs? (Orðskviðirnir 16:18) Já, því miður um tíma.

 Fáeinum mánuðum eftir brottförina tók Móse á móti Jetró tengdaföður sínum, Sippóru eiginkonu sinni og tveim sonum þeirra hjóna. Móse hafði kvænst henni þegar hann dvaldist í Midían í 40 ár. Sippóra hafði farið til fjölskyldu sinnar í Midían, kannski í heimsókn, og nú var faðir hennar kominn með hana í tjaldbúðir Ísraelsþjóðarinnar. (2. Mósebók 18:1–5) Hebrearnir hljóta að hafa verið forvitnir þegar Sippóra kom. Trúlega voru margir spenntir að hitta eiginkonu mannsins sem Guð hafði valið til að leiða þá út úr Egyptalandi.

 Var Mirjam ánægð líka? Kannski í fyrstu. En svo virðist sem stolt hafi náð tökum á henni. Henni fannst kannski stöðu sinni ógnað og óttaðist að Sippóra tæki hana, stöðu mest áberandi konu þjóðarinnar. Hvað sem því líður fóru Mirjam og Aron að vera neikvæð í tali. Og það varð eins og oft vill verða að beiskju- og illgirnistali. Í fyrstu beindist það að Sippóru. Þau kvörtuðu yfir því að hún væri ekki af Ísraelsþjóðinni heldur frá Kús. a En fljótlega voru þau líka farin að kvarta undan Móse sjálfum. Mirjam og Aron sögðu: „Hefur Jehóva aðeins talað fyrir milligöngu Móse? Hefur hann ekki líka talað fyrir milligöngu okkar?“ – 4. Mósebók 12:1, 2.

Mirjam verður holdsveik

 Af þessu má sjá að hættuleg og bitur viðhorf voru farin að grafa um sig hjá Mirjam og Aroni. Þau voru óánægð með það hvernig Jehóva notaði Móse og vildu meiri völd og áhrif sjálf. Hafði Móse misnotaði völd sín og sóst eftir meiri upphefð? Hann hafði vissulega sína galla en hann var langt frá því að vera framagjarn og stoltur. Biblían segir: „Móse var auðmjúkur maður, auðmjúkastur allra manna á jörðinni.“ Hvað sem því líður þá voru Mirjam og Aron komin út á hálan ís. Frásagan segir: „Jehóva heyrði þetta.“ – 4. Mósebók 12:2, 3.

 Jehóva sagði systkinunum þrem að koma að samfundatjaldinu. Þar kom mikilfenglegur skýstólpinn niður við inngang tjaldsins en hann táknaði nærveru Jehóva. Síðan tók Jehóva til máls. Hann ávítaði Mirjam og Aron, minnti þau á einstakt samband sitt við Móse og það mikla traust sem hann hafði kosið að sýna honum. Hann spurði þau: „Hvernig voguðuð þið ykkur að gagnrýna þjón minn, Móse?“ Mirjam og Aron hljóta að hafa verið óttaslegin. Jehóva leit á virðingarleysi þeirra gagnvart Móse sem virðingarleysi gagnvart sér sjálfum. – 4. Mósebók 12:4–8.

 Svo virðist sem Mirjam hafi átt upptökin og að bróðir hennar hafi tekið afstöðu með henni gegn mágkonu þeirra. Það skýrir hvers vegna Mirjam var refsað. Jehóva sló hana holdsveiki. Þessi hræðilegi sjúkdómur gerði húð hennar ‚hvíta sem snjó‘. Aron auðmýkti sig samstundis fyrir Móse og sárbað hann að biðja Jehóva að fyrirgefa þeim. „Við höfum hegðað okkur heimskulega,“ sagði hann. Hinn auðmjúki Móse hrópaði þá til Jehóva: „Guð, ég bið þig, viltu lækna hana!“ (4. Mósebók 12:9–13) Angistarfull viðbrögð bræðranna gefa til kynna hversu vænt þeim þótti um systur sína, þrátt fyrir galla hennar.

Guð fyrirgefur Mirjam

 Jehóva sýndi miskunn. Mirjam iðraðist og hann læknaði hana. En hann krafðist þess að hún dveldi sjö daga í einangrun fyrir utan búðir Ísraelsmanna. Það hlýtur að hafa verið mjög niðurlægjandi fyrir Mirjam að hlýða og yfirgefa búðirnar með skömm. En trú hennar bjargaði henni. Í hjarta sér vissi hún að Jehóva faðir hennar væri réttlátur og agaði hana vegna þess að hann elskaði hana. Hún gerði því eins og henni var sagt. Hún var sjö langa daga í burtu. Á meðan biðu Hebrearnir í búðunum. Þá sýndi Mirjam aftur trú, í þetta sinn með því að ‚koma til baka‘. – 4. Mósebók 12:14, 15.

 Jehóva agar þá sem hann elskar. (Hebreabréfið 12:5, 6) Hann elskaði Mirjam allt of mikið til að leiða hjá sér hroka hennar. Aginn var sársaukafullur en hann bjargaði henni. Guð tók hana í sátt vegna þess að hún sýndi trú og tók við aganum. Hún lifði á þeim tíma sem ferðalagi Ísraelsþjóðarinnar í eyðimörkinni var að ljúka. Líklega var hún næstum 130 ára þegar hún dó í Kades í óbyggðum Sín. b (4. Mósebók 20:1) Öldum síðar heiðraði Jehóva Mirjam fyrir trúfasta þjónustu sína. Fyrir milligöngu spámannsins Míka rifjaði hann upp fyrir þjóð sinni: ‚Ég leysti þig úr þrælahúsinu. Ég sendi Móse, Aron og Mirjam til þín.‘ – Míka 6:4.

Trú Mirjamar hjálpaði henni að vera auðmjúk þegar Jehóva agaði hana.

 Við getum lært margt af Mirjam. Við þurfum að vernda þá sem eru varnarlausir og tala hugrökk fyrir því sem er rétt, eins og hún gerði sem barn. (Jakobsbréfið 1:27) Við þurfum eins og hún að segja öðrum glöð frá boðskap Guðs. (Rómverjabréfið 10:15) Við þurfum að forðast hættulega eiginleika eins og öfund og biturð. (Orðskviðirnir 14:30) Og við þurfum eins og hún að vera auðmjúk og þiggja leiðréttingu frá Jehóva. (Hebreabréfið 12:5) Þegar við gerum þetta líkjum við sannarlega eftir trú Mirjamar.

a Í tilfelli Sippóru merkir það að hún var frá Kús að hún var frá Arabíu eins og aðrir Midíanítar en ekki frá Eþíópíu.

b Systkinin þrjú dóu í sömu röð og þau fæddust, fyrst Mirjam, síðan Aron og að lokum Móse, að því er virðist á innan við einu ári.