Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Hvað ef barninu mínu leiðist?

Hvað ef barninu mínu leiðist?

 Barnið þitt þarf að vera heima og hefur ekkert að gera. „Mér leiðist,“ segir það. Áður en þú kveikir á sjónvarpinu eða stingur upp á að það spili uppáhaldstölvuleikinn sinn er svolítið sem þú ættir að íhuga.

Börnum sem leiðist – það sem sumir foreldrar hafa lært.

  •   Afþreying og tíminn sem fer í hana gæti aukið á vandann. Robert, sem er faðir, segir: „Fyrir suma krakka virðist daglegt líf leiðinlegt samanborið við að horfa á sjónvarpið eða spila tölvuleiki. Venjulegir hlutir virðast ekki eins skemmtilegir.“

     Barbara konan hans er sammála. Hún segir: „Raunveruleikinn krefst hugsunar og áreynslu og árangurinn kemur ekki alltaf með hraði. Það er leiðinlegt fyrir krakka sem nota mikinn tíma í að horfa á sjónvarpið eða spila tölvuleiki.“

  •   Maður getur fengið slæman samanburð af því að nota mikinn tíma á samfélagsmiðlum. Líf ungrar manneskju getur virst leiðinlegt þegar hún skoðar myndir og myndbönd af því sem aðrir gera. „Manni getur fundist allir aðrir hafa það skemmtilegt meðan maður er sjálfur heima,“ segir stelpa sem heitir Beth.

     Auk þess getur allur tíminn sem fer í að ráfa um á samfélagsmiðlum orðið til þess að manni finnist maður innantómur – og manni leiðist eftir sem áður. „Það heldur þér kannski uppteknum en það skilur ekkert eftir sig,“ segir ungur maður að nafni Chris.

  •   Það getur verið gott að leiðast. Móðir sem heitir Katherine segir að þegar börnum leiðist fái þau tækifæri til að frjóvga hugsunina. Hún segir til dæmis: „Einfaldur kassi getur breyst í tímavél, bíl, bát eða geimskip. Og lak breytt yfir húsgagn verður að tjaldi.“

     Þess vegna er ekki að undra að sálfræðingurinn Sherry Turkle segi að þegar manni leiðist þá „kalli ímyndunaraflið á hann“. a Það er því ekki endilega slæmt að leiðast. Reyndar segir í bókinni Disconnected: „Að leiðast hefur svipuð áhrif á heilann og það að lyfta lóðum hefur á vöðvana.“

 Kjarni málsins: Líttu ekki á það sem vandamál þegar barninu þínu leiðist heldur sem tækifæri til að hjálpa því að verða skapandi.

Barninu mínu leiðist – hvað á ég að gera?

  •   Ef hægt er skaltu leyfa barninu þínu að fara út að leika. Barbara, sem vitnað er í áður, segir: „Það er ótrúlegt að sjá hvernig sólskin og ferskt loft getur feykt leiðindum burt. Um leið og börnin fara að leika sér úti tekur ímyndunaraflið völdin!“

     Ráð Biblíunnar: „Öllu er afmörkuð stund … að hlæja hefur sinn tíma [og] hoppa; hlaupa um hefur sinn tíma.“ – Prédikarinn 3:1, 4, neðanmáls.

     Til umhugsunar: Hvaða tækifæri hef ég til að gefa börnunum þá upplifun að vera oftar úti? Hvað stendur þeim til boða innandyra ef það er ekki hægt að leika sér úti?

  •   Hjálpaðu barninu þínu að hugsa um aðra. Lillian, sem er móðir, mælir með þessu: „Hægt er að slá blettinn fyrir eldri vini eða raka laufblöðin fyrir þá. Það er líka hægt að elda fyrir þá og kíkja við. Það færir sanna gleði að gera eitthvað fyrir aðra.“

     Ráð Biblíunnar: „Örlátum manni farnast vel og sá sem endurnærir aðra endurnærist sjálfur.“ – Orðskviðirnir 11:25.

     Til umhugsunar: Hvernig geturðu hjálpað barninu þínu að finna gleðina af því að gera eitthvað fyrir aðra?

  •   Vertu góð fyrirmynd. Það getur haft áhrif á börnin þín hvernig þú talar um dagleg störf. Sarah, sem er mamma, segir: „Ef við látum líf okkar hljóma eins og það sé leiðinlegt ýtum við undir að börnunum okkar leiðist. En ef við erum jákvæð hjálpum við börnunum okkar að vera það líka.“

     Ráð Biblíunnar: „Sá sem er léttur í lund er alltaf í veislu.“ – Orðskviðirnir 15:15.

     Til umhugsunar: Hvernig tala ég um dagleg störf fyrir framan börnin mín? Hvað sjá þau mig gera þegar mér leiðist?

 Tillaga: Hjálpaðu börnunum þínum að búa til lista yfir það sem hægt er að gera. „Við erum með hugmyndabox þar sem allir í fjölskyldunni geta lagt inn sínar tillögur,“ segir móðir sem heitir Allison.

a Úr bókinni Reclaiming Conversation.