Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Hvernig styðja múrsteinar og aðferðir við að gera þá sem hafa fundist í Babýlon til forna frásögn Biblíunnar?

FORNLEIFAFRÆÐINGAR hafa grafið upp gríðarlegan fjölda múrsteina úr brenndum leir í Babýlon. Þeir voru notaðir til að byggja borgina. Fornleifafræðingurinn Robert Koldewey segir að slíkir múrsteinar hafi verið framleiddir í ofnum „fyrir utan borgina, þar sem fannst góður leir og eldiviður í miklu magni“.

Fornar skrár sýna að embættismenn Babýlonar hafi líka notað ofna sína í hræðilegum tilgangi. Paul-Alain Beaulieu er prófessor með Assýríufræði sem sérsvið við Háskólann í Toronto. Hann segir: „Babýlónskar heimildir … greina frá að konungur hafi gefið fyrirskipun um að kasta í brennandi ofn þeim sem óhlýðnuðust honum eða óvirtu það sem var heilagt.“ Í texta frá tímum Nebúkadnesars konungs segir: „Tortímið þeim, brennið þá, steikið þá … í bakaraofninn með þá … látið reykinn stíga, bindið enda á líf þeirra í logunum.“

Þessi texti minnir lesendur Biblíunnar á atburðina sem sagt er frá í 3. kafla Daníelsbókar. Í frásögunni segir að Nebúkadnesar konungur hafi látið reisa risastórt líkneski úr gulli á Dúrasléttu, fyrir utan borgina Babýlon. Þegar þrír Hebrear, þeir Sadrak, Mesak og Abed Negó, neituðu að falla fram fyrir líkneskið, varð Nebúkadnesar ofsareiður, gaf skipun um að kynda ofninn „sjöfalt heitar en venjulega“ og lét „kasta [mönnunum þrem] í logandi eldsofninn“. Máttugur engill bjargaði þeim frá vísum dauða. – Dan. 3:1–6, 19–28.

© The Trustees of the British Museum. Licensed under CC BY-NC-SA 4.0. Source

Áletrun á múrsteini úr brenndum leir með nafni Nebúkadnesars.

Múrsteinarnir frá Babýlon staðfesta frásögn Biblíunnar. Á sumum þeirra er áletrun þar sem konungurinn er lofaður. Á einni áletruninni segir: „Nebúkadnesar konungur Babýlonar … höllin, bústaðurinn sem ég, hinn mikli konungur, hef byggt … megi afkomendur mínir ríkja þaðan að eilífu.“ Þessi áletrun svipar til þess sem segir í Daníel 4:30, en þar gortar Nebúkadnesar: „Er þetta ekki Babýlon hin mikla sem ég hef reist sem konungssetur með eigin styrk og mætti, mikilfengleika mínum til dýrðar?“