Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Heyrnarleysi hefur ekki aftrað mér að kenna öðrum

Heyrnarleysi hefur ekki aftrað mér að kenna öðrum

Ég skírðist árið 1941, þá 12 ára gamall. En það var ekki fyrr en árið 1946 að ég skildi sannleika Biblíunnar í raun og veru. Hvernig stóð á því? Mig langar til að segja ykkur svolítið frá sjálfum mér.

Á ÖÐRUM áratug síðustu aldar fluttust foreldrar mínir frá Tbílísí í Georgíu og settust að á litlum bóndabæ skammt frá Pelly í Saskatchewan í vesturhluta Kanada. Ég fæddist árið 1928, yngstur sex systkina. Pabbi dó hálfu ári áður en ég fæddist og mamma dó þegar ég var enn kornabarn. Lucy, elsta systir mín, dó skömmu síðar, 17 ára gömul. Eftir það tók Nick, móðurbróðir minn, okkur systkinin í fóstur.

Dag einn, þegar ég var smábarn, kom fjölskylda mín auga á mig þar sem ég var að toga í taglið á einum af hestunum. Þau urðu skelfingu lostin og hrópuðu að mér að hætta af því að þau óttuðust að hesturinn myndi sparka í mig – en ég sýndi engin viðbrögð. Ég sneri baki í þau og heyrði ekki hrópin í þeim. Til allrar hamingju varð mér ekki meint af. En þennan dag uppgötvaði fjölskyldan að ég var heyrnarlaus.

Fjölskylduvinur lagði til að ég gengi í skóla með öðrum heyrnarlausum börnum. Nick frændi skráði mig því í skóla fyrir heyrnarlausa í Saskatoon í Saskatchewan. Skólinn var í nokkurra klukkustunda fjarlægð frá fjölskyldunni og ég var dauðskelkaður, enda aðeins fimm ára gamall. Ég gat aðeins heimsótt fjölskylduna á hátíðisdögum og á sumrin. Með tímanum lærði ég táknmál og naut þess að leika við hin börnin.

ÉG KYNNIST SANNLEIKA BIBLÍUNNAR

Marion, næstelsta systir mín, giftist Bill Danylchuck árið 1939 og þau tóku okkur Frances, systur mína, að sér. Þau voru þau fyrstu í fjölskyldunni sem komust í kynni við votta Jehóva. Í sumarfríunum kenndu þau mér eftir bestu getu það sem þau lærðu í Biblíunni. Satt að segja gengu samskiptin nokkuð brösuglega þar sem þau kunnu ekki táknmál. En þau sáu að mér þótti ákaflega vænt um það sem ég lærði um Jehóva. Ég skildi að þau hlytu að fylgja því sem Biblían kennir og fór því með þeim þegar þau boðuðu trúna. Ekki leið á löngu þar til ég vildi skírast, og 5. september 1941 skírði Bill mig í stáltunnu sem búið var að fylla af vatni úr brunni. Vatnið var alveg ótrúlega kalt!

Með hópi heyrnarlausra á móti í Cleveland í Ohio árið 1946.

Þegar ég fór heim í sumarfríinu 1946 sóttum við mót í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum. Fyrsta mótsdaginn skiptust systur mínar á að skrifa minnispunkta svo að ég gæti fylgst með dagskránni. En ég varð himinlifandi þegar ég komst að því annan daginn að á staðnum var táknmálshópur sem fylgdist með dagskránni með hjálp túlks. Núna gat ég náð öllu sem fór fram! Það var dásamlegt að geta loksins skilið sannleika Biblíunnar vandræðalaust!

ÉG KENNI SANNLEIKANN

Stuttu áður hafði síðari heimsstyrjöldinni lokið og þjóðernishyggjan var í algleymingi. Eftir mótið var ég harðákveðinn í að sýna Jehóva trúfesti í skólanum. Ég hætti því að taka þátt í að hylla fánann og fara með þjóðsönginn. Ég hætti líka að taka þátt í hátíðahöldum og fara í kirkju með skólanum. Starfsfólk skólans var ekki hrifið af þessu. Það hafði í hótunum og beitti lygum til að reyna að telja mér hughvarf. Allt olli þetta talsverðum usla meðal samnemenda minna en það gaf mér tækifæri til að vitna fyrir þeim. Sumir skólafélaga minna, þar á meðal Larry Androsoff, Norman Dittrick og Emil Schneider, tóku með tímanum við sannleikanum og hafa þjónað Jehóva trúfastlega allt fram á þennan dag.

Þegar ég heimsótti aðrar borgir gerði ég alltaf mitt besta til að boða heyrnarlausum trúna. Ég vitnaði til dæmis fyrir Eddie Tager á félagsheimili fyrir heyrnarlausa, en hann var ungur maður sem tilheyrði gengi. Hann tilheyrði síðan táknmálssöfnuði í Laval í Quebec þar til hann dó á síðasta ári. Ég hitti líka ungan mann að nafni Juan Ardanez en hann rannsakaði Biblíuna í þaula til að fullvissa sig um sannleiksgildi hennar líkt og Berojumenn gerðu. (Post. 17:10, 11) Hann tók líka við sannleikanum og þjónaði Jehóva trúfastur sem öldungur í Ottawa í Ontario allt til dauðadags.

Að boða trúna meðal almennings snemma á sjötta áratugnum.

Ég fluttist til Vancouver árið 1950. Ég hef yndi af að boða heyrnarlausum trúna en ég gleymi aldrei þegar ég hitti Chris Spicer, heyrandi konu sem ég vitnaði fyrir á götunni. Hún þáði blaðaáskrift og vildi að ég hitti Gary, eiginmann sinn. Ég heimsótti þau og við áttum langar samræður sem fóru fram skriflega. Síðan liðu nokkur ár þar til við hittumst næst. Mér til mikillar undrunar komu þau auga á mig innan um fjölda fólks á umdæmismóti í Toronto í Ontario. Gary ætlaði að skírast einmitt þennan dag. Þessi dásamlega upplifun minnti mig á mikilvægi þess að halda áfram að boða trúna því að við vitum aldrei hvar eða hvenær sannleikurinn festir rætur.

Seinna fluttist ég aftur til Saskatoon. Þar hitti ég móður sem bað mig um að aðstoða heyrnarlausar tvíburadætur sínar, Jean og Joan Rothenberger, við biblíunám. Þær voru nemendur í sama skóla fyrir heyrnarlausa og ég hafði verið í. Ekki leið á löngu þar til systurnar fóru að segja bekkjarfélögunum frá því sem þær voru að læra. Með tímanum urðu fimm í bekknum vottar Jehóva. Ein þeirra var Eunice Colin. Ég hafði hitt Eunice fyrst þegar ég var á lokaárinu í skólanum. Þá gaf hún mér nammi og spurði hvort ég vildi vera vinur sinn. Síðar varð hún mjög mikilvægur hluti af lífi mínu – hún varð konan mín.

Með Eunice árið 1960 og 1989.

Þegar móðir hennar komst að því að hún var í biblíunámi bað hún skólastjórann að tala hana til. Hann reyndi það og gerði jafnvel biblíunámsritin hennar upptæk. En Eunice var ákveðin í að vera Jehóva trú. Þegar hún vildi skírast sögðu foreldrar hennar við hana að hún fengi ekki að búa hjá þeim lengur ef hún gerðist vottur Jehóva. Það fór svo að Eunice fluttist að heiman 17 ára gömul og vottafjölskylda í nágrenninu tók hana inn á heimili sitt. Hún hélt biblíunáminu áfram og lét svo skírast. Þegar við giftum okkur árið 1960 komu foreldrar hennar ekki í brúðkaupið. En með árunum fóru þau að bera meiri virðingu fyrir okkur þegar þau sáu hvaða áhrif trúin hafði á okkur og hvernig við ólum börnin upp.

JEHÓVA HEFUR ANNAST MIG

Nicholas, sonur minn, og Deborah, konan hans, starfa á Betel í Lundúnum.

Við hjónin ólum upp sjö heyrandi drengi þótt við værum bæði heyrnarlaus. Það var hægara sagt en gert en við sáum til þess að þeir lærðu táknmál til að við gætum kennt þeim sannleikann og átt góð tjáskipti við þá. Bræður og systur í söfnuðinum voru okkur mikil hjálp. Eitt foreldri lét okkur til dæmis fá miða sem á stóð að einn drengjanna okkar væri að nota ljót orð í ríkissalnum. Við gátum tekið strax á málinu. Fjórir sona okkar, James, Jerry, Nicholas og Steven, þjóna Jehóva trúfastlega ásamt eiginkonum sínum og börnum. Þeir eru allir öldungar. Nicholas og Deborah, konan hans, hjálpa auk þess til við að þýða á táknmál á deildarskrifstofunni í Bretlandi, og Steven og Shannon, konan hans, tilheyra teymi sem þýðir á táknmál á deildarskrifstofunni í Bandaríkjunum.

Synir mínir, James, Jerry og Steven, styðja boðunina á táknmáli á ýmsa vegu ásamt eiginkonum sínum.

Eunice lést mánuði fyrir 40 ára brúðkaupsafmæli okkar eftir að hafa barist við krabbamein. Hún sýndi mikið hugrekki á þessum erfiða tíma. Trúin á upprisuna gaf henni styrk. Ég þrái að sjá þann dag þegar við hittumst á ný.

Faye og James, Jerry og Evelyn, Shannan og Steven

Í febrúar 2012 datt ég og mjaðmarbrotnaði, og það varð ljóst að ég þyrfti á aðstoð að halda. Ég flutti því inn til eins sonar míns og konunnar hans. Við tilheyrum nú táknmálssöfnuðinum í Calgary þar sem ég þjóna sem öldungur. Reyndar er þetta í fyrsta sinn sem ég er í táknmálssöfnuði. Hugsaðu þér! Ég hef verið í enskumælandi söfnuði allt frá árinu 1946. Hvernig gat ég haldið sambandinu við Jehóva sterku öll þessi ár? Hann hefur staðið við loforð sitt um að annast munaðarlausa. (Sálm. 10:14) Ég er þakklátur öllum þeim sem hafa hjálpað mér með skriflegum samskiptum og lagt sig fram um að læra táknmál og túlka fyrir mig.

Þegar ég sótti Brautryðjendaskólann á amerísku táknmáli, 79 ára gamall.

Satt að segja varð ég stundum gramur og vildi gefast upp af því að ég skildi ekki það sem var sagt eða mér fannst enginn skilja þarfir heyrnarlausra. En þá hugsaði ég um það sem Pétur sagði við Jesú: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ (Jóh. 6:66-68) Ég hef lært að vera þolinmóður, rétt eins og margir aðrir bræður og systur af minni kynslóð. Ég hef lært að bíða eftir Jehóva og söfnuði hans, og hvílík blessun sem það hefur verið! Nú hef ég ógrynni af andlegri fæðu á mínu máli og ég nýt þess að eiga félagsskap við trúsystkini á samkomum og mótum sem fara fram á táknmáli. Ég hef sannarlega átt ánægjulega og gefandi ævi í þjónustunni við Jehóva Guð.