Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ert þú haldinn fordómum?

Ert þú haldinn fordómum?

Fordómar eru eins og veirusjúkdómur. Þeir eru skaðlegir og fólk getur verið með þá án þess að gera sér grein fyrir því.

Fólk getur haft fordóma bæði gagnvart þeim sem eru af öðru þjóðerni, kynþætti, ættflokki eða tungumálahópi og þeim sem hafa aðra trú, eru af öðru kyni eða þjóðfélagsstétt. Sumir dæma fólk eftir aldri, menntun, fötlun eða útliti. Þrátt fyrir það finnst þeim ekki að þeir séu fordómafullir.

Getur verið að þú sért haldinn fordómum? Við getum flest komið auga á fordóma hjá öðrum. En við getum átt erfitt með að koma auga á þá hjá okkur sjálfum. Sannleikurinn er sá að við höfum öll einhverja fordóma. Þegar fólk hugsar neikvætt um ákveðinn hóp og hittir síðan einhvern úr þeim hópi, segir David Williams, prófessor í félagsfræði, að það „komi öðruvísi fram við hann án þess að gera sér grein fyrir því“.

Til dæmis er minnihlutahópur í því Balkanlandi sem Jovica býr. „Ég hélt að það gæti enginn góður einstaklingur verið í þessum hópi,“ viðurkennir hann. „En mér fannst ég ekki vera með fordóma. Ég taldi þetta bara vera staðreynd.“

Margar ríkisstjórnir setja lög til að sporna við kynþáttahatri og öðrum fordómum. En fólk heldur áfram að vera með fordóma. Hvers vegna? Vegna þess að slík lög taka aðeins á því sem fólk gerir. Þau geta ekki stjórnað tilfinningum og hugsunum þess. Og fordómar eiga rætur í huganum og hjartanu. Er þá ekki hægt að hafa betur í baráttunni gegn fordómum? Eða er kannski hægt að sigrast á þeim?

Í næstu greinum er rætt um fimm meginreglur sem hafa hjálpað mörgum að berjast gegn eigin fordómum.