Fimmta Mósebók 4:1–49

  • Fólkið hvatt til að hlýða (1–14)

    • Gleymið ekki verkum Guðs (9)

  • Jehóva krefst óskiptrar hollustu (15–31)

  • Enginn er Guð nema Jehóva (32–40)

  • Griðaborgir austan Jórdanar (41–43)

  • Inngangsorð að lögunum (44–49)

4  „Hlustið nú, Ísraelsmenn, á lögin og ákvæðin sem ég kenni ykkur að halda. Þá munuð þið lifa og komast inn í landið sem Jehóva, Guð forfeðra ykkar, gefur ykkur og taka það til eignar.  Þið megið ekki bæta neinu við þau fyrirmæli sem ég gef ykkur né sleppa neinu heldur skuluð þið halda boðorð Jehóva Guðs ykkar sem ég flyt ykkur.  Þið hafið séð með eigin augum hvað Jehóva gerði í máli Baals Peórs. Jehóva Guð ykkar upprætti úr hópi ykkar alla þá sem fylgdu Baal Peór.  En þið sem hafið haldið ykkur fast við Jehóva Guð ykkar eruð öll á lífi fram á þennan dag.  Ég hef kennt ykkur lög og ákvæði eins og Jehóva Guð minn hefur sagt mér að gera til að þið fylgið þeim í landinu sem þið takið nú til eignar.  Þið skuluð fylgja þeim vandlega því að þá munu þjóðirnar sem heyra um öll þessi ákvæði átta sig á að þið eruð vitur og skynsöm og segja: ‚Fólk af þessari miklu þjóð er greinilega viturt og skynsamt.‘  Hvaða stórþjóð á guði sem eru eins nálægir henni og Jehóva Guð er okkur þegar við áköllum hann?  Og hvaða stórþjóð hefur eins réttlát lög og ákvæði og þau lög sem ég legg fyrir ykkur í dag?  Vertu varkár og gættu þín svo að þú gleymir ekki því sem þú hefur séð með eigin augum. Varðveittu það í hjarta þér alla ævidaga þína og segðu börnum þínum og barnabörnum frá því. 10  Daginn sem þú stóðst frammi fyrir Jehóva Guði þínum við Hóreb sagði Jehóva við mig: ‚Kallaðu saman fólkið svo að ég geti látið það heyra orð mín og það læri að óttast mig eins lengi og það lifir í landinu og geti kennt börnum sínum.‘ 11  Þið komuð þá og stóðuð við fjallsræturnar, og fjallið stóð í ljósum logum og eldurinn teygði sig allt til himins.* Það var myrkur og himinninn var þakinn dimmum skýjum. 12  Jehóva talaði til ykkar úr eldinum. Þið heyrðuð orðin en sáuð engan – þið heyrðuð bara rödd. 13  Og hann birti ykkur sáttmála sinn og sagði ykkur að halda hann – boðorðin tíu.* Síðan skrifaði hann þau á tvær steintöflur. 14  Jehóva sagði mér þá að kenna ykkur lög og ákvæði sem þið eigið að halda í landinu sem þið farið inn í og takið til eignar. 15  Þið sáuð enga mynd daginn sem Jehóva talaði til ykkar úr eldinum við Hóreb. Gætið ykkar því vandlega 16  svo að þið gerið ekkert skaðvænlegt með því að gera ykkur úthöggvið líkneski í einhverri mynd, hvort heldur af karli eða konu, 17  eftirmynd af nokkru dýri á jörðinni eða fugli sem flýgur um loftið 18  eða eftirmynd af nokkru sem skríður á jörðinni eða nokkrum fiski í vötnunum á jörðinni. 19  Og þegar þú horfir til himins og sérð sólina, tunglið og stjörnurnar – allan himinsins her – skaltu ekki láta tælast til að falla fram fyrir þeim og þjóna þeim. Jehóva Guð þinn hefur gefið þau öllum þjóðum undir himninum. 20  En ykkur hefur Jehóva leitt út úr járnbræðsluofninum, út úr Egyptalandi, til að þið yrðuð eignarþjóð* hans eins og þið eruð í dag. 21  Jehóva reiddist mér vegna ykkar og sór að ég fengi ekki að fara yfir Jórdan eða inn í landið góða sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur að erfðahlut. 22  Ég á að deyja í þessu landi. Ég fer ekki yfir Jórdan en þið farið yfir hana og takið þetta góða land til eignar. 23  Gætið þess að gleyma ekki sáttmálanum sem Jehóva Guð ykkar gerði við ykkur og gerið ykkur ekki úthöggvið líkneski, nokkra eftirmynd af því tagi sem Jehóva Guð ykkar bannar ykkur að gera. 24  Jehóva Guð ykkar er eyðandi eldur, Guð sem krefst óskiptrar hollustu. 25  Ef svo fer, eftir að þið hafið búið lengi í landinu og eignast börn og barnabörn, að þið hegðið ykkur skaðvænlega og gerið úthöggvið líkneski af einhverju tagi og gerið það sem er illt í augum Jehóva Guðs ykkar svo að þið misbjóðið honum 26  þá kalla ég himin og jörð til vitnis gegn ykkur í dag um að ykkur verður snarlega útrýmt úr landinu sem þið farið nú inn í yfir Jórdan og takið til eignar. Þá lifið þið ekki lengi þar heldur verður ykkur gereytt. 27  Jehóva mun dreifa ykkur meðal þjóðanna og aðeins fáein ykkar lifa af meðal þeirra þjóða sem Jehóva hrekur ykkur til. 28  Þar þurfið þið að þjóna guðum úr tré og steini sem eru handaverk manna, guðum sem hvorki sjá né heyra, borða né finna lykt. 29  Ef þið leitið Jehóva Guðs ykkar þar munuð þið finna hann, ef þið leitið hans af öllu hjarta og allri sál.* 30  Á ókomnum tíma, þegar allt þetta hefur komið yfir ykkur og þið eruð í nauðum stödd, þá munuð þið snúa aftur til Jehóva Guðs ykkar og hlusta á hann 31  því að Jehóva Guð ykkar er miskunnsamur Guð. Hann mun ekki yfirgefa ykkur né láta ykkur farast og hann gleymir ekki sáttmálanum sem hann gerði við forfeður ykkar. 32  Spyrjið um fyrri daga, fyrir ykkar tíð, um það sem hefur gerst síðan Guð skapaði manninn á jörðinni. Leitið frá öðrum endimörkum himins til hinna. Hefur nokkuð jafn stórfenglegt gerst áður eða hefur heyrst um nokkuð slíkt? 33  Hefur nokkur önnur þjóð heyrt rödd Guðs út úr eldi eins og þið hafið heyrt og samt haldið lífi? 34  Eða hefur Guð nokkurn tíma reynt að ná einni þjóð af annarri með dómum,* táknum, kraftaverkum og stríði, og með sterkri hendi, útréttum handlegg og ógnvekjandi verkum eins og Jehóva Guð ykkar gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi? 35  Þið hafið sjálf fengið að sjá þetta til að þið vitið að Jehóva er hinn sanni Guð. Enginn er Guð nema hann. 36  Hann lét ykkur heyra rödd sína af himni til að leiðrétta ykkur og hann lét ykkur sjá sinn mikla eld á jörðinni, og þið heyrðuð orð hans út úr eldinum. 37  Hann elskaði forfeður ykkar og valdi afkomendur þeirra. Þess vegna hafði hann vakandi auga með ykkur þegar hann leiddi ykkur út úr Egyptalandi með miklum mætti sínum. 38  Hann hrakti burt þjóðir sem voru meiri og voldugri en þið til að leiða ykkur inn í land þeirra og gefa ykkur það að erfðalandi eins og það er nú orðið. 39  Þess vegna skuluð þið nú í dag játa og hugfesta að Jehóva er hinn sanni Guð uppi á himnum og niðri á jörð. Enginn annar er til. 40  Haldið lög hans og boðorð sem ég legg fyrir ykkur í dag til að ykkur og börnum ykkar gangi vel og þið lifið lengi í landinu sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur.“ 41  Um þessar mundir valdi Móse þrjár borgir austan megin við Jórdan. 42  Ef maður varð öðrum óviljandi að bana, og hataði hann ekki fyrir, átti hann að flýja til einnar af þessum borgum til að halda lífi. 43  Borgirnar eru Beser í óbyggðunum á hásléttunni fyrir Rúbeníta, Ramót í Gíleað fyrir Gaðíta og Gólan í Basan fyrir Manassíta. 44  Þetta eru lögin sem Móse lagði fyrir Ísraelsmenn. 45  Þetta eru þær áminningar, ákvæði og lög sem Móse gaf Ísraelsmönnum eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland. 46  Þeir voru þá á Jórdansvæðinu, í dalnum á móts við Bet Peór í landi Síhons, konungs Amoríta sem bjó í Hesbon, en Móse og Ísraelsmenn unnu hann eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland. 47  Þeir lögðu undir sig land hans og land Ógs, konungs í Basan, Amorítakonunganna tveggja á svæðinu austan við Jórdan. 48  Svæðið náði frá Aróer, sem er á brún Arnondals, að Síónfjalli, það er Hermon, 49  yfir allt Araba austan við Jórdan og að Arabavatni* undir Pisgahlíðum.

Neðanmáls

Orðrétt „upp í hjarta himinsins“.
Orðrétt „orðin tíu“.
Eða „erfðaþjóð“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „prófraunum“.
Það er, Saltasjó (Dauðahafi).