Önnur Mósebók 32:1–35

  • Gullkálfurinn (1–35)

    • Móse heyrir óvenjulegan söng (17, 18)

    • Móse brýtur steintöflurnar (19)

    • Levítarnir trúir Jehóva (26–29)

32  Þegar fólkið sá að það dróst að Móse kæmi ofan af fjallinu safnaðist það kringum Aron og sagði við hann: „Gerðu guð handa okkur til að fara fyrir okkur því að við vitum ekki hvað er orðið um þennan Móse, manninn sem leiddi okkur út úr Egyptalandi.“  Aron svaraði: „Takið gullhringina úr eyrum kvenna ykkar, sona og dætra og færið mér þá.“  Allt fólkið tók þá gullhringina úr eyrunum og færði Aroni þá.  Hann tók við gullinu, mótaði það með meitli og gerði úr því líkneski* af kálfi. Þá sagði fólkið: „Ísrael, þetta er Guð þinn sem leiddi þig út úr Egyptalandi.“  Þegar Aron sá þetta reisti hann altari frammi fyrir kálfinum. Síðan kallaði hann: „Á morgun verður haldin hátíð til heiðurs Jehóva.“  Fólkið var því snemma á fótum morguninn eftir og færði brennifórnir og samneytisfórnir. Því næst settist það niður til að borða og drekka og stóð síðan upp til að skemmta sér.  Jehóva sagði nú við Móse: „Farðu niður af fjallinu því að fólk þitt, sem þú leiddir út úr Egyptalandi, hefur gert það sem er illt.  Það var ekki lengi að fara út af þeirri braut sem ég sagði því að ganga. Það hefur búið sér til líkneski* af kálfi og það fellur fram fyrir kálfinum, færir honum fórnir og segir: ‚Ísrael, þetta er Guð þinn sem leiddi þig út úr Egyptalandi.‘“  Jehóva sagði síðan við Móse: „Ég sé að þetta er þrjóskt* fólk. 10  Farðu nú frá mér því að ég ætla að útrýma því í brennandi reiði minni og í staðinn gera þig að mikilli þjóð.“ 11  Móse bað þá innilega til* Jehóva Guðs síns: „Jehóva, hvers vegna ætti reiði þín að blossa upp gegn fólki þínu eftir að þú hefur leitt það út úr Egyptalandi með miklum mætti og voldugri hendi? 12  Hvers vegna ættu Egyptar að geta sagt: ‚Hann hafði illt í hyggju þegar hann leiddi þá burt. Hann ætlaði að drepa þá á fjöllum uppi og uppræta þá af yfirborði jarðar‘? Viltu láta af brennandi reiði þinni og hætta við* að leiða þessa ógæfu yfir fólk þitt? 13  Mundu eftir þjónum þínum, Abraham, Ísak og Ísrael. Þú sórst við sjálfan þig og sagðir: ‚Ég geri afkomendur ykkar eins marga og stjörnur á himni og ég gef þeim allt þetta land sem ég hef tiltekið til að þeir eignist það til frambúðar.‘“* 14  Jehóva hætti þá við* að leiða yfir fólk sitt ógæfuna sem hann hafði talað um. 15  Móse fór nú niður af fjallinu og hélt á báðum vitnisburðartöflunum. Þær voru áletraðar báðum megin, bæði á framhlið og bakhlið. 16  Það var Guð sem gerði töflurnar og hann risti letrið í þær. 17  Þegar Jósúa heyrði hrópin og hávaðann í fólkinu sagði hann við Móse: „Það hljómar eins og verið sé að berjast í búðunum.“ 18  En Móse svaraði: „Þetta er ekki sigursöngur* sem ég heyriog það er ekki kvein undan ósigri.Það er annars konar söngur sem ég heyri.“ 19  Þegar Móse nálgaðist búðirnar og sá kálfinn og dansinn blossaði reiði hans upp og hann kastaði frá sér töflunum og mölbraut þær við fjallsræturnar. 20  Hann tók kálfinn sem þeir höfðu gert, brenndi hann í eldi og muldi hann mélinu smærra. Síðan dreifði hann duftinu í vatn og lét Ísraelsmenn drekka það. 21  Móse spurði síðan Aron: „Hvað gerði þetta fólk til að þú skyldir kalla þessa miklu synd yfir það?“ 22  „Reiðstu ekki, herra minn,“ svaraði Aron. „Þú veist vel að fólkið hefur tilhneigingu til að gera illt. 23  Það sagði við mig: ‚Gerðu guð handa okkur til að fara á undan okkur því að við vitum ekki hvað er orðið um þennan Móse, manninn sem leiddi okkur út úr Egyptalandi.‘ 24  Þá svaraði ég: ‚Allir sem eiga gull skulu taka það af sér og láta mig fá það.‘ Ég kastaði því á eldinn og þá varð þessi kálfur til.“ 25  Móse sá að fólkið var taumlaust því að Aron hafði gefið því lausan tauminn þannig að það varð sér til skammar frammi fyrir andstæðingum sínum. 26  Móse tók sér þá stöðu í hliði búðanna og sagði: „Hverjir standa með Jehóva? Komið til mín!“ Allir Levítarnir söfnuðust þá saman hjá honum. 27  Hann sagði við þá: „Þetta segir Jehóva Guð Ísraels: ‚Þið skuluð hver og einn gyrða ykkur sverði, fara um allar búðirnar frá einu hliði til annars og taka af lífi bræður ykkar, nágranna og nána vini.‘“ 28  Levítarnir gerðu eins og Móse sagði og á þeim degi féllu um 3.000 manns. 29  Þá sagði Móse: „Aðgreinið ykkur* í dag til þjónustu Jehóva því að þið hafið allir farið gegn sonum ykkar og bræðrum. Þess vegna veitir hann ykkur blessun í dag.“ 30  Strax daginn eftir sagði Móse við fólkið: „Þið hafið framið mjög alvarlega synd. Nú ætla ég að fara upp til Jehóva til að kanna hvort ég geti bætt fyrir synd ykkar.“ 31  Móse sneri síðan aftur til Jehóva og sagði: „Fólkið hefur framið grafalvarlega synd. Það gerði sér guð úr gulli! 32  Viltu fyrirgefa synd þess? Ef ekki, viltu þá afmá mig úr bók þinni sem þú hefur skrifað?“ 33  En Jehóva svaraði Móse: „Ég afmái úr bók minni hvern þann sem hefur syndgað gegn mér. 34  Farðu nú og leiddu fólkið þangað sem ég hef sagt þér. Engill minn fer á undan þér, en daginn sem ég geri upp sakirnar refsa ég mönnum fyrir synd þeirra.“ 35  Jehóva sendi síðan plágu yfir fólkið vegna kálfsins sem það fékk Aron til að gera.

Neðanmáls

Eða „steypt líkneski“.
Eða „steypt líkneski“.
Orðrétt „harðsvírað“.
Eða „reyndi þá að milda“.
Eða „sjá eftir að ætla“.
Eða „það verði varanleg eign þeirra“.
Eða „sá þá eftir að hafa ætlað“.
Eða „söngur um afreksverk“.
Orðrétt „Fyllið hendur ykkar“.